Akíor gerist Gyðingur

1 Júdít ávarpaði fólkið og sagði: „Hlýðið á mig. Takið þetta höfuð og hengið það upp á brjóstvörnina á borgarmúrnum. 2 Um leið og birtir af degi og sólin rennur upp yfir jörðina, þá skal hver og einn taka vopn sín og allir vopnfærir menn halda út úr borginni. Þið skuluð setja þeim foringja og halda ofan á sléttuna eins og ætlunin væri að ráðast á framvarðarsveit Assýríumanna. Þangað skuluð þið samt ekki fara. 3 Þeir sem þar eru fyrir munu grípa til vopna og fara í herbúðirnar til að vekja liðsforingja Assýríumanna. Þegar þeir koma hlaupandi að tjaldi Hólofernesar og finna hann ekki verða þeir frá sér af skelfingu og flýja frá ykkur. 4 Þið skuluð elta þá ásamt öllum sem búa í fjalllendi Ísraels og fella þá á flóttanum. 5 En kallið fyrir mig á Akíor Ammóníta áður en þið gerið þetta svo að hann fái að sjá og þekkja manninn sem smánaði Ísraelsmenn og sem sendi Akíor til okkar til þess að það yrði hans bani.“
6 Sent var eftir Akíor heim til Ússía. Þegar hann kom og sá höfuð Hólofernesar í hendi manns nokkurs í mannfjöldanum féll hann fram fyrir sig og hneig í ómegin. 7 Um leið og hann var studdur á fætur féll hann að fótum Júdítar, laut henni í lotningu og sagði: „Blessuð sért þú í hverju tjaldi í Júdeu. Allar þjóðir munu skelfast þegar þær heyra nafn þitt. 8 Segðu mér nú frá öllu sem þú hefur afrekað síðustu dagana.“
Umkringd fólkinu sagði Júdít honum frá öllu því sem hún hafði gert frá þeim degi sem hún fór úr borginni og til þessarar stundar er hún stóð og sagði frá. 9 Þegar Júdít hafði lokið frásögn sinni fagnaði fólkið hástöfum svo að borgin endurómaði af gleðihljómi. 10 En er Akíor varð allt það ljóst sem Guð Ísraels hafði gert tók hann óbifanlega trú á Guð. Lét hann umskera sig, var tekinn í tölu Ísraelsmanna og heyrir þeim enn til.

Öngþveiti í herbúðum Hólofernesar

11 Þegar dagaði var höfuð Hólofernesar hengt á borgarmúrinn. Tóku allir vopn sín og héldu fylktir í sveitir út á vegina sem lágu ofan af fjallinu. 12 Er Assýríumenn sáu þá sendu þeir til liðsforingja sinna sem fóru til herforingjanna og þeir aftur til höfuðsmannanna sem sögðu hershöfðingjum sínum frá. 13 Þeir héldu að tjaldi Hólofernesar og sögðu við þann sem gætti alls sem hann átti: „Vektu herra okkar. Þessir þrælar þarna hafa vogað sér að koma niður eftir til að leggja til atlögu við okkur. En þeim mun verða eytt til síðasta manns.“
14 Bagóas gekk inn og klappaði á tjalddyrnar. Hann taldi að Hólofernes svæfi hjá Júdít. 15 Þegar enginn svaraði lauk hann upp tjaldinu og gekk inn að rúminu. Þar fann hann Hólofernes liggjandi dauðan og höfuðlausan fyrir framan rúmið. 16 Bagóas rak upp mikið hljóð, grét og kveinaði og hrópaði hástöfum og reif klæði sín. 17 Fór hann síðan inn í tjaldið, sem Júdít hafði búið í, en fann hana ekki. Þaut hann út til fólksins og hrópaði: 18 „Þeir hafa beitt okkur brögðum, þrælarnir! Ein síns liðs hefur hebresk kona leitt hneisu yfir hús Nebúkadnesars konungs. Hólofernes liggur fallinn á jörðinni og höfuðlaus.“
19 Þegar fyrirliðar herja Assýríumanna heyrðu þessi tíðindi rifu þeir klæði sín skelfingu lostnir og herbúðirnar kváðu við af harmakveini þeirra og háum hljóðum.