Hvíldarár og fagnaðarár

1 Drottinn talaði við Móse á Sínaífjalli og sagði:
2 „Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu: Þegar þið komið inn í landið, sem ég gef ykkur, skal landið hvílast Drottni til dýrðar. 3 Sex ár skaltu sá í akur þinn og sex ár skaltu klippa víngarð þinn og hirða afrakstur hans. 4 En sjöunda árið skal landið hvílast algjörlega. Það er hvíld Drottni til dýrðar. Þá skaltu hvorki sá akur þinn né klippa víngarð þinn. 5 Það sem sprettur sjálfsáið eftir uppskeru þína máttu ekki skera og þú mátt ekki tína vínber af óklipptum vínviðnum. Þetta skal vera hvíldarár fyrir landið.
6 Það sem landið gefur af sér hvíldarárið skal vera fæða handa ykkur, handa sjálfum þér, þræli þínum, ambátt þinni, kaupamanni þínum og aðkomumönnunum hjá þér. 7 Allar afurðir landsins skulu vera fénaði þínum og villidýrum til fæðu í landi þínu.
8 Þú skalt telja sjö hvíldarár, sjö sinnum sjö ár svo að tímabil sjö hvíldarára verði fjörutíu og níu ár. 9 Tíunda dag sjöunda mánaðar skaltu blása fagnaðarblástur með hafurshorninu. Á friðþægingardaginn skuluð þið þeyta hornið alls staðar í landi ykkar. 10 Þannig skuluð þið kunngjöra helgi fimmtugasta ársins og boða lausn í landinu fyrir alla íbúa þess: Þetta skal vera ykkur fagnaðarár. Þá skal hver maður halda heim til jarðeignar sinnar, sérhver skal snúa heim til ættar sinnar. 11 Þetta fimmtugasta ár skal vera ykkur fagnaðarár. Þá megið þið ekki sá og hvorki skera sjálfsáið korn né tína vínber af óklipptum vínviði: 12 Þetta er fagnaðarár, það á að vera ykkur heilagt. Þá skuluð þið neyta afurða landsins beint af jörðinni.
13 Á slíku fagnaðarári skal hver maður halda heim til jarðeignar sinnar.
14 Þegar þú selur landa þínum eitthvað eða kaupir eitthvað úr hendi landa þíns megið þið ekki reyna að hafa hvor af öðrum. 15 Þegar þú kaupir af landa þínum á að miða verð við fjölda ára sem liðin eru frá fagnaðarárinu. Hann á að selja þér fyrir verð sem miðast við fjölda uppskeruára. 16 Því fleiri sem árin eru þeim mun hærra verð á hann að fá, því færri sem árin eru þeim mun lægra verð átt þú að krefja hann um því að hann selur þér tiltekið uppskerumagn. 17 Enginn má hafa neitt af landa sínum. Þú skalt virða Guð þinn, ég er Drottinn, Guð ykkar.
18 Þið eigið að halda lög mín og reglur og framfylgja þeim svo að þið getið búið öruggir í landinu. 19 Þá mun landið gefa af sér ávöxt svo að þið getið etið nægju ykkar og búið öruggir í því.
20 Þegar þið spyrjið: Hvað eigum við að eta sjöunda árið þegar við megum hvorki sá né hirða uppskeru okkar? 21 þá mun ég senda blessun mína til ykkar sjötta árið og hún mun gera uppskeru ykkar næga til þriggja ára. 22 Þegar þið sáið á áttunda árinu getið þið enn etið af gömlu uppskerunni, allt fram á níunda ár. Þið skuluð eta af gömlu uppskerunni þar til uppskera níunda ársins kemur.

Eignarréttur

23 Ekki má selja land fyrir fullt og allt því að ég á landið. Þið eruð aðeins aðkomumenn og leiguliðar hjá mér. 24 Alls staðar í eignarlandi ykkar skuluð þið virða endurkauparéttinn. 25 Þegar ættbróðir þinn lendir í kröggum og þarf að selja eitthvað af jarðeign sinni skal það skyldmenni, sem stendur honum næst, gerast lausnarmaður hans. Hann skal leysa til sín það sem ættbróðir hans seldi.
26 Þegar einhver hefur ekki lausnarmann en getur sjálfur aflað nægilegs fjár til að greiða lausnargjaldið 27 skal hann telja árin frá því að kaupin voru gerð og endurgreiða kaupandanum fyrir þann tíma sem eftir er. Því næst getur hann farið aftur til jarðeignar sinnar. 28 En geti hann ekki aflað nægilegs fjár til að greiða honum skal jörðin, sem hann seldi, vera í hendi kaupandans til næsta fagnaðarárs. Á fagnaðarárinu verður hún leyst og hann getur aftur farið til jarðeignar sinnar.
29 Þegar einhver maður selur íbúðarhús í víggirtri borg gildir endurkauparéttur hans til loka söluársins: Endurkauparéttur hans gildir tiltekinn tíma. 30 En ef hann leysir það ekki til sín fyrir árslok verður þetta hús í víggirtri borg eign kaupandans og niðja hans. Það verður ekki leyst á fagnaðarárinu. 31 En hús í þorpum, sem ekki eru víggirt, teljast vera í sveit. Þau verða ekki leyst á fagnaðarárinu.

