1 Nokkru síðar heiðraði Artaxerxes konungur Haman Hamadatsson og veitti honum mikinn frama. Hann var Búgaíti og gerði konungur hann öllum vinum sínum fremri að tign. 2 Skipaði konungur að allir við hirðina ættu að lúta Haman til að auðsýna honum lotningu. Mardokaí laut honum hins vegar ekki. 3 Hirðmenn konungs spurðu hann: „Mardokaí, hvers vegna óhlýðnast þú boði konungs?“ 4 Dag eftir dag færðu þeir þetta í tal við hann en hann skeytti því engu. Sögðu þeir þá Haman frá því að Mardokaí óhlýðnaðist skipun konungs og að hann hefði sagst vera Gyðingur. 5 Þegar Haman komst að því að Mardokaí laut honum ekki varð hann ofsareiður. 6 Ákvað hann að deyða alla Gyðinga meðal þegna Artaxerxesar.
7 Á tólfta stjórnarári Artaxerxesar varpaði Haman hlutkesti. Varpaði hann hlut um það á hvaða degi og í hvaða mánuði hann ætti að eyða allri þjóð Mardokaí á einum og sama degi. Kom upp hlutur fjórtánda dagsins í mánuði þeim sem heitir adar.
8 Haman kom að máli við Artaxerxes konung og sagði: „Ein er sú þjóð sem býr dreifð meðal annarra þjóða um þvert og endilangt ríki þitt. Lög hennar eru frábrugðin lögum allra annarra þjóða og hún óhlýðnast lögum konungsins. Það samræmist ekki hagsmunum konungs að umbera þá þjóð. 9 Ef konungi þóknast þá skal hann gefa út tilskipun um að eyða henni. Ég skal þá greiða tíu þúsund talentur silfurs í fjárhirslu konungs.“ 10 Konungur tók þá af sér hring og afhenti Haman svo að hann gæti sett innsigli á það sem skrifað yrði gegn Gyðingum. 11 Einnig sagði konungur við Haman: „Haltu silfrinu og farðu með þessa þjóð eins og þér sýnist.“
12 Á þrettánda degi fyrsta mánaðar voru skrifarar konungs kvaddir saman. Samkvæmt fyrirmælum Hamans rituðu þeir öllum landstjórum og héraðshöfðingjum í skattlöndunum allt frá Indlandi til Eþíópíu. Skrifuðu þeir sérhverjum héraðshöfðingja í skattlöndunum hundrað tuttugu og sjö á hans eigin tungu og í nafni Artaxerxesar konungs. 13 Hraðboðar voru sendir um ríki Artaxerxesar með boð um að deyða skyldi alla Gyðinga á einum og sama degi í tólfta mánuði ársins, sem nefnist adar, og gera allar eigur þeirra upptækar.

B

Tilskipun Artaxerxesar gegn Gyðingum

1 Hér fer á eftir afrit af bréfinu:
„Stórkonungurinn Artaxerxes sendir landstjórum og þeim sem héruðum stýra í skattlöndunum eitt hundrað tuttugu og sjö, frá Indlandi til Eþíópíu, þessa tilskipun:
2 Eftir að ég tók að ríkja yfir mörgum þjóðum og fékk vald yfir öllum heimi hef ég kappkostað að tryggja þegnum mínum friðsamt líf. Ekki er það af hroka vegna valds míns heldur sakir mildi minnar og góðvildar. Ég vil reyna að skapa ró í ríki mínu og tryggja góðar samgöngur allt til endimarka þess og stuðla þannig að því að sá friður komist á sem allir menn þrá. 3 En þegar ég spurði ráðgjafa mína hvernig þessu yrði til vegar komið kvaddi Haman sér hljóðs. Hann er maður sem í þjónustu vorri hefur sýnt mikla vitsmuni, óbrigðula góðvild og órofa tryggð við oss og gengur oss næst að tign í ríkinu. 4 Tjáði hann oss að meðal allra þjóða jarðarinnar hefði illa innrættur lýður komið sér fyrir. Þeir fylgja lögum sem eru andsnúin öllum þjóðum og virða tilskipanir konungs stöðugt að vettugi. Það spillir þeirri einingu sem vér þráum einlæglega að haldist í ríkinu. 5 Oss er nú orðið ljóst að þessi eina þjóð á í sífelldum útistöðum við alla menn. Hún hefur annarlega siði, fer að eigin lögum, fjandskapast við stjórnarháttu vora og drýgir hin verstu ódæði svo að öryggi ríkisins stafar mikil hætta af. 6 Vér mæltum því svo fyrir: Öllum þeim sem Haman, ráðsherra vor og annar faðir, hefur bent á í bréfi sínu, sem og konum þeirra og börnum, skal fullkomlega, án miskunnar og vægðarlaust gereytt með sverði óvina sinna hinn fjórtánda dag í adar, tólfta mánuði yfirstandandi árs. 7 Þá mun friður og ró ríkja um alla framtíð þegar þetta fólk, sem fyrr og síðar hefur verið fjandsamlegt, hefur vægðarlaust verið sent til heljar á einum og sama degi.“
14 Afrit bréfsins var sett upp í öllum skattlöndunum og öllum þjóðum gert að vera viðbúnar þegar dagurinn rynni. 15 Skjótlega varð þetta einnig lýðum ljóst í Súsa og varð mikill órói í borginni, en konungur og Haman sátu saman að drykkju.