Saga Salómons konungs

Draumur Salómons

1 Salómon, sonur Davíðs, reyndist máttugur í konungdómi sínum. Drottinn, Guð hans, var með honum og gerði hann mjög voldugan. 2 Salómon gaf öllum Ísrael fyrirmæli, foringjum þúsund og hundrað manna liða og höfðingjum alls Ísraels og höfðingjum ættanna. 3 Því næst hélt Salómon og allur söfnuðurinn með honum til fórnarhæðarinnar í Gíbeon því að þar var opinberunartjald Guðs sem Móse, þjónn Drottins, hafði gert í eyðimörkinni. 4 Davíð hafði flutt örk Guðs frá Kirjat Jearím á þann stað sem hann hafði búið henni. Hann hafði látið reisa tjald fyrir hana í Jerúsalem. 5 Eiraltarið, sem Besaleel Úríson, Húrssonar, hafði gert, stóð þar frammi fyrir bústað Drottins og Salómon og söfnuðurinn leituðu þar úrskurðar Drottins. 6 Salómon steig upp að eiraltarinu sem var frammi fyrir Drottni við opinberunartjaldið og færði á því þúsund brennifórnir.
7 Þessa nótt birtist Drottinn Salómon og sagði: „Segðu hvað þú vilt að ég gefi þér.“ 8 Salómon svaraði Guði: „Þú hefur sýnt Davíð, föður mínum, mikla náð og gert mig að konungi í hans stað. 9 Drottinn Guð, uppfylltu nú heitið sem þú gafst Davíð, föður mínum, þar sem þú hefur gert mig að konungi yfir þjóð sem er jafnfjölmenn og rykkorn jarðar eru mörg. 10 Gef mér nú visku og þekkingu svo að ég viti hvernig ég á að koma fram við þessa þjóð. Því að hver gæti annars stjórnað þessari voldugu þjóð þinni?“
11 Guð svaraði Salómon: „Vegna þess að þetta er þér efst í huga og þú baðst ekki um auð, eignir, vegsemd eða dauða fjandmanna þinna heldur um visku og þekkingu til þess að geta stjórnað þjóð minni, sem ég hef gert þig að konungi yfir, 12 verður þér gefin viska og þekking. En ég gef þér einnig auð, eignir og vegsemd, meiri en nokkur konungur hefur átt á undan þér eða nokkur mun eignast á eftir þér.“
13 Því næst hélt Salómon frá fórnarhæðinni í Gíbeon, frá opinberunartjaldinu og til Jerúsalem og settist að völdum í Ísrael.

Auðæfi Salómons

14 Salómon kom sér upp hervögnum og mannaði þá. Hafði hann fjórtán hundruð vagna og tólf þúsund vagnliða. Hann kom þeim fyrir í vagnliðsborgum og í Jerúsalem hjá konungi. 15 Konungur notaði silfur og gull eins og grjót í Jerúsalem og sedrusvið eins og mórberjafíkjuviðinn sem vex á láglendinu. 16 Hestar Salómons voru frá Egyptalandi og Kóe. Kaupmenn konungs keyptu þá í Kóe. 17 Vagn, sem fluttur var inn frá Egyptalandi, kostaði sex hundruð sikla silfurs og hver hestur hundrað og fimmtíu sikla. Síðan voru þeir seldir áfram til allra konunga Hetíta og konunga Arams.