Allt er hégómi

1 Orð prédikarans, sonar Davíðs, konungs í Jerúsalem.
2Aumasti hégómi, segir prédikarinn,
aumasti hégómi, allt er hégómi.
3Hvaða gagn hefur maðurinn af öllu erfiði sínu
sem hann streitist við undir sólinni?
4Ein kynslóð fer, önnur kemur
en jörðin stendur að eilífu.
5Og sólin rennur upp og sólin gengur undir
og hraðar sér aftur til samastaðar síns
þar sem hún rennur upp.
6Vindurinn gengur til suðurs
og snýr sér til norðurs,
hann snýr sér og snýr sér
og hringsnýst á nýjan leik.
7Allar ár renna í sjóinn
en sjórinn fyllist ekki.
Þangað sem árnar renna
munu þær ávallt renna.
8Allt er sístritandi,
enginn maður fær því með orðum lýst,
augað verður aldrei satt af að sjá
og eyrað verður aldrei mett af að heyra.
9Það sem hefur verið mun verða
og það sem gerst hefur mun enn gerast
og ekkert er nýtt undir sólinni.
10Sé nokkuð til er um verði sagt:
Þetta er nýtt,
þá hefur það orðið fyrir löngu,
fyrir okkar tíma.
11Forfeðranna minnast menn ekki
og ekki verður afkomenda heldur minnst
meðal þeirra sem síðar koma.

Sjálf spekin er hégómi

12 Ég, prédikarinn, var konungur yfir Ísrael í Jerúsalem. 13 Ég kappkostaði að rannsaka og kynna mér til hlítar allt það sem gerist undir himninum. Það er erfið þraut sem Guð hefur íþyngt mönnunum með. 14 Ég hef séð öll verk sem unnin eru undir sólinni og öll voru þau hégómi og eftirsókn eftir vindi.
15Hið bogna verður ekki rétt
og það sem á skortir verður ekki talið.

16 Ég hugsaði með mér: Ég hef aflað mér meiri og víðtækari speki en allir sem ríkt hafa yfir Jerúsalem á undan mér og hjarta mitt hefur ríkulega kynnst speki og þekkingu. 17 Ég lagði allan hug á að þekkja speki og þekkja flónsku og heimsku og komst að raun um að einnig það var að sækjast eftir vindi.
18Því að mikilli speki fylgir mikið angur
og sá sem eykur þekkingu sína eykur kvöl sína.