Jerúsalem fellur

1 Á níunda stjórnarári Sedekía Júdakonungs, í tíunda mánuðinum, hélt Nebúkadresar, konungur í Babýlon, gegn Jerúsalem með allan her sinn og settist um hana. 2 Á ellefta stjórnarári Sedekía, á níunda degi fjórða mánaðarins, var borgarmúrinn rofinn. 3 Þá komu allir herforingjar konungsins í Babýlon og settust niður í miðhliðinu, þeir Nergalsareser, höfðingi yfir Sím Magír, Nebúsarsekím hirðstjóri, Nergalsareser, yfirmaður embættismanna, og aðrir herforingjar konungsins í Babýlon.
4 Þegar Sedekía Júdakonungur og allir hermennirnir sáu þetta lögðu þeir á flótta. Um nóttina komust þeir út úr borginni og fóru um garð konungs og hliðið milli beggja múranna. Síðan héldu þeir í áttina til Jórdanardalsins. 5 En hersveitir Kaldea veittu þeim eftirför og náðu Sedekía á sléttunum við Jeríkó. Þeir tóku hann til fanga og fóru með hann norður til Ribla í Hamathéraði og leiddu hann fyrir Nebúkadresar konung í Babýlon. Hann kvað upp dóm yfir Sedekía. 6 Konungurinn í Babýlon lét hálshöggva syni Sedekía í Ribla fyrir augum hans. Konungurinn í Babýlon lét einnig hálshöggva alla aðalsmenn í Júda. 7 Hann lét blinda Sedekía og setja hann í hlekki til að flytja hann til Babýlonar.
8 Kaldear brenndu bæði höll konungs og hús almennings til ösku og rifu niður borgarmúra Jerúsalem. 9 Nebúsaradan, foringi lífvarðarins, flutti þá sem eftir voru í borginni í útlegð til Babýlonar ásamt liðhlaupunum, sem höfðu leitað til hans, og öðrum sem eftir voru. 10 Nebúsaradan, foringi lífvarðarins, skildi eftir í Júda nokkra fátæklinga sem ekkert áttu. Hann gaf þeim um leið víngarða og akurlönd.

Jeremía sleppt úr haldi

11 Nebúkadresar, konungur í Babýlon, hafði gefið Nebúsaradan, foringja lífvarðarins, svohljóðandi fyrirmæli um Jeremía: 12 „Sæktu hann og gættu hans vel. Gerðu honum ekkert illt en farðu með hann eins og hann mælist til.“ 13 Nebúsaradan, foringi lífvarðarins, Nebúsasban hirðstjóri og Nergalsareser herforingi og allir aðrir embættismenn konungsins í Babýlon sendu þá menn af stað 14 til að sækja Jeremía úr forgarði varðliðsins og fengu hann Gedalja Ahíkamssyni, Safanssonar, í hendur til að hann færi með hann heim. Eftir það bjó Jeremía meðal fólksins.
15 Þegar Jeremía var enn í haldi í forgarði varðliðsins barst honum orð frá Drottni: 16 „Farðu og segðu við Ebed Melek frá Kús: Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Brátt læt ég orð mín gegn þessari borg rætast henni til ills en ekki til góðs. Þann dag munu þau rætast fyrir augum þínum. 17 Ég mun bjarga þér á þeim degi, segir Drottinn, svo að þú fallir ekki þeim í hendur sem þú óttast. 18 Já, ég mun láta þig komast undan svo að þú fallir ekki fyrir sverði. Líf þitt verður herfang þitt því að þú treystir mér, segir Drottinn.“