1 Og Jesús sagði: „Sannlega segi ég ykkur: Nokkrir þeirra sem hér standa munu eigi deyja fyrr en þeir sjá Guðs ríki komið með krafti.“

Þessi er minn elskaði sonur

2 Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra 3 og klæði hans urðu fannhvít og skínandi og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gert. 4 Og Elía og Móse birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. 5 Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ 6 Hann vissi ekki hvað hann átti að segja enda urðu þeir mjög skelfdir.
7 Þá kom ský og skyggði yfir þá og rödd kom úr skýinu: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“ 8 Og jafnskjótt litu lærisveinarnir í kringum sig og sáu engan framar hjá sér nema Jesú einan.
9 Á leiðinni ofan fjallið bannaði Jesús þeim að segja nokkrum frá því er þeir höfðu séð fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum.
10 Þeir festu orðin í minni og ræddu um hvað væri að rísa upp frá dauðum. 11 Og þeir spurðu hann: „Hví segja fræðimennirnir að Elía eigi fyrst að koma?“
12 Jesús svaraði þeim: „Víst kemur Elía fyrst og færir allt í lag. En hvernig er ritað um Mannssoninn? Á hann ekki margt að líða og verða smáður? 13 En ég segi ykkur: Elía er kominn og þeir gerðu honum allt sem þeir vildu, eins og ritað er um hann.“

Hjálpa þú vantrú minni

14 Þegar þeir komu til lærisveinanna sáu þeir mannfjölda mikinn kringum þá og fræðimenn að þrátta við þá. 15 En um leið og fólkið sá hann sló þegar felmtri á menn og þeir hlupu til og heilsuðu Jesú. 16 Hann spurði þá: „Um hvað eruð þið að þrátta við þá?“
17 En einn úr mannfjöldanum svaraði honum: „Meistari, ég færði til þín son minn sem er haldinn illum anda svo að hann getur ekki talað. 18 Hvar sem andinn grípur hann slengir hann honum flötum og hann froðufellir, gnístir tönnum og stirðnar upp. Ég bað lærisveina þína að reka hann út en þeir gátu það ekki.“
19 Jesús svarar þeim: „Þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá ykkur? Hversu lengi á ég að umbera ykkur? Færið hann til mín.“
20 Þeir færðu hann þá til Jesú en um leið og andinn sá hann teygði hann drenginn ákaflega, hann féll til jarðar, veltist um og froðufelldi.
21 Jesús spurði þá föður hans: „Hve lengi hefur honum liðið svo?“
Faðirinn sagði: „Frá bernsku. 22 Og oft hefur illi andinn kastað honum bæði í eld og vatn til að fyrirfara honum. En ef þú getur nokkuð þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur.“
23 Jesús sagði við hann: „Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir.“
24 Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“
25 Nú sér Jesús að mannfjöldi þyrpist að. Þá hastar hann á óhreina andann og segir: „Þú daufdumbi andi, ég býð þér, far út af honum og kom aldrei framar í hann.“
26 Þá æpti andinn, teygði hann mjög og fór en sveinninn varð sem nár svo að flestir sögðu: „Hann er dáinn.“ 27 En Jesús tók í hönd honum og reisti hann upp og hann stóð á fætur.
28 Þegar Jesús var kominn inn og orðinn einn með lærisveinum sínum spurðu þeir hann: „Hvers vegna gátum við ekki rekið hann út?“
29 Jesús mælti: „Þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn.“

Þeir skildu ekki

30 Þeir héldu nú brott þaðan og fóru um Galíleu en Jesús vildi ekki að neinn vissi það 31 því að hann var að kenna lærisveinum sínum. Hann sagði þeim: „Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur og þeir munu lífláta hann en eftir þrjá daga mun hann rísa upp.“
32 En þeir skildu ekki það sem hann sagði og þorðu ekki að spyrja hann.

Hver er mestur?

33 Þeir komu til Kapernaúm. Þegar þeir voru komnir inn spurði Jesús þá: „Hvað voruð þið að ræða á leiðinni?“
34 En þeir þögðu. Þeir höfðu verið að ræða það sín á milli á leiðinni hver væri mestur.
35 Hann settist niður, kallaði á þá tólf og sagði við þá: „Hver sem vill vera fremstur sé síðastur allra og þjónn allra.“ 36 Og hann tók lítið barn, setti það meðal þeirra, tók það sér í faðm og sagði við þá: 37 „Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér og hver sem tekur við mér tekur ekki aðeins við mér heldur og við þeim er sendi mig.“

Varnið þess ekki

38 Jóhannes sagði við hann: „Meistari, við sáum mann reka út illa anda í þínu nafni og vildum við varna honum þess af því að hann fylgdi okkur ekki.“
39 Jesús sagði: „Varnið honum þess ekki því að enginn gerir kraftaverk í mínu nafni og fer þegar á eftir að tala illa um mig. 40 Sá sem er ekki á móti okkur er með okkur. 41 Sannlega segi ég ykkur að hver sem gefur ykkur bikar vatns að drekka vegna þess að þið hafið játast Kristi, hann mun alls ekki missa af launum sínum.

Hverju skal til kosta?

42 Hverjum þeim sem tælir til falls einn af þessum smælingjum sem trúa væri betra að vera varpað í hafið með mylnustein um hálsinn. 43 Ef hönd þín tælir þig til falls þá sníð hana af. Betra er þér handarvana inn að ganga til lífsins en hafa báðar hendur og fara til helvítis, í hinn óslökkvanda eld. [ 44 Þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.][ 45 Ef fótur þinn tælir þig til falls þá sníð hann af. Betra er þér höltum inn að ganga til lífsins en hafa báða fætur og verða kastað í helvíti. [ 46 Þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.][ 47 Og ef auga þitt tælir þig til falls þá ríf það úr. Betra er þér eineygðum inn að ganga í Guðs ríki en hafa bæði augu og verða kastað í helvíti 48 þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki. 49 Sérhver mun eldi saltast. 50 Saltið er gott en ef saltið missir seltuna, með hverju viljið þið þá krydda það? Hafið salt í sjálfum ykkur og haldið frið ykkar á milli.“