Reglur um kynlíf

1 Drottinn sagði við Móse: 2 „Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu við þá: Ég er Drottinn, Guð ykkar. 3 Þið skuluð hvorki hegða ykkur samkvæmt siðum íbúa Egyptalands, þar sem þið bjugguð, né siðum íbúa Kanaanslands, þangað sem ég leiði ykkur, né heldur fylgja háttum þeirra. 4 Þið skuluð fara að fyrirmælum mínum og halda lög mín með því að fara eftir þeim. Ég er Drottinn, Guð ykkar.
5 Þið eigið að halda lög mín og reglur. Hver sem það gerir mun halda lífi þeirra vegna. Ég er Drottinn.
6 Enginn á meðal ykkar má nálgast neitt skyldmenni sitt, sem er hold hans og blóð, til þess að bera blygðun þess. Ég er Drottinn.
7 Blygðun föður þíns eða móður mátt þú ekki bera, hún er móðir þín, þú mátt ekki bera blygðun hennar.
8 Blygðun eiginkonu föður þíns mátt þú ekki bera, það er blygðun föður þíns.
9 Blygðun systur þinnar mátt þú ekki bera, hvort sem hún er dóttir föður þíns eða móður, hvort sem hún er fædd innan eða utan fjölskyldu þinnar.
10 Blygðun sonardóttur þinnar eða dótturdóttur mátt þú ekki bera, það er þín eigin blygðun.
11 Blygðun dóttur einhverrar eiginkonu föður þíns mátt þú ekki bera, hún er getin af föður þínum, hún er systir þín.
12 Blygðun systur föður þíns mátt þú ekki bera því að hún er hold og blóð föður þíns.
13 Blygðun móðursystur þinnar mátt þú ekki bera því að hún er hold og blóð móður þinnar.
14 Blygðun föðurbróður þíns mátt þú ekki bera, þú mátt ekki nálgast eiginkonu hans, hún er vensluð þér.
15 Blygðun tengdadóttur þinnar mátt þú ekki bera, hún er eiginkona sonar þíns, þú mátt ekki bera blygðun hennar.
16 Blygðun mágkonu þinnar mátt þú ekki bera, það er blygðun bróður þíns.
17 Blygðun konu máttu ekki bera um leið og blygðun dóttur hennar. Þú mátt hvorki taka sonardóttur hennar né dótturdóttur og bera blygðun hennar. Þær eru hold hennar og blóð, það er blóðskömm.
18 Þú mátt ekki taka systur eiginkonu þinnar þér fyrir konu, gera hana að annarri eiginkonu þinni og bera blygðun hennar á meðan hin er á lífi.
19 Þú mátt ekki nálgast konu, sem er óhrein af tíðum sínum, til að bera blygðun hennar.
20 Þú mátt ekki liggja með eiginkonu landa þíns svo að þú verðir óhreinn af henni.
21 Þú mátt ekki framselja neinn afkomanda þinn til að senda hann gegnum eld fyrir Mólok. Þú mátt ekki vanhelga nafn Guðs þíns. Ég er Drottinn.
22 Þú mátt ekki liggja með karlmanni eins og legið er með konu, það er viðurstyggð.
23 Þú mátt ekki hafa samræði við neitt dýr, þú verður óhreinn af því.
Engin kona má ganga fyrir dýr til að það hafi samræði við hana, það er svívirðing.
24 Óhreinkið ykkur ekki með neinu af þessu því að þær þjóðir, sem ég rak í burt á undan ykkur, saurguðu sig með öllu þessu. 25 Landið saurgaðist og ég refsaði því fyrir sekt sína svo að landið spjó íbúum sínum. 26 En þið skuluð halda lög mín og reglur og forðast að fremja neitt af þessu viðurstyggilega athæfi, bæði innfæddur og aðkomumaður sem býr á meðal ykkar. 27 Því að fólkið, sem var á undan ykkur í landinu, stundaði þetta viðurstyggilega athæfi og því varð landið óhreint.
28 Mundi landið ekki spýja ykkur ef þið saurgið það eins og það spjó þjóðinni sem var þar á undan ykkur? 29 Því að allir, sem fremja eitthvað af þessu viðurstyggilega athæfi, verða upprættir úr þjóð sinni. 30 Haldið því boð mín með því að fylgja engum þeirra viðurstyggilegu siða sem stundaðir voru áður en þið komuð og saurgið ykkur ekki með því.
Ég er Drottinn, Guð ykkar.“