Uppreisn Seba

1 Á þessum tíma bjó þarna óþokki sem Seba hét Bíkríson af Benjamínsætt. Hann lét þeyta hafurshornið og hrópaði: Við eigum enga hlutdeild í Davíð,
engan arfshlut í syni Ísaí.
Ísraelsmenn fari nú hver og einn til tjalds síns.

2 Þá sneru allir Ísraelsmenn baki við Davíð og gengu til liðs við Seba en Júdamenn voru tryggir konungi sínum og fylgdu honum frá Jórdan til Jerúsalem.
3 Þegar Davíð kom heim til sín í Jerúsalem lét konungur taka hjákonurnar tíu, sem hann hafði skilið eftir til að gæta húss síns, og setja þær í varðhald. Hann sá fyrir þeim en gekk ekki framar inn til þeirra. Þannig lifðu þær sem ekkjur innilokaðar allt til dauðadags.
4 Nú gaf Davíð Amasa svohljóðandi fyrirmæli: „Kalla Júdamenn til vopna og komdu hingað sjálfur innan þriggja daga.“ 5 Þegar Amasa fór að kveðja Júdamenn til vopna seinkaði honum fram yfir tiltekinn tíma. 6 Þá sagði Davíð við Abísaí: „Nú verður Seba Bíkríson okkur hættulegri en Absalon. Farðu af stað með menn mína og eltu hann svo að hann taki ekki víggirtu borgirnar og við missum sjónar á honum.“
7 Abísaí hélt nú af stað ásamt mönnum Jóabs, Kretum, Pletum og öllu úrvalsliðinu. Þeir fóru út úr Jerúsalem til þess að elta Seba Bíkríson. 8 Þegar þeir komu að stóra steininum í Gíbeon var Amasa kominn þangað á undan þeim. Jóab var búinn herklæðum, sverð sitt hafði hann við lend sér í slíðri sem fest var við beltið. Þegar hann gekk fram hrökk sverðið úr slíðrinu.
9 Jóab sagði við Amasa: „Hvernig líður þér, bróðir?“ og þreif um leið með hægri hendi í skegg Amasa til þess að kyssa hann. 10 En Amasa tók ekki eftir sverðinu, sem Jóab hafði í vinstri hendi, og lagði Jóab því í kvið honum svo að innyflin lágu úti. Jóab þurfti ekki að leggja til hans aftur því að hann var þegar dáinn. Jóab og Abísaí, bróðir hans, héldu síðan áfram að veita Seba Bíkrísyni eftirför. 11 Einn af mönnum Jóabs nam staðar hjá líkinu og hrópaði: „Hver sem hefur mætur á Jóab og hver sem styður Davíð fylgi Jóab.“
12 Amasa lá í blóði sínu á miðjum veginum. Þegar maðurinn sá að allur herinn nam staðar dró hann Amasa út fyrir veginn. Síðan fleygði hann yfir hann klæði þegar hann sá að allir, sem gengu fram hjá honum, námu staðar. 13 Eftir að hann hafði komið Amasa af veginum héldu allir áfram með Jóab til að veita Seba Bíkrísyni eftirför. 14 Hann hafði farið til allra ættbálka Ísraels og var nú kominn til Abel Bet Maaka. Allir ættmenn Bíkrí höfðu safnast saman og fylgt honum.
15 Nú komu menn Jóabs, umkringdu Seba Bíkríson í borginni Abel Met Maaka og hlóðu vegg að borgarmúrnum. Allt lið Jóabs hófst síðan handa við að brjóta niður borgarmúrinn. 16 Þá hrópaði skynsöm kona úr borginni: „Hlustið, hlustið. Segið við Jóab: Komdu, mig langar til að tala við þig.“ 17 Hann gekk þá til konunnar og hún spurði: „Ert þú Jóab?“ Hann játaði því. Þá sagði hún við hann: „Hlustaðu á orð ambáttar þinnar.“ Hann svaraði: „Ég hlusta.“ 18 Þá sagði hún: „Áður fyrr var þetta haft að orðtaki: Spyrðu í Abel og málið er útkljáð. 19 Við erum friðsamasta og traustasta fólkið í Ísrael en þú ætlar að leggja þá borg í rúst sem er móðir í Ísrael. Hvers vegna ætlar þú að eyða arfleifð Drottins?“ 20 Jóab svaraði: „Það er víðs fjarri mér. Ég ætla hvorki að eyða né brjóta, 21 alls ekki. En maður nokkur frá Efraímsfjalli, Seba Bíkríson að nafni, hefur lyft hendi sinni gegn Davíð konungi. Framseljið hann einan og þá mun ég hverfa frá borginni.“ Konan svaraði Jóab: „Taktu eftir, höfði hans verður fleygt til þín yfir borgarmúrinn.“
22 Síðan talaði konan við alla borgarbúa. Þeir létu hálshöggva Seba Bíkríson og fleygðu höfðinu til Jóabs. Því næst lét hann þeyta hafurshornið og héldu þá allir frá borginni, dreifðust og fór hver til síns tjalds. Jóab hélt aftur til Jerúsalem til konungsins.

Embættismenn Davíðs

23 Jóab var hershöfðingi yfir öllum Ísraelsher og Benaja Jójadason var fyrir Kretum og Pletum. 24 Adóníram var yfirmaður kvaðavinnunnar og Jósafat Ahílúðsson var kallari konungs. 25 Seja var ríkisritari og Sadók og Abjatar voru prestar. Íra af ætt Jaírs var einnig prestur Davíðs.