Dýrð Guðs rennur upp yfir Jerúsalem

1Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur
og dýrð Drottins rennur upp yfir þér.
2Myrkur grúfir yfir jörðinni
og sorti yfir þjóðunum
en Drottinn er runninn upp yfir þér
og dýrð hans birtist yfir þér.
3Þjóðir munu stefna á ljós þitt
og konungar á ljómann sem rennur upp yfir þér.
4Hef upp augu þín og litast um,
þeir safnast allir saman og koma til þín,
synir þínir koma langt að
og dætur þínar verða bornar á örmum.
5Við þá sýn muntu gleðjast,
hjarta þitt mun slá hraðar og fyllast fögnuði
því að til þín hverfur auður hafsins
og auðæfi þjóða berast þér.
6Aragrúi úlfalda mun þekja land þitt,
drómedarar frá Midían og Efa
og allir, sem koma frá Saba,
færa þér gull og reykelsi
og flytja Drottni lof.
7Allt sauðfé Kedars flykkist til þín,
hrútar Nebajóts þjóna þér,
ég tek á móti þeim sem fórn á altari mitt
og ég mun auka vegsemd míns dýrlega húss.
8Hver eru þau sem svífa sem ský
og sem dúfur á leið til skýla sinna?
9Skip frá eyjunum sem mín vegna safnast saman,
Tarsisskipin fremst,
til að flytja heim syni þína úr fjarska
og með þeim silfur þeirra og gull
vegna nafns Drottins, Guðs þíns,
Hins heilaga í Ísrael
sem gerði þig dýrlegan.
10Útlendingar munu reisa borgarmúra þína
og konungar þeirra þjóna þér
því að ég sló þig í reiði minni
en miskunna þér af náð minni.
11Hlið þín verða ávallt opin,
þeim verður hvorki lokað dag né nótt
því að þér verða færð auðæfi þjóða
og konungar þeirra leiddir til þín.
12Því að hver sú þjóð eða konungsríki, sem ekki vill þjóna þér,
mun líða undir lok
og þeim þjóðum verður gereytt.
13Dýrð Líbanons kemur til þín,
kýprusviður, platanviður og fura,
til að prýða helgidóm minn
og skreyta fótskör mína.
14Synir þeirra sem kúguðu þig
koma beygðir til þín
og allir, sem smánuðu þig,
munu fleygja sér flötum fyrir fætur þér
og nefna þig borg Drottins, Síon Hins heilaga í Ísrael.
15Þú sem varst yfirgefin og hötuð
og enginn lagði leið sína um þig,
þig geri ég nú að ævarandi vegsemd
og fögnuði frá kynslóð til kynslóðar.
16Þú munt sjúga mjólk þjóðanna
og konungar hafa þig á brjósti.
Þá munt þú skilja að ég, Drottinn, er frelsari þinn,
Hinn voldugi Jakobs, lausnari þinn.
17Ég færi þér gull fyrir eir,
silfur fyrir járn,
eir fyrir við
og járn fyrir grjót.
Ég geri friðinn að yfirvaldi þínu
og réttlætið að yfirboðara þínum.
18Ekki mun framar heyrast getið um ofbeldi í landi þínu,
tjón eða tortímingu innan landamæra þinna.
Þú munt nefna borgarmúra þína Hjálpræði
og hlið þín Lofsöng.
19Sólin verður ekki framar ljós þitt um daga
og tunglið ekki birta þín um nætur
heldur verður Drottinn þér eilíft ljós
og Guð þinn verður þér dýrðarljómi.
20Sól þín gengur aldrei til viðar
og tungl þitt minnkar ekki framar
því að Drottinn verður þér eilíft ljós
og sorgardagar þínir á enda.
21Allir þegnar þínir eru réttlátir,
þeir munu ævinlega eiga landið.
Þeir eru garður Drottins sem ég hef gróðursett,
handaverk hans
sem birtir dýrð hans.
22 Hinn minnsti verður að þúsund,
hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð.
Ég, Drottinn, mun hraða þessu
þegar að því kemur.