Davíð fer úr her Filistea

1 Filistear drógu nú saman allan her sinn í Afek en Ísraelsmenn höfðu herbúðir sínar við lindina í Jesreeldalnum. 2 Þegar höfðingjar Filistea voru á hergöngu með þúsund manna lið og hundrað manna flokka ráku Davíð og menn hans lestina ásamt Akís. 3 Þá spurðu höfðingjar Filistea: „Hvað eru þessir Hebrear að gera hér?“ Akís svaraði höfðingjum Filistea: „Þetta er auðvitað Davíð sem var í þjónustu Sáls Ísraelskonungs. Hann hefur verið með mér árum saman og ég hef ekki haft út á neitt að setja í fari hans frá því að hann flýði til mín og þar til nú.“ 4 En höfðingjar Filistea reiddust og sögðu við hann: „Sendu þennan mann aftur heim til sín, til staðarins sem þú úthlutaðir honum. Hann skal ekki fara með okkur í orrustuna og snúast gegn okkur í bardaganum. Með hverju gæti hann fremur komið sér í mjúkinn hjá húsbónda sínum en höfðum þessara manna hérna? 5 Er það ekki þessi Davíð sem sungið var um undir dansi:
Sál felldi sín þúsund
en Davíð sín tíu þúsund?“

6 Þá kallaði Akís Davíð fyrir sig og sagði við hann: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir þá ert þú heiðarlegur maður. Ég vil gjarnan halda til orrustu með þér og snúa síðan heim með þér því að ég hef hingað til ekki haft neitt út á þig að setja frá því að þú komst til mín. En höfðingjunum fellur ekki við þig. 7 Þess vegna skaltu snúa aftur. Far þú í friði svo að þú gerir ekkert sem höfðingjum Filistea mislíki.“
8 „Hvað hef ég gert?“ spurði Davíð Akís. „Hvað hefurðu getað fundið að þjóni þínum frá því að ég gekk í þjónustu þína og þar til nú? Hvers vegna má ég ekki koma með þér og berjast gegn fjandmönnum herra míns, konungsins?“ 9 Akís svaraði og sagði við Davíð: „Ég veit þetta. Í mínum augum ertu jafn engli Guðs en eigi að síður hafa höfðingjar Filistea sagt: Hann skal ekki fylgja okkur í orrustuna. 10 Búðu þig þess vegna snemma í fyrramálið ásamt þeim mönnum herra þíns sem hafa fylgt þér og farið þið strax og ratljóst er orðið á morgun og haldið heim.“
11 Í bítið morguninn eftir hélt Davíð af stað ásamt mönnum sínum og sneri aftur til lands Filistea. En Filistear fóru upp til Jesreel.