Abímelek og Abraham

1 Abraham tók sig upp þaðan og hélt suður til Negeb. Hann bjó milli Kades og Súr og dvaldist í Gerar sem aðkomumaður. 2 En Abraham sagði Söru konu sína vera systur sína. Þá sendi Abímelek, konungur í Gerar, menn eftir Söru. 3 En Guð birtist Abímelek í draumi um nóttina og sagði við hann: „Þú ert dauðans matur vegna konunnar sem þú hefur tekið til þín. Hún á sér eiginmann.“
4 Abímelek hafði ekki komið nálægt henni og mælti: „Drottinn, deyðir þú fólk þótt það sé réttlátt? 5 Hann sagði sjálfur við mig að hún væri systir sín og hún sagði einnig: Hann er bróðir minn. Ég hef gert þetta af einlægu hjarta og með hreinar hendur.“
6 Og Guð sagði við hann í draumnum: „Ég vissi vel að þú gerðir þetta í einlægni hjartans og ég forðaði þér meira að segja frá því að syndga gegn mér. Þess vegna leyfði ég þér ekki að snerta hana. 7 Nú skaltu fá manninum aftur konu sína því að hann er spámaður og mun biðja fyrir þér, að þú haldir lífi. En vita skaltu að skilir þú henni ekki aftur muntu deyja og allt sem þitt er.“
8 Þegar Abímelek fór á fætur um morguninn kallaði hann fyrir sig alla ráðgjafa sína og skýrði þeim gerla frá atburðum næturinnar og urðu þeir mjög óttaslegnir. 9 Þá kallaði Abímelek Abraham fyrir sig og sagði við hann: „Hvað hefurðu gert okkur? Hvað hef ég misgert við þig að þú skyldir leiða svo mikla synd yfir mig og ríki mitt? Þú hefur gert það við mig sem menn gera ekki.“ 10 Og Abímelek sagði enn fremur við Abraham: „Hvað gekk þér til að gera þetta?“
11 Abraham svaraði: „Ég hugsaði aðeins sem svo: Það er enginn guðsótti á þessum stað. Þeir munu drepa mig vegna konu minnar. 12 Þar að auki er hún vissulega systir mín. Hún er dóttir föður míns þótt við eigum ekki sömu móður. Og hún varð kona mín. 13 Og þegar Guð lét mig fara úr föðurhúsum og reika um sagði ég við hana: Þetta er kærleiksverkið sem þú skalt gera við mig: Hvar sem við komum skaltu segja um mig: Hann er bróðir minn.“
14 Þá tók Abímelek sauði, naut, þræla og ambáttir og gaf Abraham. Og hann skilaði honum Söru konu hans. 15 Og Abímelek sagði: „Hér sérðu land mitt fyrir augum þér. Þar sem þér finnst búsældarlegt skaltu setjast að.“
16 Og við Söru sagði hann: „Hér með gef ég bróður þínum þúsund sikla silfurs. Gjöfin mun réttlæta þig í augum allra sem með þér eru. Þú hefur að öllu leyti fengið uppreisn æru.“
17 Og Abraham bað til Guðs fyrir Abímelek og Guð læknaði Abímelek, konu hans og ambáttir og gátu þær fætt 18 en Drottinn hafði lokað sérhverjum móðurkviði í húsi Abímeleks vegna Söru, konu Abrahams.