Jefta kjörinn leiðtogi

1 Jefta Gíleaðsson var mikið hraustmenni en hann var óskilgetinn. Gíleað hafði getið Jefta 2 en kona Gíleaðs fæddi honum syni og þegar þeir uxu úr grasi ráku þeir Jefta burt og sögðu við hann: „Ekki hlýtur þú arf í ætt okkar. Þú ert sonur annarrar konu.“ 3 Þá flýði Jefta burt frá bræðrum sínum og settist að í landinu Tób. En lausamenn söfnuðust til Jefta og fylgdu honum. 4 Nokkru síðar tóku Ammónítar að herja á Ísrael 5 og þegar Ammónítar herjuðu á Ísrael fóru öldungarnir í Gíleað til landsins Tób til þess að sækja Jefta. 6 Þeir sögðu við Jefta: „Komdu og vertu fyrirliði okkar. Þá getum við barist við Ammóníta.“ 7 Jefta svaraði öldungunum í Gíleað: „Hafið þið ekki sýnt mér fjandskap og hrakið mig frá fjölskyldu minni? Hví komið þið þá til mín nú þegar þið eruð í nauðum staddir?“ 8 Öldungarnir í Gíleað sögðu við Jefta: „Við erum komnir til þín til þess að þú komir með okkur og berjist við Ammóníta. Þá skaltu verða höfðingi allra okkar sem búum í Gíleað.“ 9 Þá sagði Jefta við öldungana í Gíleað: „Ef þið fylgið mér til þess að berjast við Ammóníta og Drottinn gefur þá mér á vald, þá vil ég vera höfðingi yfir ykkur.“ 10 Þá sögðu öldungarnir í Gíleað við Jefta: „Drottinn hlusti á og votti orð okkar og refsi okkur ef við förum ekki að orðum þínum.“ 11 Jefta fór með öldungunum í Gíleað og lýðurinn tók hann til höfðingja og leiðtoga yfir sér. Og Jefta endurtók orð sín öll frammi fyrir Drottni í Mispa.
12 Þá gerði Jefta sendimenn á fund konungs Ammóníta og lét segja honum: „Hvað áttu sökótt við mig þegar þú kemur gegn mér til þess að herja á land mitt?“ 13 Konungur Ammóníta svaraði sendimönnum Jefta: „Ísrael lagði undir sig land mitt þegar hann kom frá Egyptalandi, frá Arnon til Jabbok og allt að Jórdan. Skilaðu því nú aftur ófriðarlaust.“ 14 Jefta gerði enn menn á fund konungs Ammóníta 15 og lét segja honum: „Svo segir Jefta: Ísrael lagði hvorki undir sig Móabsland né land Ammóníta 16 því að þegar þeir fóru af Egyptalandi og Ísrael hafði farið um eyðimörkina að Sefhafi og var kominn til Kades, 17 þá sendi Ísrael menn á fund konungsins í Edóm og lét segja honum: Leyfðu mér að fara um land þitt. En konungurinn í Edóm daufheyrðist við. Þá sendi hann og til konungsins í Móab en hann hafnaði bóninni. Hélt Ísrael þá kyrru fyrir í Kades, 18 hélt síðan áfram um eyðimörkina, fór á svig við Edómsland og Móabsland, kom austan að Móabslandi og setti búðir sínar hinum megin við Arnon. En inn yfir landamæri Móabs komu þeir ekki því að við Arnon eru landamæri Móabs. 19 Þá gerði Ísrael sendimenn á fund Síhons Amorítakonungs, konungs í Hesbon, og lét segja honum: Leyfðu okkur að fara um land þitt þangað sem ferð okkar er heitið. 20 Síhon treysti Ísrael þó ekki svo vel að hann vildi leyfa honum að fara um land sitt heldur safnaði hann öllu liði sínu, sló upp herbúðum í Jahas og barðist við Ísrael. 21 En Drottinn, Guð Ísraels, gaf Síhon og allt hans lið í hendur Ísraels svo að þeir unnu sigur á þeim og lagði Ísrael undir sig allt land Amorítanna sem byggðu það land. 22 Lögðu þeir þannig undir sig allt land Amoríta frá Arnon að Jabbok og frá eyðimörkinni að Jórdan. 23 Drottinn, Guð Ísraels, hefur því stökkt Amorítum burt undan lýð sínum Ísrael og nú ætlar þú að taka land hans til eignar? 24 Tekur þú ekki til eignar það sem Kamos, guð þinn, gefur þér til eignar? Eins tökum við til eignar land allra þeirra sem Drottinn, Guð okkar, hrekur burt undan okkur. 25 Ertu þá nokkru betri en Balak Sippórsson, konungur í Móab? Átti hann í deilum við Ísrael eða fór hann með hernað á hendur honum? 26 Fyrst Ísrael hefur búið í Hesbon og smáborgunum í grennd og í Aróer og smáborgunum í grennd og í öllum borgunum sem liggja báðum megin Arnonár í þrjú hundruð ár, hvers vegna hafið þið þá ekki náð þeim aftur allan þennan tíma? 27 Ég hef ekki gert þér neitt mein en þú beitir mig ranglæti og þú herjar á mig. Drottinn, dómarinn, dæmi í dag milli Ísraelsmanna og Ammóníta.“ 28 En konungur Ammóníta sinnti ekki boðum Jefta sem hann lét færa honum.
29 Þá kom andi Drottins yfir Jefta og hann fór um Gíleað og Manasse og til Mispe í Gíleað og frá Mispe í Gíleað fór hann gegn Ammónítum. 30 Og Jefta vann Drottni heit og sagði: „Ef þú selur Ammóníta í hendur mér 31 skal sá sem fyrstur gengur út úr dyrum húss míns á móti mér þegar ég sný aftur heilu og höldnu frá Ammónítum, tilheyra Drottni og ég skal fórna honum sem brennifórn.“ 32 Síðan hélt Jefta gegn Ammónítum til þess að berjast við þá og Drottinn gaf þá honum í hendur. 33 Hann vann mikinn sigur á þeim frá Aróer og alla leið til Minnít, vann tuttugu borgir, og til AbelKeramím. Þannig urðu Ammónítar að lúta í lægra haldi fyrir Ísraelsmönnum.

