Davíð og Abígail

1 Samúel dó og allur Ísrael safnaðist saman og syrgði hann. Hann var grafinn í húsi sínu í Rama. En Davíð hélt til Paraneyðimerkur.
2 Í Maon var maður nokkur sem átti bú sitt í Karmel. Hann var vellauðugur og átti þrjú þúsund fjár og þúsund geitur. Nú var hann að rýja sauðfé sitt í Karmel. 3 Maður þessi hét Nabal en kona hans Abígail. Hún var skynsöm kona og fríð sýnum en hann harður í lund og illmenni. Hann var af ætt Kalebs.
4 Davíð frétti úti í eyðimörkinni að Nabal væri að rýja fé sitt. 5 Þá sendi hann tíu unga menn af stað með þessi fyrirmæli: „Farið upp til Karmel. Þegar þið komið til Nabals skuluð þið bera honum kveðju mína 6 og segja við bróður minn: Heill þér, fjölskyldu þinni og öllu sem þú átt. 7 Ég hef frétt að verið sé að rýja fyrir þig. Þegar hirðar þínir héldu fénu á beit hjá okkur gerðum við þeim ekkert mein enda hefur ekkert vantað af fénu þann tíma sem þeir hafa verið í Karmel. 8 Spyrðu vinnumenn þína, þeir geta sjálfir sagt þér þetta. Taktu þessum unglingum því vinsamlega. Við komum á hátíðisdegi. Gefðu því þjónum þínum og Davíð, syni þínum, það sem þú hefur við höndina.“
9 Sendimenn Davíðs komu til Nabals, fluttu honum þessi skilaboð í nafni Davíðs og biðu síðan átekta. 10 Þá svaraði Nabal þjónum Davíðs og sagði: „Hver er Davíð og hver er sonur Ísaí? Margir gerast þeir nú þrælarnir sem strjúka frá húsbændum sínum. 11 Á ég að taka brauð mitt og vatn og dilkana, sem ég slátraði handa rúningsmönnum mínum, og gefa einhverjum sem ég veit ekki einu sinni hvaðan eru?“
12 Sendimenn Davíðs sneru þá við, komu og sögðu honum allt af létta. 13 Þá sagði Davíð við menn sína: „Gyrðist allir sverðum ykkar.“ Þeir gerðu það og Davíð gyrti sig sjálfur sverði sínu. Síðan fóru þeir upp eftir með Davíð í broddi fylkingar og voru þeir um það bil fjögur hundruð saman. Tvö hundruð menn urðu eftir og gættu farangursins.
14 Einn af vinnumönnum Nabals hafði skýrt Abígail, konu hans, frá þessu og sagt: „Davíð hefur sent menn úr eyðimörkinni með kveðju til húsbónda okkar sem svaraði með fúkyrðum. 15 Samt voru þeir mjög vingjarnlegir við okkur. Þeir áreittu okkur ekki og aldrei vantaði neitt af fénu allan tímann sem við héldum okkur í námunda við þá í haganum. 16 Þeir mynduðu varnargarð umhverfis okkur dag og nótt, allan tímann sem við beittum fénu í grennd við þá. 17 Hugsaðu þig nú um og reyndu að láta þér detta í hug hvað þú getir gert því að ógæfa blasir við húsbónda okkar og allri fjölskyldu hans. Hann er svo bráður að ekki er hægt að yrða á hann.“
18 Abígail sótti þá í skyndi tvö hundruð brauð, tvo vínbelgi, fimm dilka, fimm seur af ristuðu korni, hundrað rúsínukökur og tvö hundruð fíkjukökur. Hún lagði þetta á asna 19 og sagði við vinnumenn sína: „Farið á undan mér. Ég kem rétt á eftir ykkur.“ En Nabal, manni sínum, sagði hún ekkert.
