Reikað um eyðimörkina

1 Eftir þá dvöl héldum við út í eyðimörkina og áleiðis til Sefhafsins eins og Drottinn hafði boðið mér og marga daga vorum við á leiðinni umhverfis Seírfjalllendið. 2 Þá sagði Drottinn við mig: 3 „Þið hafið nú farið nógu lengi um þetta fjalllendi. Haldið nú í norðurátt. 4 Gefðu fólkinu þessi fyrirmæli: Þið eruð í þann veginn að fara um land bræðra ykkar, niðja Esaú, sem búa í Seír. Þeir munu óttast ykkur en gætið fyllstu varúðar. 5 Ögrið þeim ekki. Ég mun ekki gefa ykkur svo mikið sem þverfet af landi þeirra því að ég fékk Esaú Seírfjalllendið til eignar. 6 Þið skuluð greiða þeim fyrir korn til matar og jafnvel fyrir vatn til drykkjar.
7 Drottinn, Guð þinn, hefur blessað þig í öllu sem þú hefur tekið þér fyrir hendur. Hann vakti yfir för þinni yfir þessa miklu eyðimörk. Þessi fjörutíu ár hefur Drottinn, Guð þinn, verið með þér og þig ekki skort neitt.“ 8 Síðan héldum við áfram frá bræðrum okkar, niðjum Esaú, sem búa í Seír, nokkuð frá leiðinni yfir sléttuna frá Elat til Esjón Geber, og héldum út í Móabseyðimörkina. 9 Þá sagði Drottinn við mig: „Sýndu Móabítum engan fjandskap, ögra þeim ekki og láttu ekki skerast í odda með ykkur. Ég mun ekki gefa ykkur neitt af landi þeirra til eignar því að ég hef gefið niðjum Lots Ar til eignar.
10 Áður bjuggu þar Emítar, mikil þjóð, fjölmenn og stórvaxin eins og Anakítar. 11 Þeir töldust til Refaíta eins og Anakítar en Móabítar nefndu þá Emíta. 12 Forðum bjuggu Hórítar í Seír en niðjar Esaú slógu eign sinni á land þeirra og tortímdu Hórítum. Þeir settust þar að í þeirra stað eins og Ísrael gerði í eignarlandi sínu sem Drottinn hafði gefið þeim.
13 Búist nú til ferðar og farið þvert yfir Sereddalinn.“
Þá fórum við þvert yfir Sereddalinn.
14 Þrjátíu og átta ár liðu frá því að við fórum frá Kades Barnea og þar til við fórum yfir Saredá. Þá var heil kynslóð vopnfærra manna í herbúðunum dáin eins og Drottinn hafði svarið. 15 Hönd Drottins var gegn þeim og olli upplausn í herbúðunum þar til þeim var gereytt.
16 Þegar allir vopnfærir menn þjóðarinnar voru dánir 17 sagði Drottinn við mig: 18 „Í dag muntu fara yfir Móabsland um Ar. 19 Þegar þú nálgast Ammóníta skaltu hvorki sýna þeim fjandskap né ráðast á þá. Ég mun ekki gefa þér neitt af landi niðja Ammóns til eignar því að það hef ég gefið niðjum Lots til eignar.“
20 Það er einnig talið land Refaíta sem bjuggu þar fyrrum, en Ammónítar nefna þá Samsúmmíta 21 og voru þeir mikil þjóð, fjölmenn og stórvaxin eins og Anakítar. Drottinn eyddi Refaítum til að rýma fyrir Ammónítum og Ammónítar slógu eign sinni á lönd þeirra og settust þar að í þeirra stað. 22 Hið sama gerði Drottinn fyrir niðja Esaú, sem búa í Seír, þegar hann eyddi Hórítunum til að rýma fyrir þeim og niðjar Esaú slógu eign sinni á lönd þeirra og settust þar að í þeirra stað og hafa búið þar til þessa. 23 Avítum, sem bjuggu í þorpum í grennd við Gasa, tortímdu Kaftórítar sem höfðu komið frá Kaftór og settust þar að í þeirra stað.

Sílon konungur sigraður

24 Búist til ferðar, haldið af stað og farið yfir Arnoná. Sjá, ég hef selt Amorítann Síhon, konung í Hesbon, og land hans þér í hendur. Þú skalt hefjast handa og taka landið til eignar, ráðast gegn honum og berjast við hann. 25 Í dag mun ég taka að breiða út ótta við þig og skelfingu meðal allra þjóða undir himninum. Þær skjálfa þegar þær heyra um þig og engjast af ótta þegar þær sjá þig.“ 26 Þá sendi ég menn úr eyðimörkinni Kedemót til Síhons, konungs í Hesbon, með svohljóðandi friðarskilmála: 27 „Leyf mér að fara um land þitt. Ég skal fylgja veginum og hvorki víkja til hægri né vinstri af honum. 28 Seldu mér korn til matar fyrir fé og vatn til drykkjar gegn greiðslu. Leyf mér aðeins að fara fótgangandi um landið 29 eins og niðjar Esaú, sem búa í Seír, og Móabítar, sem búa í Ar, uns ég er kominn yfir Jórdan, inn í landið sem Drottinn, Guð okkar, gefur okkur.“
30 En Síhon, konungur í Hesbon, vildi ekki leyfa okkur að fara gegnum land sitt því að Drottinn, Guð þinn, hafði eflt baráttuvilja hans og hugrekki til þess að selja hann þér í hendur eins og nú er orðið. 31 Og Drottinn sagði við mig: „Nú hefst ég handa og fæ þér Síhon og land hans. Þú skalt hefjast handa og slá eign þinni á landið.“
32 Síhon hélt nú ásamt öllum her sínum til að berjast við okkur við Jahas. 33 En Drottinn, Guð okkar, seldi hann okkur í hendur og við gjörsigruðum hann, syni hans og allan her hans. 34 Þá unnum við allar borgir hans og í hverri borg helguðum við jafnt karla, konur og börn banni og létum engan halda lífi. 35 Við héldum aðeins búfénu eftir sem herfangi og öðrum ránsfeng úr borgunum sem við höfðum unnið.
36 Allt frá Aróer í jaðri Arnondalsins og borginni í dalnum og alla leið að Gíleað reyndist engin borg hafa of háa borgarmúra fyrir okkur: Drottinn, Guð okkar, gaf þær allar okkur á vald. 37 En samkvæmt boði Drottins, Guðs okkar, nálgaðist þú ekki land Ammóníta, hvorki með fram Jabboká né við borgirnar í fjalllendinu.