XXV.

Og Samúel andaðist og allur Ísraelslýður safnaðist saman og þeir grétu yfir honum og jörðuðu hann í sjálfs síns húsi í Raama. [

Og Davíð tók sig upp og fór ofan til eyðimerkur sem kallaðist Paran. Og þar var einn maður í Maon og hafði sína byggð í Karmel. Þessi maður var mjög mektugur o ghann hafði þrjár þúsundir sauða og þúsund geitfjár. Og það skeði svo að hann klippti sína sauði í Karmel og hann hét Nabal. En hans kvinna hét Abigail. [ Hún var skynsöm kvinna og mjög fríð í andliti. En hennar maður var harðráður og illur viðureignar. Hann var af ætt Kaleb.

Sem Davíð nú heyrði í eyðimörkinni að Nabal klippti sauði sína þá útsendi hann tíu af sínum mönnum og sagði til þeirra: „Farið upp til Karmel og sem þér komið til Nabal þá heilsið honum vinsamlega minna vegna og segið: Lukka og friður sé með þér og þínu húsi og með öllu því sem þér tilheyrir. Eg hefi heyrt að þú hefur nú hjarðsveina að klippa sauði þína. Nú þínir hjarðargeymarar sem þú hefur þeir hafa verið hjá oss. Vér höfum ekki fyrirlitið þá og þá brast aldrei neitt á sína tölu þá stund sem þeir voru í Karmel. Spyr þá sjálfa að, svo skulu þeir segja þér það. Þar fyrir lát nú þína þénara finna náð í þínu augliti því að vér höfum hitt á einn [ góðan dag. Gef nú nokkuð þínum þénurum og þínum syni Davíð hvað sem þín hönd finnur.“

Sem Davíðs sendimenn komu nú þangað og höfðu framborið öll þessi orð Davíðs vegna fyrir Nabal þá þögnuðu þeir. En Nabal svaraði Davíðs þénurum og sagði: [ „Hver er þessi Davíð? Og hver er þessi son Jesse? Margir gjörast þeir nú þrælar sem flýja frá sínum herrum. Skal eg taka mitt brauð, vatn og vistir sem eg hefi slátrað og tilreitt hjarðsveinum mínum og gefa þeim mönnum sem eg þekki ekki hvað manna eru?“ Sendimenn Davíðs sneru aftur sinn veg og sem þeir komu til hans þá tjáðu þeir honum allt það sem Nabal hafði talað. Þá sagði Davíð til sinna manna: „Búið yður og bindi hver yðar sitt sverð við sína síðu.“ Og jafnsnart gjörðu allir svo og Davíð gyrti og sig með sínu sverði og honum fylgdi fjögur hundruð manns en tvö hundruð lét hann vera eftir hjá þeirra fansi.

En einn af hjarðsveinum Nabal fór og undirvísaði Abigail hans kvinnu: „Sjá, Davíð sendi boð af eyðimörku og lét sína blíðuheilsan bera vorum húsbónda en hann snefsaði þeim frá sér. En þeir hafa verið oss mjög þarfir menn, hafa ekki forsmáð oss eða fyrirlitið, svo oss vantaði aldrei á vora tölu meðan vér gengum með þeim þá stund sem vér vorum á mörkinni heldur hafa þeir verið oss sem einn múrveggur dag og nótt, alla þá stund sem vér geymdum vorar hjarðir hjá þeim. Þar fyrir hugsa þú nú hvað þú vilt til gjöra. Því að þar er sannlega ólukka búin vorum húsbónda og öllu hans hyski. En hann er svo illskufullur maður að enginn þorir að segja honum nokkuð.“

Þá bregður Abigail við og tekur tvö hundruð brauðs, tvær flöskur víns og fimm sauði uppsoðna og fimm mæla mjöls og hundrað stykki rúsín og tvö hundruð stykki fíkna og klyfjaði asna. Og hún sagði til sinna sveina: „Farið strax og færið þetta undan mér. Sjá, eg vil koma eftir yður.“ En af þessu öllu sagði hún ekki par sínum manni Nabal. Jafnsnart sté hún á asna og reið fram undir eitt fjall. Sjá, þá kom Davíð og hans menn þar í móti henni og hún mætti þeim. En Davíð hafði áður sagt: „Nú vel, eg hefi að þarfleysu geymt allt það sem þessi maður átti í eyðimörkinni svo að þar fargaðist ekki neitt af öllu því sem hann átti. Nú hefur hann umbunað mér illu fyrir gott. Gjöri Guð Davíðs óvinum þetta og enn meira ef eg læt nokkurn lífi halda inn til þess ljós dagur er af þeim sem í vegg af sér vatn lætur af öllum þeim sem honum tilheyra.“

