1 Bók þessi segir sögu Tóbíts Tóbíelssonar. Tóbíel faðir hans var sonur Ananíels Adúelssonar sem var sonur Gabaels Rafaelssonar Ragúelssonar. Hann var niðji Asíels af ættkvísl Naftalí. 2 Á tímum Salmanesers Assýríukonungs var Tóbít tekinn herfangi í Tísbe sem er suður af Kedes í Naftalí í Efri-Galíleu. Er Tísbe gegnt Hasór og handan vesturvegarins norðan Fogor.

Æskuár Tóbíts

3 Ég, Tóbít, gekk á vegi sannleikans, iðkaði réttlæti alla ævidaga mína og gerði margt góðverk bræðrum mínum og löndum sem herleiddir voru eins og ég til Níníve í Assýríu. 4 Er ég var ungur maður og var heima í átthögum mínum í Ísrael hafði öll ætt Naftalí forföður míns gerst fráhverf konungsætt Davíðs og Jerúsalem. Sú borg var útvalin af öllum ættkvíslum Ísraels til þess að þær skyldu færa fórnir á þeim stað. Þar var musterið reist sem var byggt og helgað Guði og standa skyldi að eilífu. 5 Allir bræður mínir og ætt Naftalí forföður míns færðu kálfinum fórnir. Jeróbóam Ísraelskonungur hafði látið reisa hann í Dan og á öllum fjöllum í Galíleu.

Trúfesti Tóbíts við trú feðranna

6 Ég var sá eini sem hélt oft til Jerúsalem á hátíðum en það bjóða eilíf fyrirmæli ritninganna öllum Ísrael. Til Jerúsalem hafði ég með mér frumgróða uppskerunnar og hjarðarinnar, tíund búfjárins og fyrstu ullina af ánum. 7 Þetta afhenti ég prestunum af Arons ætt til fórnar á altarinu. En tíund af korni, víni, ólífuolíu, granateplum og fíkjum og öðrum ávöxtum afhenti ég Levítunum sem þjónuðu Guði í Jerúsalem. Aðra tíund þess seldi ég ár hvert að frátöldu hinu sjöunda og fór árlega til Jerúsalem og varði fénu þar. 8 Þriðja hvert ár gaf ég það fé munaðarlausum, ekkjum og þeim sem gengið höfðu trú Gyðinga á hönd. Neyttum við máltíðar samkvæmt fyrirmælum þar um í lögmáli Móse og boðorðunum sem Debóra, móðir Ananíels afa míns, lagði mér á hjarta en við fráfall föður míns hafði ég orðið munaðarlaus.

Trúfesti Tóbíts í útlegðinni

9 Þegar ég varð fulltíða kvæntist ég konu sem var af sömu ætt og ég, eignaðist með henni son og gaf honum nafnið Tóbías.
10 Eftir að ég hafði síðar verið tekinn herfangi og fluttur til Assýríu kom ég til Níníve. Allir bræður mínir og landar lögðu sér til munns sömu fæðu og heiðingjarnir. 11 Ég gætti þess hins vegar vandlega að neyta ekki þeirrar fæðu. 12 Þar sem ég minntist Guðs míns af heilum huga 13 lét Hinn æðsti fas mitt og far falla Salmaneser í geð. Var mér falið að annast um innkaup á öllum nauðsynjum hans. 14 Fram að andláti Salmanesers fór ég í innkaupaferðir til Medíu. Í Medíu fól ég Gabael, bróður Gabría, nokkra peningapoka til varðveislu. Voru það tíu talentur silfurs.
15 Þegar Salmaneser dó og Sanheríb sonur hans hafði tekið við völdum urðu vegir Medíu viðsjálir og ég gat ekki lengur farið þangað.

Tóbít býr látnum leg

16 Meðan Salmaneser var á lífi gerði ég ættingjum mínum og löndum margt góðverkið. 17 Ég gaf hungruðum af brauði mínu og nöktum klæði og sæi ég lík landa míns, sem varpað hafði verið út fyrir múra Níníve, greftraði ég það. 18 Enn fremur jarðaði ég þá sem Sanheríb drap eftir að hann varð að flýja frá Júdeu. Það var sakir dómsins sem konungur himinsins felldi yfir honum vegna guðlastsins sem Sanheríb gerði sig sekan um. Þá deyddi hann marga Ísraelsmenn í heiftaræði sínu. Á laun fjarlægði ég lík þeirra og greftraði. Þegar Sanheríb lét svo leita þeirra fann hann þau ekki. 19 Þá fór einhver Nínívemanna og ljóstraði því upp við konung að það væri ég sem græfi líkin á laun. Þegar ég komst að raun um að komið hafði verið upp um mig við konung og að hann leitaði að mér til að drepa mig varð ég skelfdur og kom mér undan. 20 Þá var allt sem ég átti tekið og allar eigur mínar gerðar upptækar í fjárhirslu konungs og var ég rúinn öllu nema Önnu konu minni og Tóbíasi syni mínum.

Frændi Tóbíts bjargar honum

21 En ekki voru fjörutíu dagar liðnir þegar tveir sona Sanheríbs drápu hann. Flýðu þeir til Araratfjalls en Asarhaddon sonur hans tók ríki eftir hann. Hann setti Akíkar, son Anaels bróður míns, yfir öll fjármál ríkis síns og fól honum alla stjórnsýsluna. 22 Akíkar talaði máli mínu svo að ég gat snúið aftur til Níníve. Áður, meðan Sanheríb ríkti í Assýríu, hafði Akíkar verið falin yfirumsjón vínbirgða konungs. Einnig var hann innsiglisvörður hans, féhirðir og skattheimtumaður. Asarhaddon veitti þessum náfrænda mínum og bróðursyni þau embætti aftur.