Manntalið og plágan

1 Satan reis upp gegn Ísrael. Hann æsti Davíð til að láta telja Ísraelsmenn. 2 Davíð skipaði því Jóab og höfðingjum þjóðarinnar svo: „Haldið af stað og teljið Ísraelsmenn frá Beerseba til Dan. Færið mér svo niðurstöðuna því að ég vil vita hve margir þeir eru.“
3 Þá sagði Jóab við konung: „Drottinn fjölgi þjóð sinni hundraðfalt frá því sem nú er. En eru þeir ekki allir þegnar þínir, herra minn og konungur? Hvers vegna viltu þetta, herra? Hvers vegna á þetta að leiða sekt yfir Ísrael?“
4 Skipun konungs mátti sín meira en skoðun Jóabs. Jóab hélt því af stað, fór um allt Ísraelsland og kom síðan heim til Jerúsalem. 5 Hann tilkynnti Davíð niðurstöðu manntalsins: Í öllum Ísrael voru ein milljón og eitt hundrað þúsund menn sem gátu brugðið sverði en í Júda voru fjögur hundruð og sjötíu þúsund menn sem gátu brugðið sverði. 6 En hann hafði ekki talið Leví og Benjamín með hinum af því að hann hafði andstyggð á skipun konungs. 7 Þetta verk var illt í augum Guðs. Þess vegna laust hann Ísrael. 8 Davíð bað því til Drottins á þessa leið: „Ég hef brotið alvarlega af mér með því að vinna þetta verk. Drottinn, fyrirgefðu nú þræli þínum því að ég hef farið heimskulega að ráði mínu.“
9 Þá talaði Drottinn við Gað, sjáanda Davíðs, og sagði: 10 „Far þú og seg við Davíð: Svo segir Drottinn: Ég set þér þrjá kosti: Veldu einn þeirra og ég mun láta það yfir þig ganga.“ 11 Því næst gekk Gað fyrir Davíð og sagði við hann: „Svo segir Drottinn: Veldu eitt af þessu: 12 Hungursneyð í þrjú ár, flótta í þrjá mánuði undan óvinum þínum og sverðshöggum fjandmanna þinna eða sverð Drottins, það er drepsótt í landinu í þrjá daga. Þá mun engill Drottins herja á öllu landsvæði Ísraels. Íhugaðu nú vandlega hvaða svar ég á að færa þeim sem sendi mig.“
13 Davíð svaraði Gað: „Nú er úr vöndu að ráða. Helst vil ég falla í hendur Drottins því að mikil er miskunn hans en í hendur manna vil ég ekki falla.“
14 Þá sendi Drottinn drepsótt yfir Ísrael og dóu þá sjötíu þúsund manns í Ísrael. 15 Guð sendi engil til Jerúsalem til þess að eyða borgina. En þegar hann var í þann veginn að eyða hana sá Drottinn það og iðraðist þessa böls og sagði við engilinn sem eyddi fólkinu: „Nú er nóg komið. Dragðu að þér höndina.“ Engill Drottins stóð þá við þreskivöll Jebúsítans Ornans.
16 Þegar Davíð leit upp sá hann engil Drottins standa milli himins og jarðar með brugðið sverð í hendi og var því beint gegn Jerúsalem. Davíð og öldungarnir féllu þá fram á ásjónur sínar, klæddir hærusekkjum. 17 Davíð sagði við Guð: „Er það ekki ég sem hef gefið skipun um að þjóðin skuli talin? Það er ég sem hef syndgað, það er ég sem hef brotið af mér. En hvað hefur þessi hjörð hérna gert? Drottinn, Guð minn. Lyftu hendi þinni gegn mér og fjölskyldu minni en greiddu þjóð þinni ekki högg.“

Musterinu valinn staður

18 Nú skipaði engill Drottins Gað að segja Davíð að fara upp eftir til þess að reisa Drottni altari á þreskivelli Jebúsítans Ornans. 19 Davíð gekk þá upp eftir eins og Gað hafði boðið í nafni Drottins.
20 Ornan var að þreskja hveiti, hafði snúið sér við og séð engil Drottins en fjórir synir hans, sem voru með honum, höfðu falið sig. 21 Þegar Davíð kom til Ornans og hann leit upp og sá Davíð gekk hann út af þreskivellinum og féll fram á ásjónu sína frammi fyrir Davíð. 22 Þá sagði Davíð við Ornan: „Láttu mig fá landið sem þreskivöllurinn er á. Þar ætla ég að reisa Drottni altari. Seldu mér það fullu verði svo að drepsóttinni létti af þjóðinni.“
23 Ornan svaraði Davíð: „Taktu það. Þú, herra minn og konungur, skalt gera það sem þú vilt. Ég gef þér hér með nautin í brennifórnir, þreskisleðana sem eldivið og hveitið í kornfórn. Allt þetta gef ég þér.“
24 Davíð konungur svaraði Ornan: „Nei, ég vil kaupa það af þér fullu verði. Ég get ekki tekið eign þína og fært Drottni brennifórn sem ég hef ekki greitt.“
25 Því næst greiddi Davíð Ornan sex hundruð sikla gulls fyrir landið. 26 Þarna reisti Davíð Drottni altari og færði brennifórnir og heillafórn. Hann ákallaði Drottin og hann svaraði honum með eldi sem kom á brennifórnaraltarið niður af himni. 27 Þá skipaði Drottinn englinum að slíðra sverð sitt.
28 Þegar Davíð hafði komist að því að Drottinn bænheyrði hann á þreskivelli Ornans gat hann fært honum fórnir þar. 29 Bústaður Drottins, sem Móse hafði gert í eyðimörkinni, og brennifórnaraltarið voru á þessum tíma í Gíbeon. 30 En Davíð gat ekki gengið fyrir auglit Guðs til að leita svara hans af því að hann óttaðist sverð engils Drottins.