Gjafir til musterisbyggingarinnar

1 Davíð konungur ávarpaði nú allan söfnuðinn:
„Salómon, sonur minn, sem Guð hefur valið, er enn ungur og óharðnaður. En verkið er mikið því að ekki er byggingin ætluð mönnum heldur Drottni Guði. 2 Ég hef því af öllum mætti dregið að húsi Guðs míns gull í gulláhöldin, silfur í silfuráhöldin, eir í eiráhöldin, járn í járnáhöldin og við í tréáhöldin ásamt sjóamsteinum, steina til að setja í umgjarðir, steinlím, mislita steina og alls konar aðra dýra steina og mikið af alabastri. 3 Af því að ég hef mætur á húsi Guðs míns gef ég hér með einkaeign mína af gulli og silfri til húss Guðs míns, auk alls þess sem ég hef þegar lagt hinu heilaga húsi til: 4 þrjú þúsund talentur af gulli, Ófírgulli, og sjö þúsund talentur af hreinu silfri. Með því á að þekja veggi hússins 5 alls staðar, þar sem þörf er á, gulli og silfri og nota það í alls konar handverk listasmiða. En hver er nú reiðubúinn að færa Drottni gjöf?“
6 Þá sýndu ættarhöfðingjarnir og höfðingjar ættbálka Ísraels og höfðingjar þúsund manna og hundrað manna liða og ráðsmenn hinna konunglegu embætta örlæti sitt. 7 Þeir gáfu fé til að greiða kostnaðinn við vinnuna við hús Guðs: fimm þúsund gulltalentur, tíu þúsund Daríusdali úr gulli, tíu þúsund silfurtalentur, átján þúsund eirtalentur og hundrað þúsund járntalentur. 8 Hver sá sem átti í fórum sínum dýra steina gaf þá í fjársjóð húss Drottins, í vörslu Jehíels Gersoníta. 9 Fólkið gladdist yfir örlæti þeirra því að þeir höfðu fært Drottni gjafirnar fúslega og af heilum hug. Davíð konungur gladdist einnig mjög.

Þakkarbæn Davíðs

10 Þá lofaði Davíð Drottin frammi fyrir öllum söfnuðinum og sagði: „Lofaður sért þú, Drottinn, Guð föður vors, Ísraels, frá eilífð til eilífðar. 11 Þín er tignin, Drottinn, mátturinn, dýrðin, vegsemdin og hátignin því að allt er þitt á himni og jörðu. Drottinn, þitt er konungdæmið og þú ert hafinn yfir allt. 12 Auður og sæmd koma frá þér, þú ríkir yfir öllu. Í hendi þér er máttur og megin, í hendi þér er vald til að efla og styrkja hvern sem vera skal. 13 Og nú, Guð vor, þökkum vér þér. Vér lofum þitt dýrlega nafn. 14 En hver er ég og hver er lýður minn, að vér vorum færir um að gefa slíkar gjafir? Því að allt er frá þér og vér höfum fært þér það sem vér höfum þegið úr hendi þér. 15 Frammi fyrir þér erum vér aðeins aðkomumenn og leiguliðar eins og allir forfeður vorir. Ævidagar vorir eru sem skuggi á jörðinni og engin von er til. 16 Drottinn, Guð vor, allur þessi auður, sem vér höfum dregið saman til þess að reisa þér hús, þínu heilaga nafni, er þeginn úr hendi þér, allt er þitt. 17 Ég veit, Guð minn, að þú rannsakar hjartað og gleðst yfir hreinskilni. Ég hef gefið þetta allt af heilum hug og fúsu geði. Nú hefur það einnig glatt mig að sjá að lýður þinn, sem hér er saman kominn, hefur fúslega gefið þér gjafir. 18 Drottinn, Guð feðra vorra, Abrahams, Ísaks og Ísraels, varðveittu þetta hugarfar ævinlega í hjarta lýðs þíns. Beindu hjörtum þeirra til þín. 19 Gefðu Salómon, syni mínum, einlægt hjarta svo að hann fylgi boðum þínum, fyrirmælum og lögum og geti þannig framkvæmt allt og reist bygginguna sem ég hef undirbúið.“
20 Því næst ávarpaði Davíð allan söfnuðinn: „Lofið Drottin, Guð ykkar.“ Allur söfnuðurinn lofaði þá Drottin, Guð feðra sinna. Þeir hneigðu sig og vörpuðu sér niður frammi fyrir Drottni og konungi.

Salómon smurður til konungs

21 Daginn eftir færðu þeir Drottni sláturfórnir og brennifórnir, þúsund naut, þúsund hrúta og þúsund lömb ásamt þeim dreypifórnum sem við áttu, svo og fjölmargar sláturfórnir fyrir allan Ísrael. 22 Þennan dag átu þeir og drukku frammi fyrir Drottni og voru mjög glaðir. Því næst gerðu þeir Salómon, son Davíðs, öðru sinni að konungi. Þeir smurðu hann til þjóðhöfðingja Drottins og Sadók til æðsta prests. 23 Salómon settist nú í hásæti Drottins í stað Davíðs, föður síns. Hann var auðnumaður og allur Ísrael hlýddi honum. 24 Allir höfðingjarnir, hetjurnar og synir Davíðs konungs sýndu Salómon konungi hollustu. 25 Drottinn gerði Salómon mjög voldugan í augum alls Ísraels. Hann veitti konungdómi hans slíka hátign sem enginn konungur yfir Ísrael hafði notið á undan honum.

Davíð deyr

26 Davíð Ísaíson var konungur yfir öllum Ísrael. 27 Hann ríkti yfir Ísrael fjörutíu ár, sjö ár í Hebron og þrjátíu og þrjú ár í Jerúsalem. 28 Hann dó í hárri elli, saddur lífdaga, auðæfa og virðingar. Salómon, sonur hans, varð konungur eftir hann. 29 Saga Davíðs konungs, bæði um fyrri hluta og síðari hluta ævi hans, er skráð í sögu sjáandans Samúels, í sögu Natans spámanns og í sögu sjáandans Gaðs. 30 Þessar heimildir segja frá allri stjórnartíð hans og afrekum og því sem henti hann og Ísrael og öll konungsríki í öðrum löndum.