Lög um þjófnað og eignatjón

1 Sé þjófur staðinn að verki við innbrot og honum er veitt banahögg telst það ekki blóðsekt. 2 En sé sólin komin upp þegar hann gerir þetta telst það blóðsekt. Þjófur skal greiða fullar bætur. Eigi hann ekkert skal selja hann sjálfan í bætur fyrir stuldinn. 3 Finnist hið stolna lifandi í vörslu hans, hvort sem það er naut, asni eða sauður, skal hann bæta með tveimur fyrir eitt.
4 Beiti maður akur eða víngarð og láti fénað sinn ganga lausan svo að hann bítur einnig á landi annars manns, skal hann bæta það með því besta af akri sínum eða víngarði.
5 Þegar eldur kviknar og kemst í þyrnigerði og eyðir kornstakki eða óslegnu korni eða heilum akri, skal sá sem kveikti eldinn bæta.
6 Fái maður öðrum manni fé eða einhverja muni til varðveislu og þeim er síðan stolið úr húsi hans, skal þjófurinn bæta tvöfalt ef hann næst. 7 Finnist þjófurinn ekki skal eigandi hússins leiddur fram fyrir Guð til að sverja að hann hafi ekki ásælst eigur hins.
8 Í hverju svikamáli, hvort sem um er að ræða naut, asna, sauð, klæðnað eða annað sem glatast hefur og eigandinn segir: Það er einmitt þetta, skal mál beggja aðila koma fyrir Guð. Sá sem Guð dæmir sekan skal bæta hinum tvöfalt.
9 Fái maður öðrum manni naut, asna, sauð eða hvaða skepnu sem vera skal til varðveislu og hún deyr, limlestist eða er rekin burt án þess að nokkur sjái, 10 skal eiður, svarinn við Drottin, skera úr um að annar hafi ekki ásælst eign hins. Eigandi skepnunnar skal samþykkja það og hinn ekki greiða bætur. 11 En hafi skepnunni verið stolið frá honum skal hann bæta eigandanum hana að fullu. 12 Hafi hún verið dýrrifin skal hann leggja hana fram sem sönnunargagn en ekki greiða bætur.
13 Fái maður grip að láni hjá öðrum manni og hann limlestist eða deyr án þess að eigandinn sé nærri skal hann bæta hann að fullu. 14 Hafi eigandi hans verið nærri skal hann ekki greiða bætur. Sé hann daglaunamaður skal draga bæturnar af launum hans.
15 Fleki maður mey, sem ekki hefur verið föstnuð manni, og leggst með henni, skal hann greiða brúðarverð [ hennar og taka hana sér fyrir konu. 16 En neiti faðir hennar að gifta honum hana skal hann greiða fjársekt sem samsvarar brúðarverði yngismeyjar.

Ýmis lög

17 Þú skalt ekki þyrma lífi galdranornar. 18 Sérhver sem hefur mök við fénað skal líflátinn. 19 Sá sem færir öðrum guðum en Drottni einum sláturfórn skal vígður banni.
20 Þú skalt hvorki kúga aðkomumann né þrengja að honum því að þið voruð sjálfir aðkomumenn í Egyptalandi.
21 Þið skuluð hvorki beita ekkju né munaðarleysingja hörðu. 22 Beitir þú hana harðræði og hún hrópar til mín á hjálp mun ég bænheyra hana. 23 Reiði mín mun upptendrast og ég mun fella ykkur með sverði, gera konur ykkar að ekkjum og börn ykkar að munaðarleysingjum.
24 Lánir þú peninga fátæklingi af þjóð þeirri sem hjá þér er máttu ekki reynast honum eins og okrari. Þið skuluð ekki krefjast vaxta af honum.
25 Takir þú yfirhöfn náunga þíns að veði skaltu skila henni aftur fyrir sólarlag 26 því að hún er eina skjól hans, kápan sem hann skýlir líkama sínum með. Í hverju á hann annars að sofa? Þegar hann hrópar til mín hlusta ég því að ég er miskunnsamur.
27 Þú skalt ekki bölva Guði og þú skalt ekki formæla höfðingja þjóðar þinnar.
28 Þú skalt hvorki draga undan af gnægð kornuppskeru þinnar né víns þíns. Frumburð sona þinna skaltu gefa mér. 29 Eins skaltu fara með naut þín og sauði. Frumburðurinn skal vera sjö daga hjá móður sinni, á áttunda degi skaltu færa mér hann.
30 Þið skuluð vera mér heilagir og því ekki neyta kjöts sem liggur úti á víðavangi, kjöts af dýrrifinni skepnu. Þið skuluð fleygja því fyrir hunda.