Ótrú eiginkona

1 Orð Drottins kom til mín:
2 Mannssonur, leiddu Jerúsalem andstyggilega breytni hennar fyrir sjónir 3 og segðu: Svo segir Drottinn Guð við Jerúsalem: Þú átt ætt og uppruna í landi Kanverja. Faðir þinn var Amoríti en móðir þín Hetíti. 4 Það er að segja af fæðingu þinni að daginn sem þú fæddist var hvorki skorið á naflastreng þinn né þú böðuð í vatni, ekki núin salti og ekki vafin reifum. 5 Enginn leit til þín vægðarauga eða hafði næga samúð með þér til að gera þér neitt af þessu til góða. Þvert á móti var þér hent út á berangur, svo lítils var líf þitt metið daginn sem þú fæddist.
6 Þá gekk ég fram á þig og sá þig sprikla í blóði þínu. Þá sagði ég við þig þar sem þú lást alblóðug: Lifðu 7 og dafnaðu. Ég gerði þig eins og blóm í haga. Þú óxt úr grasi og varðst gjafvaxta. Brjóstin urðu stinn og hár þitt óx en nakin varstu og klæðlaus sem fyrr. 8 Þá varð mér aftur gengið fram á þig og þegar ég virti þig fyrir mér sá ég að þinn tími var kominn, tími til ásta. Ég breiddi kápulaf mitt yfir þig og huldi nekt þína. Ég vann þér eið og gerði við þig sáttmála, segir Drottinn Guð, og þú varðst mín. 9 Því næst baðaði ég þig úr vatni, þvoði af þér blóðið og smurði þig olíu, 10 bjó þig skartklæðum, setti á þig ilskó úr dýrindis leðri,[ sveipaði þig líni og hjúpaði þig silki. 11 Ég skreytti þig skarti, dró armbönd á handleggi þína og lagði men um háls þér, 12 setti hring í nasir þér, eyrnahringi í eyru þér og setti dýrindis djásn á höfuð þér. 13 Þú skreyttir þig gulli og silfri og klæddist líni, silki og skrautvefnaði, þú hafðir fínmalað mjöl, hunang og olíu til matar og þú varst ægifögur og hlaust jafnvel drottningartign. 14 Orðrómurinn um fegurð þína barst til framandi þjóða því að hún varð fullkomin vegna skartsins sem ég hafði sett á þig, segir Drottinn Guð.
15 En þú reiddir þig á fegurð þína og orðið sem af þér fór og hófst að stunda skækjulifnað og þröngvaðir hórdómi þínum upp á hvern þann sem átti leið um og þú varðst hans. 16 Og af sumum skartklæða þinna gerðir þú þér marglitar fórnarhæðir og hóraðist á þeim.[ 17 Þú tókst gersemar þínar, sem voru úr gulli mínu og silfri og ég hafði gefið þér, og gerðir úr þeim líkneski af karlmönnum og hóraðist með þeim. 18 Þú tókst einnig skrautklæði þín og lagðir þau yfir líkneskin og settir einnig olíu mína og reykelsi fram fyrir þau. 19 Matinn, sem ég gaf þér, mat úr fínmöluðu mjöli, olíu og hunangi, sem ég gaf þér að eta, barst þú fram fyrir þessi líkneski sem þekkan fórnarilm. Já, þannig var það, segir Drottinn Guð. 20 Þú tókst synina og dæturnar sem þú fæddir mér og færðir líkneskjunum í sláturfórnir til matar. Nægði hórdómur þinn ekki? 21 Þurftir þú líka að slátra sonum þínum og færa þá skurðgoðunum að fórn með því að láta þá ganga í gegnum eld? 22 En í öllum ódæðisverkum þínum og hórdómi minntist þú ekki bernskudaga þinna þegar þú varst nakin og klæðlaus og spriklaðir í blóði þínu. 23 Eftir öll þessi illvirki, vei, vei þér, segir Drottinn Guð, 24 reistir þú stall og gerðir þér fórnarhæð við hvert torg 25 og fórnarhæðir við hvert götuhorn. Þú afskræmdir fegurð þína og glenntir sundur fætur þína fyrir hvern sem átti leið um. Þú jókst hórdóm þinn 26 og hóraðist með Egyptum, hinum hreðjamiklu nágrönnum þínum, og reittir mig til reiði með síauknum hórdómi þínum.
27 Þá rétti ég út hönd mína gegn þér og sneiddi nokkuð af réttmætri eign þinni. Síðan ofurseldi ég þig græðgi dætra Filistea sem hötuðu þig og sem hneykslast höfðu á skækjulíferni þínu. 28 Þú hóraðist einnig með Assýríumönnum þar sem þú hafðir ekki fengið nægju þína. Þú hóraðist með þeim, fékkst samt ekki nóg. 29 Þú jókst hórdóm þinn allt til Kaldeu, til lands kaupahéðnanna, en það varð þér ekki nóg. 30 Hve sóttheitt var hjarta þitt, segir Drottinn Guð, þegar þú gerðir allt þetta og breyttir eins og argasta hóra. 31 Þú reistir stall þinn við hvert götuhorn og gerðir þér fórnarhæð við hvert torg. En þú varst samt ekki eins og skækja þar sem þú forsmáðir skækjulaunin. 32 Kona, sem drýgir hór, tekur annan mann í stað eiginmanns síns. 33 Öllum skækjum er greitt gjald en þú gafst ástmönnum þínum gjafir, barst á þá fé svo að þeir kæmu til þín hvaðanæva til að hórast með þér. 34 Hórdómur þinn var með allt öðrum hætti en annarra kvenna því að ekki var leitað á þig til fylgilags, þú greiddir friðilslaun en þér voru ekki greidd skækjulaun. Þannig var atferli þitt gerólíkt atferli annarra.
