1 Drottinn, almáttugi Guð feðra vorra,
Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs
og réttlátra niðja þeirra.
2 Þú skapaðir himin og jörð
og alla dásemd þeirra.
3 Með boði orðs þíns hlekkjaðir þú hafið,
lokaðir undirdjúpunum og innsiglaðir þau
með óttalegu og undursamlegu nafni þínu.
4 Allt óttast þig
og skelfur frammi fyrir almætti þínu.
5 Enginn afber hátign dýrðar þinnar
og enginn syndari stenst ógn reiði þinnar.
6 En náð þín er ómælanleg
og fyrirheit þín órekjandi.
7 Því að þú ert Drottinn, Hinn æðsti,
samúðarríkur, seinn til reiði
og mildur á miskunn.
Þegar menn líða fyrir syndir sínar
endurmetur þú viðhorf þitt.
Þú, Drottinn, hefur af gnægð mildi þinnar og gæsku
heitið þeim sem brotið hafa gegn þér
að þeir megi iðrast og fyrirgefningu hljóta.
Þú hefur afráðið af mikilli miskunn
að syndarar megi iðrast og hljóta hjálpræði.
8 Vissulega krafðist þú, sem ert Guð réttlátra,
ekki iðrunar af hinum réttlátu,
af Abraham, Ísak og Jakobi
sem syndguðu aldrei gegn þér.
En af mér krefst þú afturhvarfs
því að syndari er ég.
9 Syndir mínar eru fleiri en sandkorn á sjávarströnd.
Brot mín gegn lögmálinu, Drottinn, verða ekki talin,
þau eru óteljandi.
Ég er ekki þess verður að hefja upp augu
og horfa til himins
sakir alls ranglætis míns.
10 Ég er þjakaður af þungum járnfjötrum
svo að ég má eigi höfuð hefja sakir synda minna.
Ekkert léttir þeim af mér
því að ég egndi þig til reiði
er ég gerði það sem illt er í augum þínum.
Ég reisti viðurstyggileg skurðgoð
og fjölgaði þeim stórum.
11 Nú beygi ég kné hjartans
og bið þig að auðsýna mér miskunn þína.
12 Ég hef syndgað, Drottinn, syndgað
og viðurkenni það sem ég hef af mér brotið.
13 Ég ákalla og bið þig:
fyrirgef mér, Drottinn, fyrirgef,
lát mig eigi glatast vegna afbrota minna.
Minnstu ekki synda minna
og ver mér eigi að eilífu reiður.
Dæm mig ekki niður í undirdjúp jarðar
því að þú, Guð, ert Guð þeirra sem iðrast.
14 Þá munt þú sýna á mér alla gæsku þína
er þú bjargar mér af mikilli miskunn
þótt ég sé óverðugur.
15 Ég mun sífellt lofa þig svo lengi sem ég lifi,
allir herskarar himna syngja þér lof,
þín er dýrðin að eilífu. Amen.