Þeir sem eiga lof skilið

1Þrennt er það sem ég hef yndi af
og það er fagurt í augum Guðs og manna:
samlyndi bræðra, vinfengi granna
og hjón sem lifa saman í eindrægni.
2 Þrjá hópa manna hata ég
og hef hreinustu andstyggð á hátterni þeirra:
drembinn fátæklingur, lyginn auðmaður
og gamall heimskingi sem drýgir hór.
3 Hafir þú ekkert lagt fyrir í æsku,
hvað mun þér þá hlotnast aldurhnignum?
4 Dómgreind fer vel gráum hárum
og ráðhyggni rosknum mönnum.
5 Spekin er öldruðum mönnum prýði,
hyggindi og ráðsnilld virðingarmönnum.
6 Öldungum er reynslan heiðurssveigur
en ótti Drottins vegsemd þeirra.
7 Með sjálfum mér tel ég níu hópa manna sæla,
frá hinum tíunda mun tunga mín greina:
Sá maður sem börn hans gleðja
og sá sem lifir fall fjandmanna.
8 Sæll er sá sem býr með hygginni konu,
sá sem aldrei varð á í orði,
sá sem ei þjónaði sér minni manni.
9 Sæll er sá sem hyggindi hlaut,
sá sem hlýtt er á með athygli.
10 Hversu mikill er sá sem spekina fann
en enginn er fremri þeim sem óttast Drottin.
11 Ótti Drottins er æðri öllu öðru,
við hvern fær sá jafnast er ber hann í brjósti?
12 Guðsótti er upphaf ástar á Drottni
og trú upphaf þess að halda sig að honum. [

Um konur

13Ekkert jafnast á við sár á hjarta
og engin illska á við illsku konu.
14 Engin ógæfa jafnast á við þá sem hatursmenn valda
og engin hegning á við hegningu fjandmanna.
15 Ekkert höfuð er skæðara höggormshöfði,
engin heift brennur heitar en heift konu.
16 Fremur vil ég búa hjá ljóni og dreka
en með illri konu.
17 Illska konu afmyndar ásýnd hennar,
sem birna verður hún blökk í framan.
18 Er maður hennar situr í grannahópi
stynur hann þungan ósjálfrátt.
19 Allt illt eru smámunir hjá illsku konu,
megi hún hreppa hlutskipti syndara.
20 Eins og sandskriða fyrir öldungsfæti
er málug kona hóglátum manni.
21 Eigi skaltu falla fyrir fríðleik konu
né girnast að hafa gleði af henni.
22 Reiðiköst, frekja og auðmýking mikil
bitnar á þeim manni sem kona sér fyrir.
23 Deigum hug og dimmum svip
og sáru hjarta veldur vond kona.
Máttlausar verða hendur og magnvana kné
þess manns sem kona gerir óhamingjusaman.
24 Til konu á syndin rót sína að rekja,
hennar vegna deyjum vér allir.
25 Lát vatnið ei fá útrás,
né leyf illri konu að vera orðdjörf.
26 Ef hún er þér ekki samstiga
þá skaltu skilja við hana.