35 Hlustaðu því, hóra, á úrskurð Drottins. 36 Svo segir Drottinn Guð: Þar sem þú hefur berað blygðun þína og svipt nekt þína klæðum þegar þú hóraðist með ástmönnum þínum og öllum þínum viðbjóðslegu skurðgoðum og þar sem þú úthellir blóði barna þinna handa þeim 37 safna ég nú saman öllum ástmönnum þínum, sem þú girntist, bæði þeim sem þú elskaðir og hinum sem þú hataðir. Ég safna þeim saman úr öllum áttum og bera blygðun þína fyrir þeim svo að þeir sjái þig í allri þinni nekt. 38 Því næst kveð ég upp dóm yfir þér samkvæmt ákvæðum um konur sem fremja hjúskaparbrot og morð. Ég mun gjalda þér með blóði, heift og afbrýði. 39 Þá sel ég þig friðlum þínum í hendur. Þeir munu brjóta niður stalla þína og rífa niður fórnarhæðir þínar, reyta af þér fötin, svipta þig dýrindis skarti þínu og skilja þig eftir nakta og klæðlausa. 40 Þeir munu einnig senda múg manna gegn þér sem mun grýta þig og höggva þig í sundur með sverðum sínum. 41 Þeir munu brenna hús þín og fullnægja refsidómum yfir þér í augsýn margra kvenna. Þannig bind ég enda á hórdóm þinn og þú munt ekki greiða friðilslaun framar.
42 Þegar ég hef svalað reiði minni á þér mun afbrýði mín hverfa. Ég mun hljóta frið og ekki reiðast framar. 43 Þar sem þú minntist ekki bernskudaga þinna og vaktir reiði mína með öllu þessu læt ég breytni þína koma þér í koll, segir Drottinn Guð. Hefurðu ekki framið aðra svívirðu ofan á önnur viðbjóðsleg verk þín?
44 Sá sem talar um þig í málsháttum hlýtur að segja: „Mær er jafnan móður lík.“ 45 Þú ert dóttir móður þinnar sem hafði andstyggð á eiginmanni sínum og börnum og þú ert systir systra þinna sem höfðu andstyggð á eiginmönnum sínum og börnum. Móðir ykkar var Hetíti og faðir ykkar Amoríti. 46 Eldri systir þín er Samaría, sem býr með dætrum sínum norðan við þig, og yngri systir þín er Sódóma sem býr sunnan við þig ásamt dætrum sínum. 47 En þú breyttir ekki aðeins eins og þær og framdir sömu svívirðingar og þær, heldur tókst þú þeim fljótlega fram í spilltu líferni. 48 Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, Sódóma systir þín og dætur hennar hafa aldrei gert það sem þú og dætur þínar hafa gert. 49 Sekt Sódómu, systur þinnar, var að hún og dætur hennar lifðu í allsnægtum og bjuggu í makindum en réttu hinum fátæku og hjálparlausu ekki hjálparhönd. 50 Þær urðu drambsamar og unnu viðbjóðsleg verk frammi fyrir mér. Þess vegna hafnaði ég þeim eins og þú hefur séð. 51 Samaría hefur ekki einu sinni drýgt helminginn af þínum syndum. Þú hefur unnið miklu fleiri viðbjóðsleg verk en báðar systur þínar. Vegna allra þeirra viðbjóðslegu verka sem þú hefur unnið virðast systur þínar réttlátar. 52 Sjálf máttu bera smán þína. Þú hefur veitt systrum þínum uppreisn æru með syndum þínum sem eru viðbjóðslegri en þeirra svo að þær virðast réttlátari en þú. Skammastu þín og berðu þá hneisu að hafa sýnt fram á að systur þínar eru réttlátari en þú.
53 En ég mun snúa högum þeirra, högum Sódómu og dætra hennar og högum Samaríu og dætra hennar og högum þínum sem ert á milli þeirra 54 svo að þú takir smán þína á þig og fyrirverðir þig fyrir allt sem þú hefur gert og varð þeim til huggunar. 55 Systir þín, Sódóma, og dætur hennar skulu verða aftur eins og áður og systir þín, Samaría, og dætur hennar skulu verða aftur eins og áður og þú sjálf og dætur þínar skuluð verða eins og áður.
56 Rægðir þú ekki Sódómu systur þína á velmektardögum þínum 57 áður en illska þín var afhjúpuð? Nú lítilsvirða konur Edómíta þig og allir nágrannar þeirra og konur Filistea sem fyrirlíta þig. 58 Þú verður að taka afleiðingum skammarlegrar hegðunar þinnar og viðbjóðslegra verka.
59 Því að svo segir Drottinn Guð: Ég geri þér það sem þú hefur gert, þú sem hafðir eiðinn að engu og raufst sáttmálann. 60 En ég mun minnast sáttmála míns við þig frá bernskudögum þínum og ég mun gera við þig ævarandi sáttmála. 61 Þá muntu minnast breytni þinnar og skammast þín þegar ég veiti systrum þínum sæmd, bæði þeim eldri og hinum yngri. Ég gef þér þær að dætrum, þó ekki vegna sáttmálans við þig. 62 Ég mun gera sáttmála minn við þig og þú munt skilja að ég er Drottinn 63 svo að þú minnist þess og skammist þín. Þú skalt ekki framar dirfast að opna munn þinn af skömm þegar ég hef bætt fyrir allt sem þú hefur gert, segir Drottinn Guð.