Bréf til Gyðinga í Egyptalandi

1 Við Gyðingar í Jerúsalem og Júdeu sendum bræðrum okkar í Egyptalandi kveðju og óskum þeim friðar og velfarnaðar. 2 Guð veri ykkur góður og minnist sáttmála síns við trúa þjóna sína, Abraham, Ísak og Jakob. 3 Hann gefi ykkur öllum þrá til að tilbiðja sig og gera vilja sinn af öllu hjarta og fúsu geði. 4 Hann opni hjörtu ykkar fyrir lögmáli sínu og boðum. Megi hann veita ykkur frið 5 og heyra bænir ykkar og taka ykkur í sátt. Hann yfirgefi ykkur ekki á neyðartímum.
6 Hér erum við nú saman komnir til að biðja fyrir ykkur. 7 Á stjórnarárum Demetríusar konungs árið eitt hundrað sextíu og níu skrifuðum við Gyðingar til ykkar í þeirri ógnarþrengingu sem yfir okkur dundi árin eftir að Jason og lagsmenn hans höfðu svikið Landið helga og ríkið. 8 Þeir brenndu musterishliðin og úthelltu saklausu blóði en við báðum til Drottins og hann bænheyrði okkur. Við færðum sláturfórnir og matarfórnir, tendruðum lampana og lögðum skoðunarbrauðin fram. 9 Nú hvetjum við ykkur til að halda laufskálahátíð í kíslevmánuði.
10 Þetta er ritað árið eitt hundrað áttatíu og átta.

Bréf um uppruna musterisvígsluhátíðarinnar

Íbúar Jerúsalem og Júdeu, öldungaráðið og Júdas senda kveðju Aristobúlusi, kennara Ptólemeusar konungs, afkomanda smurðra presta, og óska honum og Gyðingum í Egyptalandi velfarnaðar.
11 Guð hefur frelsað okkur úr miklum háska og þökkum við honum mikillega og erum þess albúnir að ráðast gegn konunginum. 12 Því að sjálfur Guð hrakti þá á brott sem höfðu fylkt sér gegn hinni heilögu borg.
13 Þegar herkonungurinn kom til Persíu með her sinn, sem virtist ósigrandi, var hann felldur í hofi Naneu því að prestarnir beittu brögðum. 14 Antíokkus kom á staðinn og vinir hans með honum. Hann lét sem hann vildi kvænast gyðjunni og hugðist hreppa mikinn fjársjóð að heimanmundi. 15 Prestarnir báru dýrgripina fram og Antíokkus gekk með fáeinum félögum sínum inn í hofgarðinn. Um leið og hann kom inn í hofið læstu prestarnir því. 16 Þeir luku upp leynihurð á hvelfingunni og vörpuðu niður grjóti sem dundi á konungi með feiknarafli. Þeir brytjuðu fallna niður og köstuðu höfðunum til þeirra sem úti fyrir stóðu. 17 Lofaður sé Guð á allan hátt sem hegndi guðlösturunum.

Eldur eyðir fórn Nehemía

18 Þar sem við höfum nú afráðið að halda hreinsun musterisins hátíðlega tuttugasta og fimmta dag kíslevmánaðar teljum við okkur skylt að tilkynna ykkur það til þess að einnig þið getið haldið helga laufskálahátíð þessa daga og minnst eldsins sem fannst þegar Nehemía bar fram fórnir er hann hafði reist musterið og altarið.
19 En þegar flytja átti feður okkar til Persíu tóku þeir guðhræddir prestar, er þá voru uppi, eld á laun af altarinu og komu honum fyrir niðri í þornuðum brunni þar sem þeir földu hann svo tryggilega að enginn gat fundið staðinn. 20 En eftir fjöldamörg ár þóknaðist Guði að láta Persakonung senda Nehemía heim. Hann sendi niðja prestanna, sem falið höfðu eldinn, til að sækja hann. 21 Þeir sneru aftur og kváðust ekki hafa fundið neinn eld heldur aðeins eðju. Nehemía skipaði þeim að ausa nokkru af henni upp og færa sér. Þegar svo allt það sem hafa skyldi til fórnarinnar var komið á sinn stað bauð Nehemía prestunum að hella vökvanum yfir viðinn og það sem á hann hafði verið lagt. 22 Það gerðu þeir og nokkur tími leið. Þá dró ský frá sólu og öllum til undrunar kviknaði mikið bál. 23 Meðan fórnin brann fluttu prestarnir bæn og allir tóku undir. Jónatan leiddi bænagjörðina og aðrir tóku undir og með þeim Nehemía. 24 Bænin hljóðaði þannig:

Bæn Nehemía

„Drottinn, Drottinn Guð, skapari alls, þú ógurlegi, máttugi, réttláti, miskunnsami, þú sem einn ert konungur og einn ert góður.
25 Þú sem einn gefur og einn ert réttlátur og alvaldur og eilífur, þú sem frelsar Ísrael frá öllu illu og hefur útvalið feður vora og helgað þá. 26 Veit þessari fórn viðtöku fyrir gjörvallan lýð þinn Ísrael. Varðveit þú eignarlýð þinn og helga hann. 27 Safna þú þeim af oss saman sem tvístraðir eru og frelsa þá sem eru í áþján meðal heiðingjanna. Lít til þeirra sem eru smáðir og útskúfaðir og lát heiðingjana komast að raun um að þú ert Guð vor. 28 Refsa þú þeim sem í hroka sínum kúga oss og misþyrma.
29 Gróðurset lýð þinn á þínum heilaga stað eins og Móse sagði.“

Persakeisari fær fregnir af eldinum

30 Síðan sungu prestarnir lofsöngva. 31 Þegar fórnin var brunnin upp bauð Nehemía að hella því sem eftir var af vökvanum yfir stóra steina. 32 Þegar þetta var gert kviknaði logi sem slokknaði þegar ljósið frá altarinu skein á hann.
33 Er þetta spurðist var Persakonungi einnig sagt frá því að vökvinn hefði komið í ljós á þeim stað þar sem herleiddu prestarnir fólu eldinn og hefðu Nehemía og menn hans notað hann síðan til að hreinsa fórnargjafirnar. 34 Eftir að hafa rannsakað málið lét konungur girða staðinn og lýsa hann heilagan. 35 Hann og þeir sem hann vildi vel skiptust einnig á veglegum gjöfum.
36 Þeir Nehemía kölluðu efnið neftar, sem merkir hreinsun, en flestir nefna það nafta.