Lagabálkur um hreint og óhreint

Hrein dýr og óhrein

1 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:
2 „Ávarpið Ísraelsmenn og segið: Af öllum stórgripum jarðarinnar megið þið eta þessa:
3 Þið megið eta stórgripi sem hafa klofna hófa, hafa klaufir og jórtra.
4 En þessi dýr, sem aðeins jórtra eða aðeins hafa klofna hófa, megið þið ekki eta:
Þið megið ekki eta úlfalda; þið skuluð telja hann óhreinan því að hann jórtrar en hefur ekki klofna hófa; 5 þið skuluð telja klettagreifingja óhreinan því að hann jórtrar en hefur ekki klofna hófa; 6 þið skuluð telja héra óhreinan því að hann jórtrar en hefur ekki klofna hófa; 7 þið skuluð telja svín óhreint því að það hefur klofna hófa, það hefur klaufir en jórtrar ekki.
8 Þið megið hvorki neyta kjöts þessara dýra né snerta hræ þeirra, þau skulu vera ykkur óhrein.
9 Þessi lagardýr megið þið eta: Öll dýr sem hafa ugga og hreistur og lifa í vatni, hvort heldur sjó eða fljótum. 10 En öll smádýr, sem vötnin eru kvik af, og allar þær skepnur, sem lifa í vatni en hvorki hafa ugga né hreistur, 11 skulu vera ykkur viðurstyggð. Sökum þess að þau eru ykkur viðurstyggð skuluð þið ekki neyta þeirra og ykkur skal bjóða við hræjum þeirra.
12 Lagardýr, sem hvorki hafa ugga né hreistur, skulu vera ykkur viðurstyggð.
13 Þessir fuglar skulu vera ykkur viðurstyggð og þeirra skal ekki neyta: örn, skegggammur, haförn, 14 gleða, fálkar og haukar, 15 hrafnakynið allt, 16 strútur, svala, mávur, allar smyrlategundir, 17 ugla, súla, náttugla, 18 hornugla, snæugla, hrægammur, 19 storkur, allar tegundir hegra, herfugl og leðurblaka.
20 Öll ferfætt, vængjuð skordýr skulu vera ykkur viðurstyggð. 21 Samt megið þið neyta ferfættra, vængjaðra skordýra sem hafa lærvöðva ofan við fótleggina til þess að stökkva með um jörðina. 22 Af þeim megið þið neyta þessara dýra: ýmissa tegunda af flækingsengisprettum, klettaengisprettum, hlaupaengisprettum og stökkengisprettum. 23 En öll önnur ferfætt, vængjuð skordýr skulu vera ykkur viðurstyggð.
24 Þið verðið óhreinir af þessum dýrum. Hver sem snertir hræ þeirra verður óhreinn til kvölds. 25 Hver sem tekur upp hræ þeirra skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvölds.
26 Stórgripir með klofna hófa en ekki klaufir, sem jórtra ekki, skulu vera ykkur óhreinir. Hver sem snertir þá verður óhreinn.
27 Allir ferfætlingar, sem ganga á þófum, skulu vera ykkur óhreinir. Hver sem snertir hræ þeirra verður óhreinn til kvölds 28 og hver sem tekur upp hræ þeirra skal þvo klæði sín og verður óhreinn til kvölds. Þau skulu vera ykkur óhrein.
29 Af þeim dýrum, sem skríða á jörðinni, skulu þessi teljast óhrein: moldvarpa, mús, ýmsar eðlutegundir, 30 skrækeðla, kóakeðla, letaeðla, salamandra og kamelljón. 31 Af dýrunum, sem skríða á jörðinni, skulu þessi vera ykkur óhrein. Hver sem snertir hræ þeirra verður óhreinn til kvölds.
32 Allt sem þau falla á dauð verður óhreint, hvort sem það er einhver hlutur úr viði, klæði, leðri eða striga eða hvaða nytsamur hlutur sem vera skal. Þeim hlut skal dýft í vatn og verður hann óhreinn til kvölds.
33 Detti eitthvert þessara dýra í leirker verður allt óhreint sem í því er og skal kerið brotið. 34 Allur matur, sem annars mætti neyta, verður óhreinn ef vatn úr slíku keri rennur á hann. Sérhver drykkur, sem annars mætti drekka, verður óhreinn í slíku keri.
35 Allt sem hræ einhvers þessara dýra fellur á verður óhreint. Ef það er ofn eða eldstæði skal það rifið niður því að það er orðið óhreint. Það skal vera ykkur óhreint.
36 Hins vegar verða lindir og brunnar, sem vatni er safnað í, hrein en sá einn sem snertir hræið verður óhreinn.
37 Þegar hræ af einhverju þessara dýra fellur á útsæði sem á að sá er það hreint. 38 Þegar útsæðið hefur verið vætt í vatni og hræ af einhverju þessara dýra fellur á það, skal það vera ykkur óhreint.
39 Þegar fénaður, sem þið megið neyta, deyr verður sá sem snertir hræið af því óhreinn til kvölds. 40 Sá sem neytir einhvers af hræinu skal þvo klæði sín og hann verður óhreinn til kvölds. Sá sem tekur hræið upp skal þvo klæði sín og hann verður óhreinn til kvölds.
41 Sérhvert dýr, sem skríður á jörðinni, er viðurstyggð, það má ekki eta. 42 Þið megið ekki eta nokkurt dýr sem skríður á kviðnum eða gengur á fjórum fótum eða fjölmörgum fótum, yfirleitt einskis dýrs sem skríður á jörðinni því að þau eru viðurstyggð. 43 Gerið ykkur sjálfa ekki viðurstyggilega með því að snerta skriðdýr sem skríður, þið megið ekki saurgast af þeim með því að láta þau óhreinka ykkur. 44 Vegna þess að ég er Drottinn, Guð ykkar, skuluð þið helga ykkur og vera heilagir því að ég er heilagur. Þið skuluð ekki saurga ykkur með því að snerta skriðdýr sem skríður á jörðinni. 45 Vegna þess að ég er Drottinn, sem leiddi ykkur út af Egyptalandi til að gerast Guð ykkar, skuluð þið vera heilagir því að ég er heilagur.“
46 Þetta eru lög um stórgripi og fugla, um lagardýr og um dýr sem skríða á jörðinni. 47 Með þeim má greina á milli þess sem er óhreint og hreint og milli dýra sem neyta má og hinna sem ekki má neyta.