Púrímdagarnir

1 Þrettánda dag tólfta mánaðar, mánaðarins adar, skyldi framfylgja tilskipun og lagaboði konungs. Þann dag höfðu óvinir Gyðinga vænst þess að ná þeim á vald sitt en það fór á annan veg. Nú kom það í hlut Gyðinga sjálfra að yfirbuga fjandmenn sína. 2 Gyðingar söfnuðust saman í borgum sínum í öllum héruðum konungsríkis Xerxesar til að ráðast gegn hverjum þeim sem reyndi að vinna þeim mein. Enginn gat veitt þeim viðnám enda stóð nú öllum þjóðum ógn af þeim. 3 Héraðshöfðingjar, skattlandsstjórar, landshöfðingjar og embættismenn konungs lögðu allir Gyðingum lið vegna þess að þeir óttuðust Mordekaí, 4 en áhrif Mordekaí voru orðin mikil við hirð konungs og fór miklum sögum af honum um öll héruðin. Völd Mordekaí fóru sívaxandi. 5 Gyðingar hjuggu óvini sína með sverði, drápu þá og eyddu þeim. Fjandmenn sína léku þeir eins og þá lysti. 6 Í virkisborginni Súsa drápu Gyðingar og tortímdu fimm hundruðum manna. 7 Þeir drápu einnig þá Parsandata, Dalfón, Aspata, 8 Pórata, Adalja, Arídata, 9 Parmasta, Arísaí, Arídaí og Vajsata, 10 tíu syni Hamans, sonar Hamdata, hatursmanns Gyðinga. En ránsfeng tóku þeir engan.
11 Sama dag var konungi greint frá fjölda þeirra sem drepnir höfðu verið í virkisborginni Súsa. 12 Konungur sagði þá við Ester drottningu: „Í virkisborginni Súsa hafa Gyðingar nú banað og tortímt fimm hundruð mönnum og tíu sonum Hamans að auki. Hvað skyldu þeir hafa gert í öðrum héruðum konungsríkisins? En hver er ósk þín? Hún skal veitast þér. Eigirðu enn einhverja bón skal ég verða við henni.“
13 Ester svaraði: „Þóknist það konungi skal Gyðingum í virkisborginni Súsa heimilað að fara hinu sama fram á morgun og í dag og hinir tíu synir Hamans skulu festir á gálga.“
14 Konungur skipaði að þetta skyldi gert og var tilskipun birt í Súsa. Tíu synir Hamans voru festir á gálga. 15 Gyðingar í Súsa söfnuðust enn saman á fjórtánda degi mánaðarins adar og drápu þrjú hundruð manns í Súsa. Ekki tóku þeir þó neinn ránsfeng.
16 Aðrir Gyðingar, sem bjuggu í héruðum konungsríkisins, söfnuðust einnig saman til að verja sig og öðlast frið fyrir óvinum sínum. Þeir drápu sjötíu og fimm þúsund fjandmanna en tóku engan ránsfeng. 17 Þetta gerðu þeir á þrettánda degi mánaðarins adar en tóku sér hvíld fjórtánda dag mánaðarins og gerðu hann að hátíðar- og veisludegi. 18 Gyðingar þeir sem bjuggu í Súsa höfðu hins vegar safnast saman bæði þrettánda og fjórtánda dag mánaðarins. Fimmtánda daginn tóku þeir sér hvíld og gerðu þann dag að fagnaðar- og veisludegi. 19 Vegna þessa hafa Gyðingar í afskekktum sveitaþorpum þann sið að gera sér fjórtánda dag mánaðarins adar að hátíðar-, veislu- og gleðidegi og skiptast menn þá á matargjöfum.

Ákvarðanir um púrímhátíð

20 Þessa atburði skrásetti Mordekaí. Hann sendi bréf til allra Gyðinga í öllum héruðum konungsríkis Xerxesar, jafnt nálægum sem fjarlægum, 21 til að gera þeim skylt að halda árlega helgan fjórtánda og fimmtánda dag mánaðarins adar. 22 Þá daga öðluðust Gyðingar frið fyrir óvinum sínum og í þeim mánuði snerist sorg þeirra í fögnuð og hryggð þeirra í hátíð. Skyldu þeir dagar verða dagar veisluhalds og fagnaðar og menn senda hver öðrum matargjafir en gefa fátækum ölmusu. 23 Og Gyðingar lögleiddu það sem þeir höfðu þannig stofnað til og Mordekaí hafði skrifað þeim um.
24 Haman Hamdatason og afkomandi Agags, hatursmaður allra Gyðinga, hafði ráðgert að tortíma Gyðingum og gereyða þeim. Til þess hafði hann varpað púr, það er hlutkesti, að honum mætti takast að afmá þá og eyða þeim. 25 En málið hafði komið fyrir konung og hann hafði þá skipað svo fyrir með bréfi að fólskubrögð þau sem Haman hugðist beita Gyðinga skyldu koma honum sjálfum í koll og hann og synir hans skyldu festir á gálga. 26 Vegna þessa voru dagarnir nefndir púrím eftir orðinu púr. Og af þessum sökum, vegna alls sem í bréfinu stóð og vegna þess sem þeir höfðu séð eða sjálfir reynt, 27 gerðu Gyðingar það að skyldu og lögbundinni, ófrávíkjanlegri venju, jafnt sjálfum sér, öllum niðjum sínum og þeim sem tækju Gyðingatrú, að þessir tveir dagar skyldu haldnir heilagir árlega á tilsettum tíma og samkvæmt fyrirmælunum. 28 Þessara daga skulu menn minnast kynslóð eftir kynslóð, í hverri ætt, í hverju héraði og hverri borg svo að púrímdagarnir verði áfram helgir með Gyðingum og minningin, sem þeir varðveita, falli aldrei í gleymsku meðal niðja þeirra.
29 Ester drottning, dóttir Abíhaíls, veitti Gyðingnum Mordekaí skriflegt umboð til að beita öllum áhrifamætti sínum til að gera síðara bréfið um púrím að lögum. 30 Og bréf voru send til allra Gyðinga í héruðunum hundrað tuttugu og sjö í ríki Xerxesar með árnaðar- og hughreystingarorðum 31 til að tryggja að púrímdagar væru haldnir á réttum tíma eins og Gyðingurinn Mordekaí hafði mælt fyrir um, á sama hátt og þau fyrirmæli um föstur og harmakvein sem Gyðingar höfðu gert sér og niðjum sínum skylt að hlýða. 32 Það var tilskipun Esterar, sem gerði ákvæðin um púrím að lögum, og var hún skráð í bók.