Atalía drottning í Júda

1 Þegar Atalía, móðir Ahasía, sá að sonur hennar var dáinn tók hún til við að tortíma allri konungsættinni. 2 En Jóseba, dóttir Jórams konungs og systir Ahasía, tók Jóas Ahasíason úr þeim hópi sona konungsins sem átti að drepa. Hún laumaði honum og fóstru hans inn í svefnherbergið og faldi hann fyrir Atalíu, svo að hann var ekki drepinn. 3 Hann var falinn hjá henni í musteri Drottins í sex ár, á meðan Atalía ríkti yfir landinu.
4 Á sjöunda árinu sendi Jójada boð eftir hundraðshöfðingjum Karea og lífvarðarins og lét þá koma til sín í musteri Drottins. Hann gerði við þá samning og tók af þeim eið í musteri Drottins. Hann sýndi þeim son konungs 5 og gaf þeim síðan þessi fyrirmæli: „Þetta skuluð þið gera: Þriðjungur ykkar, sem kemur á hvíldardaginn, skal halda vörð við konungshöllina, 6 þriðjungur standa vörð við hliðið Súr og þriðjungur standa vörð við hliðið á bak við lífverðina. Þið skuluð taka ykkur varðstöðu í musteri Drottins. 7 Þeir tveir flokkar, sem leystir eru af á hvíldardaginn, skulu einnig standa vörð í musteri Drottins hjá konunginum. 8 Þið skuluð fylkja ykkur umhverfis konunginn, hver með sitt vopn í hendi. Hver sem reynir að ryðjast inn í raðirnar skal drepinn. Þið skuluð vera hjá konungi hvert sem hann fer.“
9 Hundraðshöfðingjarnir gerðu allt sem Jójada prestur skipaði. Þeir sóttu menn sína, bæði þá sem komu til varðstöðu og hina sem voru leystir af á hvíldardaginn, og komu til Jójada prests. 10 Presturinn afhenti hundraðshöfðingjunum spjót og skildi sem Davíð konungur hafði átt og voru varðveitt í musteri Drottins. 11 Vopnaðir varðliðarnir tóku sér stöðu og röðuðu sér umhverfis konung frammi fyrir altarinu og musteri Drottins, allt frá suðurhlið til norðurhliðar þess. 12 Þá leiddi Jójada son konungs út, setti kórónuna á höfuð honum og fékk honum lögin. Þá tóku þeir hann til konungs. Þeir smurðu hann, klöppuðu saman lófunum og hrópuðu: „Lifi konungurinn.“
13 Þegar Atalía heyrði hróp mannfjöldans gekk hún inn í mannþröngina í musteri Drottins. 14 Þá sá hún konunginn standa við súluna, eins og siður var, og umhverfis hann hirðmennina og lúðrablásarana og allan landslýðinn sem fagnaði og blés í lúðra. Atalía reif klæði sín og æpti: „Svik! Svik!“
15 Jójada prestur skipaði þá hundraðshöfðingjunum, sem stjórnuðu hernum, og sagði við þá: „Leiðið hana út á milli raðanna og drepið hvern þann með sverði sem fylgir henni.“ En áður hafði presturinn sagt: „Það má ekki drepa hana í musteri Drottins.“ 16 Þeir lögðu síðan hendur á hana. Þegar hún var komin um hestahliðið til konungshallarinnar var hún drepin.
17 Jójada gerði síðan sáttmála milli Drottins, konungsins og þjóðarinnar um að hún skyldi vera þjóð Drottins og einnig sáttmála[ milli konungsins og þjóðarinnar. 18 Því næst fór allur landslýður til húss Baals, reif niður ölturu þess, mölbraut líkneskin þar og frammi fyrir ölturunum drap hann Mattan sem var prestur Baals.
Presturinn setti vörð við musteri Drottins 19 og safnaði saman hundraðshöfðingjunum, Kareum, lífvörðunum og öllum landslýðnum. Síðan leiddu þeir konunginn niður úr musteri Drottins og gegnum hlið lífvarðanna til konungshallarinnar. Þar settist hann í hásæti konunganna, 20 en landslýðurinn gladdist og ró færðist yfir borgina. En Atalía var drepin með sverði í konungshöllinni.