Dóttir Jefta

34 Þegar Jefta kom heim til húss síns í Mispa gekk dóttir hans út á móti honum með trumbuslætti og dansi. Hún var einkabarn hans og átti hann engan son eða dóttur nema hana. 35 Þegar hann sá hana reif hann klæði sín og sagði: „Æ, dóttir mín, nú hryggirðu mig sárlega. Sjálf veldur þú mér nú sárustum trega. Ég hef lokið upp munni mínum við Drottin og ég get ekki tekið heit mitt aftur.“ 36 En hún sagði við hann: „Faðir minn, ef þú hefur lokið upp munni þínum við Drottin, gerðu þá við mig eins og munnur þinn hefur lofað fyrst Drottinn hefur látið þig koma fram hefndum á óvinum þínum, Ammónítum.“ 37 Og enn sagði hún við föður sinn: „Gerðu þetta fyrir mig: Láttu mig fá tveggja mánaða frest svo að ég geti farið hér ofan í fjöllin og harmað það með stallsystrum mínum að ég verði að deyja ung mær.“
38 Hann sagði: „Farðu,“ og lét hana fara burt í tvo mánuði. Fór hún þá burt með stallsystrum sínum og grét það á fjöllunum að hún yrði að deyja ung mær. 39 En að tveimur mánuðum liðnum sneri hún aftur til föður síns og hann fór með hana samkvæmt heitinu sem hann hafði unnið. En hún hafði aldrei karlmanns kennt. Varð það því siður í Ísrael 40 að árlega fara dætur Ísraels að lofsyngja dóttur Jefta Gíleaðíta, fjóra daga á hverju ári.