Nú sem Abigail leit Davíð sté hún jafnsnart af sínum asna og féll fram öll til jarðar fyrir Davíð, bað hann og féll til hans fóta og sagði: „Minn herra, kenn þú mér þennan misgjörning og leyf þinni þjónustukvinnu að tala fyrir þínu augliti og virst þú að heyra orð þinnar ambáttar. Minn herra, set ekki þitt hjarta í móti þeim óréttláta Nabal því hann er fávís so sem hans nafn hljóðar og fáviska er með honum. [ En eg þín ambátt sá ekki míns herra þénara þá sem þú útsendir.

Nú minn herra, svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannlega sem þín önd lifir þá hefur Drottinn hamlað þér að þú skyldir ekki koma í blóð. [ Hann hefur og frelsað þína önd. Verði nú so sem Nabal allir þínir óvinir og þeir sem vilja mínum herra illt. En hér er nú blessan sem þín þénustukvinna færði mínum herra hingað, gef þetta þínum þénurum sem fara með mínum herra. En fyrirgef þinni ambátt þessa yfirtroðslu því að Drottinn mun byggja mínum herra eitt staðfast hús. Því að þú heyir bardaga Drottins og lætur ekkert illt finnast með þér alla þína daga.

Og þegar nokkur maður vill uppsetja sig að ofsækja þig og sitja um þitt líf þá mun míns herra sál vera varðveitt í bindini lifandi manna hjá Drottni þínum Guði. En sálir þinna óvina munu snúast sem steinn í slöngu. Nú þegar Drottinn gjörir þér, minn herra, allt það góða sem hann hefur lofað þér og sagt til þín og býður að þú skulir vera einn hertugi yfir Ísrael þá sé ekki míns herra hjarta þetta til falls eða forörgunar að þú hafir nokkru blóði úthellt án sakar og hefnt þín sjálfur. Þá skal Drottinn gjöra vel mínum herra og þá munt þú minnast þinnar ambáttar.“

Sem Davíð heyrði þessi orð þá sagði hann til Abigail: „Lofaður sé Drottinn Guð Israelis sá eð sendi þig í dag til fundar við mig. Blessuð sé þín ræða og blessuð sért þú sjálf að þú hefur hamlað mér á þessum degi að fara til blóðs og hefna mín með minni eigin hendi. Sannlega so víst sem Drottinn Guð Ísraels lifir, sá sem hefti mig að eg gjörða þér ekki vont: Hefðir þú ekki komið svo snart til fundar við mig þá hefði Nabal þinn maður ei haldið eftir til morguns einum þeim sem í vegg af sér vatn lætur.“ Síðan meðtók Davíð af hennar hendi það sem hún hafði fært honum og sagði til hennar: „Far nú með friði heim til þíns húss. Sjá, eg hlýdda þínum orðum og virti þína persónu.“

Þegar Abigail kom heim aftur til Nabal, sjá, þá hafði hann látið reiða til einnrar veislu í sínu húsi so sem kóngsveisla væri og var sem kátastur og hann var mjög drukkinn. En hún sagði honum ekkert, hvorki mikið né lítið, allt til ljóss dags. En um morguninn sem af honum létti vínórum þá sagði hans kvinna honum þetta allt. Þá doðnaði hans hjarta og hann varð sem steinn. Og tíu dögum þar eftir sló Drottinn hann so hann andaðist. [ En sem Davíð heyrði að Nabal var dauður sagði hann: „Lofaður sé Drottinn sá eð hefndi á Nabal minnar svívirðingar og hefti sinn þénara frá því inu vonda. Og Drottinn lét Nabals vondskap koma honum í koll.“

Og Davíð sendi þangað og lét tala við Abigail að hann vildi taka hana til eiginkvinnu. En sem Davíðs þénarar komu til Abigail í Karmel þá töluðu þeir við hana og sögðu: „Davíð sendi oss til þín að hann vill fá þín sér til eiginkvinnu.“ Hún stóð upp, féll fram til jarðar og mælti: „Sjá, hér em eg þín ambátt að eg þjóni þénörum míns herra og þvoi fætur þeirra.“ Og Abigail bjó sig skjótt og settist á einn asna og fimm hennar þjónustumeyjar með henni og fór með sendimönnum Davíðs og gjörðist húsfreyja hans.

Davíð fékk og Ahínóam af Jesreel og þær báðar voru hans eiginkvinnur. [ En Saul gifti Paltí syni Laís af Gallím sína dóttir Míkól sem áður var Davíðs kvinna.