Sverð Drottins

1 Orð Drottins kom til mín:
2 Mannssonur, horfðu í suður og láttu boðskap þinn streyma gegn suðrinu, komdu fram sem spámaður og láttu boðskap þinn streyma gegn skóginum í Suðurlandinu. 3 Segðu við skóg Suðurlandsins: Hlýddu á orð Drottins. Svo segir Drottinn Guð: Ég mun kveikja eld í þér sem mun gleypa sérhvert grænt og skrælnað tré. Hinn logandi eldur er óslökkvandi og sérhvert andlit, frá suðri til norðurs, mun sviðna í honum. 4 Þá munu allir dauðlegir skilja að ég, Drottinn, kveikti þennan eld. Hann slokknar ekki.
5 Þá sagði ég: Drottinn Guð. Þeir segja um mig: „Talar hann ekki sífellt í líkingum?“
6 Þá kom orð Drottins til mín: 7 Mannssonur, snúðu þér að Jerúsalem og láttu boðskap þinn streyma gegn helgidómnum, komdu fram sem spámaður gegn helgidómnum og talaðu gegn landi Ísraels. 8 Segðu við land Ísraels: Svo segir Drottinn: Ég ræðst gegn þér. Ég dreg sverð mitt úr slíðrum og tortími bæði réttlátum og ranglátum. 9 Þar sem ég ætla að tortíma úr landinu bæði réttlátum og ranglátum verður sverð mitt dregið úr slíðrum og því beitt gegn öllum dauðlegum frá suðri til norðurs. 10 Þá munu allir dauðlegir skilja að ég, Drottinn, hef dregið sverð mitt úr slíðrum sínum. Það verður ekki slíðrað aftur.
11 Þú, mannssonur, styn þungan. Þú skalt stynja fyrir augum þeirra, skjálfandi á beinum og af sárri kvöl. 12 Ef þeir spyrja: „Hvers vegna stynur þú?“ skaltu svara: „Vegna fregnar sem mun berast og þegar hún berst mun hvert hjarta bresta, hver hönd missa máttinn, hver maður missa móðinn og sérhvert hné kikna. Fregnin berst og það sem í henni felst mun verða, segir Drottinn Guð.“
13Orð Drottins kom til mín:
14Mannssonur, komdu fram sem spámaður og segðu: Svo segir Drottinn Guð:
Sverð, sverð,
hvesst og fægt,
15til dráps, til dráps var það hvesst,
fægt til að blika sem elding. [
16Það var fengið þeim sem fægði það,
síðan gripið með hendinni.
Sverðið var hvesst og fægt,
búið í hendur vegandanum.
17Mannssonur, æptu og kveinaðu, maður.
Því er beint gegn þjóð minni,
gegn öllum höfðingjum Ísraels.
Þeir eru seldir undir sverðið
ásamt þjóð minni.
Berðu þér á brjóst. [
18Því að þetta var reynt. [
19En þú, mannssonur, talaðu sem spámaður,
sláðu saman höndum.
Sverðið höggvi tvisvar, þrisvar.
Þetta er drápssverð, sverð til víga,
hið mikla sverð sem sækir að úr öllum áttum.
20 Svo að hugrekkið bresti [
og föllnum fjölgi
í öllum borgarhliðum þeirra
hef ég stefnt sverðinu til dráps.
Það er gert til að leiftra,
fægt til víga.
21Sýndu hvassa egg,
höggðu til hægri og vinstri,
höggðu hvert sem eggin beinist.
22 Ég mun einnig slá saman höndum
og svala heift minni.
Ég, Drottinn, hef talað.

Sverð konungsins í Babýlon gegn Jerúsalem

23 Orð Drottins kom til mín:
24 Mannssonur, leggðu tvo vegi sem sverð konungsins í Babýlon skal koma eftir. Báðir vegirnir skulu liggja frá sama landi. Þar sem þeir byrja skaltu koma fyrir vegvísi sem vísar veginn til borgar. 25 Vísaðu veginn sem sverðið á að fara til Rabba, borgar Ammónítanna, og til Júda og hinnar víggirtu borgar Jerúsalem. 26 Því að konungurinn í Babýlon stendur við vegamótin. 27 Hann leitaði goðsvars, hristi örvarnar, spurði skurðgoðin, skoðaði lifrina. Í hægri hönd hans kom hlutur Jerúsalem. Þar mun hann setja upp múrbrjóta, ljúka upp munni og hrópa, láta heróp gjalla, beina múrbrjótum gegn borgarhliðunum, gera umsátursvirki og reisa árásarturna. 28 En borgarbúar álitu goðsvarið uppspuna því að þeir höfðu tryggt þig með eiðum. En konungur mun minna þá á sekt þeirra og taka þá til fanga.
29 Þess vegna segir Drottinn Guð: Þar sem þið minntuð sjálfir á sekt ykkar með augljósum afbrotum ykkar með því að sýna syndir ykkar í öllu sem þið gerðuð, þar sem þið minntuð á þetta, verðið þið teknir til fanga og beittir harðræði. 30 Og þú, vanhelgi og guðlausi þjóðhöfðingi Ísraels, nú er dagur þinn kominn, tími lokauppgjörs. 31 Svo segir Drottinn Guð: Burt með vefjarhöttinn, niður með kórónuna. Ekkert verður eins og það var. Upp með hið lága, niður með hið háa. 32 Að rústum, rústum, rústum mun ég gera þessa borg. Þetta verður ekki fyrr en sá kemur sem hefur það dómsvald sem ég veiti honum.

Sverð Drottins gegn Ammónítum

33 Þú, mannssonur, komdu fram sem spámaður og segðu: Svo segir Drottinn Guð, gegn Ammónítum og háðsyrðum þeirra. Segðu: Sverð, sverð, brugðið til að bana, fægt til að eyða, að glampa sem elding. 34 Þrátt fyrir upplognar sýnir um þig, uppspunnin goðsvör um þig, um sverð reitt að hálsi guðlausra, er dagur þeirra kominn, tími lokauppgjörs. 35 Slíðraðu það aftur. Á staðnum þar sem þú varst skapaður, í upprunalandi þínu, mun ég dæma þig. 36 Ég mun úthella heift minni yfir þig, blása á þig logandi reiði minni og læt þig ganga í greipar hrottum sem hyggja á eyðingu. 37 Eldsmatur skaltu verða, blóð þitt skal fljóta í landi þínu, þín verður aldrei minnst framar því að ég, Drottinn, hef talað.