Eignarréttur Levíta

32 Um borgir Levíta gildir að Levítum er heimilt að leysa til sín húsin í borgum sínum hvenær sem er. 33 Ef einhver af Levítunum notar ekki endurkauparétt sinn verður það hús í borginni, sem er eign hans, leyst á fagnaðarárinu því að húsin í borgum Levíta eru eign þeirra á meðal Ísraelsmanna. 34 Ekki má selja beitilandið sem liggur að þessum borgum því að það er ævarandi eign íbúa þeirra.

Hjálp við nauðstadda

35 Þegar landi þinn lendir í kröggum og kemst ekki af í samfélaginu skaltu veita honum hjálp eins og aðkomumanni eða gesti svo að hann haldi lífi ykkar á meðal. 36 Taktu hvorki vexti né okurleigu af honum. Þú skalt virða Guð þinn svo að bróðir þinn haldi lífi í samfélaginu. 37 Þú mátt hvorki draga vexti frá peningaláni til hans né leggja okurleigu á matvæli sem þú lánar honum. 38 Ég er Drottinn, Guð ykkar sem leiddi ykkur út úr Egyptalandi til að gefa ykkur Kanaansland og vera Guð ykkar.

Þrælahald

39 Þegar landi þinn lendir í kröggum og selur sig þér mátt þú ekki láta hann vinna þrælavinnu. 40 Hann á að vera hjá þér eins og daglaunamaður eða gestur og vinna hjá þér til næsta fagnaðarárs. 41 Þá skal hann fara frá þér frjáls maður ásamt börnum sínum og snúa aftur til ættmenna sinna og jarðeignar forfeðra sinna. 42 Vegna þess að þeir eru þrælar mínir, sem ég leiddi út úr Egyptalandi, má ekki selja þá mansali. 43 Þú skalt ekki beita þá valdi. Sýndu Guði þínum lotningu.
44 Þetta gildir um þá þræla og ambáttir sem þú eignast. Þið megið kaupa þræla og ambáttir af þjóðunum sem eru umhverfis ykkur. 45 Þið megið einnig kaupa börn af þeim aðkomumönnum sem dveljast hjá ykkur undir vernd og eru fædd í landi ykkar. Þau verða eign ykkar 46 og þið getið látið þau ganga í arf til barna ykkar. Þið getið ævinlega látið þau vinna sem þræla. En landa ykkar, Ísraelsmenn, skuluð þið ekki beita valdi.
47 Þegar aðkomumaður eða gestur auðgast hjá þér en ættbróðir þinn lendir í kröggum og verður að selja sig aðkomumanninum eða leiguliðanum eða afkomanda aðkomumannsins 48 skal heimilt að leysa hann eftir að hann hefur selt sig: Annaðhvort skal einhver af löndum hans leysa hann 49 eða föðurbróðir hans, sonur föðurbróður hans eða einhver náskyldur ættingi hans. Ef hann auðgast getur hann leyst sig sjálfur. 50 Hann og kaupandinn skulu telja árin frá árinu þegar hann seldi sig og til næsta fagnaðarárs. Söluverðið skal miðað við árafjöldann og hvert ár metið til launa daglaunamanns. 51 Ef mörg ár eru eftir skal hann draga kaupverðið frá lausnargjaldinu sem miðast við fjölda áranna. 52 En ef aðeins fá ár eru eftir til fagnaðarársins skal hann reikna samkvæmt því. Hann skal greiða lausnargjald sitt eftir árafjöldanum. 53 Hann skal sæta sömu kjörum hjá honum og kaupamaður sem er hjá honum ár eftir ár. Sá sem keypti hann má ekki beita hann valdi að þér ásjáandi. 54 Ef hann verður ekki innleystur á þennan hátt skal hann fara frjáls maður ásamt börnum sínum á fagnaðarárinu 55 því að Ísraelsmenn eru eign mín, mínir þrælar. Þeir eru þrælar mínir sem ég leiddi út úr Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð ykkar.