Bygging musterisins undirbúin

1 Þá sagði Davíð: „Þetta er hús Drottins Guðs og þetta er brennifórnaraltari Ísraels.“
2 Því næst skipaði Davíð að safna skyldi saman aðkomumönnunum í landi Ísraels. Hann gerði þá að steinsmiðum sem áttu að höggva til steina til þess að reisa hús Guðs. 3 Davíð lét einnig taka til járn í naglana í vængjahurðir hliðanna og í slárnar og svo mikinn eir að ekki varð veginn. 4 Einnig lét hann vinna mikið magn sedrusbjálka sem íbúar í Sídon og Týrus höfðu sent honum. 5 Davíð hugsaði með sér: „Salómon, sonur minn, er ungur og óreyndur en húsið, sem reisa á Drottni, skal verða mikið og stórfenglegt og vekja aðdáun um öll lönd. Þess vegna ætla ég að undirbúa byggingu þess.“ Davíð var vel á veg kominn með undirbúninginn áður en hann dó.
6 Síðan kallaði hann Salómon, son sinn, fyrir sig og fól honum að reisa Drottni, Guði Ísraels, hús. 7 Davíð sagði við Salómon: „Sonur minn. Ég hef sjálfur haft í huga að reisa nafni Drottins, Guðs míns, hús. 8 En svohljóðandi orð Drottins kom til mín: Þú hefur úthellt miklu blóði og háð mikil stríð. Þú skalt ekki reisa nafni mínu hús af því að þú hefur úthellt miklu blóði á jörðina fyrir augliti mínu. 9 Hins vegar hefur þér fæðst sonur. Hann verður maður friðarins: Ég mun veita honum frið fyrir öllum fjandmönnum hans allt umhverfis. Nafn hans er Salómon og ég mun veita Ísrael hvíld og velgengni á stjórnartíma hans. 10 Hann skal reisa nafni mínu hús og hann verður mér sonur og ég verð honum faðir. Ég mun ævinlega styðja hans konunglega hásæti. 11 Sonur minn. Nú sé Drottinn með þér svo að þér megi takast að reisa hús Drottins, Guðs þíns, eins og hann hefur sagt um þig að þú munir gera. 12 Drottinn gefi þér skynsemi og skilning. Hann mun setja þig yfir Ísrael og hjálpa þér að halda lögmál Drottins, Guðs þíns. 13 Þér mun takast þetta ef þú gætir þess að fara eftir lögum og reglum sem Drottinn fól Móse handa Ísrael. Vertu hugrakkur og sterkur. Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast. 14 Þrátt fyrir erfiðleika mína hef ég lagt fram hundrað þúsund talentur gulls og milljón talentur silfurs til húss Drottins, auk þess svo mikinn eir og járn að ekki verður vegið. Ég hef einnig unnið við og steina og þú munt geta bætt við það. 15 Þú hefur fjölmarga handverksmenn, steinsmiði, múrara, trésmiði og óteljandi reynda hagleiksmenn sem geta unnið að allri smíði 16 úr gulli, silfri, eir og járni. Byrjaðu því verkið þegar í stað og Drottinn sé með þér.“
17 Því næst skipaði Davíð öllum höfðingjum Ísraels að hjálpa Salómon, syni sínum: 18 „Hefur Drottinn, Guð ykkar, ekki verið með ykkur og veitt ykkur frið allt um kring? Hann hefur selt íbúa landsins í hendur mér svo að landið hefur verið lagt undir Drottin og lýð hans. 19 Einbeitið ykkur nú að því að leita Drottins, Guðs ykkar. Takið að reisa helgidóm Drottins, Guðs, til þess að unnt verði að flytja sáttmálsörk Drottins og hin heilögu áhöld Guðs í húsið sem reist verður nafni Drottins.“