20 Nú bar svo við að hún mætti Davíð og mönnum hans sem komu óvænt á móti henni þar sem hún var ríðandi á asnanum í hvarfi bak við fjall nokkurt. 21 Rétt í því hafði Davíð sagt: „Það var þá til einskis að ég gætti í eyðimörkinni alls sem þessi maður á. Ekkert vantaði af eigum hans en hann launar mér gott með illu. 22 Guð geri mér hvað sem er nú og síðar hafi ég þyrmt einum af karlmönnum hans í birtingu á morgun.“
23 Þegar Abígail sá Davíð steig hún í skyndi af asnanum, varpaði sér niður frammi fyrir Davíð og hneigði sig til jarðar. 24 Hún féll til fóta honum og sagði: „Herra, sökin er aðeins mín. Leyfðu nú ambátt þinni að tala við þig og hlustaðu á orð hennar. 25 Herra minn, skiptu þér ekki af þessu illmenni, honum Nabal. Hann ber nafn með rentu:[ heimskingi heitir hann og heimskingi er hann. Herra minn, ég, ambátt þín, sá ekki einu sinni ungu mennina sem þú sendir. 26 En, herra, svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir þá hefur Drottinn hindrað að þú bakaðir þér blóðskuld með því að taka málið í þínar hendur. Þess vegna fari fyrir fjandmönnum herra míns og þeim sem vilja honum illt eins og fyrir Nabal. 27 Láttu nú afhenda ungu mönnunum, sem fylgja þér, gjöfina sem ég, ambátt þín, hef fært þér, herra minn. 28 Fyrirgefðu framhleypni ambáttar þinnar. Drottinn mun áreiðanlega láta þá ætt, sem af herra mínum kemur, stöðuga standa. Sökum þess að þú, herra minn, heyr stríð fyrir Drottin verður ekkert illt fundið hjá þér meðan þú lifir. 29 En veitist einhver að þér og sækist eftir lífi þínu mun líf herra míns bundið fast í knippi lifandi manna hjá Drottni, Guði þínum. En lífi fjandmanna þinna mun hann slöngva í burtu. 30 Þegar Drottinn hefur staðið við allt hið góða, sem hann hefur heitið þér, herra, og gert þig að höfðingja yfir Ísrael, 31 þá skal það ekki verða þér til falls né íþyngja samvisku þinni að þú hafir úthellt blóði að ástæðulausu, herra minn, með því að taka réttinn í þínar hendur. Þegar Drottinn gerir vel við herra minn minnstu þá ambáttar þinnar.“
32 Þá svaraði Davíð Abígail: „Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, sem sendi þig til móts við mig í dag. 33 Blessuð séu hyggindi þín og þú sjálf sem forðaðir mér frá því að baka mér blóðskuld með því að taka réttinn í mínar hendur. 34 En svo sannarlega sem Drottinn, Guð Ísraels, lifir sem forðaði mér frá því að vinna þér mein, þá hefði ekki nokkur af karlmönnum Nabals verið á lífi í fyrramálið ef þú hefðir ekki komið svona fljótt til móts við mig.“
35 Davíð tók við því sem hún hafði fært honum og sagði við hana: „Farðu í friði heim til þín. Ég hlustaði á orð þín og mun verða við ósk þinni.“
36 Þegar Abígail kom heim til Nabals var hann að veislu í húsi sínu sem konungur væri. Nabal var hinn kátasti og mjög drukkinn. Þess vegna sagði hún honum ekkert fyrr en birti af degi. 37 En um morguninn, þegar runnið var af Nabal, sagði kona hans honum frá því sem gerst hafði. Þá dó hjartað í brjósti hans og varð að steini. 38 Um það bil tíu dögum síðar laust Drottinn Nabal og hann dó.
39 Þegar Davíð frétti að Nabal væri dáinn sagði hann: „Lofaður sé Drottinn sem hefur rekið réttar míns og veitt mér uppreisn æru. Hann hefur forðað þjóni sínum frá því að vinna ódæði en látið illsku Nabals koma honum í koll.“ Síðan sendi Davíð boð til Abígail um að hann ætlaði að taka hana sér fyrir eiginkonu. 40 Þjónar Davíðs komu til Abígail í Karmel og sögðu við hana: „Davíð hefur sent okkur til þín til þess að taka þig til eiginkonu handa honum.“ 41 Hún stóð á fætur, varpaði sér síðan á grúfu til jarðar og sagði: „Ambátt þín er reiðubúin að gerast þjónustustúlka og þvo fætur þjóna herra míns.“ 42 Abígail steig þegar í stað á bak asna sínum og fimm þjónustustúlkur hennar fylgdu henni. Fylgdist hún með sendimönnum Davíðs og gerðist eiginkona hans.
43 Davíð hafði áður tekið Akínóam frá Jesreel sér fyrir eiginkonu svo að þær voru báðar eiginkonur hans. 44 En Sál hafði gefið Paltí Laíssyni frá Gallím Míkal, dóttur sína, sem verið hafði kona Davíðs.