Saga Júdaríkisins

Hiskía Júdakonungur

1 Á þriðja stjórnarári Hósea Elasonar Ísraelskonungs varð Hiskía Akasson Júdakonungur. 2 Hann var tuttugu og fimm ára þegar hann varð konungur og ríkti tuttugu og níu ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Abí og var Sakaríadóttir. 3 Hann gerði það sem rétt var í augum Drottins, alveg eins og Davíð, forfaðir hans. 4 Það var hann sem afnam fórnarhæðirnar, braut merkisteinana og hjó niður Asérustólpana. Hann braut einnig eirorminn, sem Móse hafði gert, en allt til þess tíma höfðu Ísraelsmenn fært honum reykelsisfórnir og var hann nefndur Nehústan.[ 5 Hiskía treysti Drottni, Guði Ísraels. Enginn var honum líkur meðal konunga Júda, hvorki fyrr né síðar. 6 Hann var Drottni handgenginn og vék ekki frá honum. Hann hlýddi boðum þeim sem Drottinn hafði lagt fyrir Móse. 7 Þess vegna var Drottinn með honum svo að honum lánaðist allt sem hann tók sér fyrir hendur.
Hann gerði uppreisn gegn Assýríukonungi og var honum ekki lengur undirgefinn. 8 Hann vann land Filistea allt til Gasa og landsvæðið umhverfis hana, jafnt varðturna sem víggirtar borgir.
9 Á fjórða stjórnarári Hiskía, sem var sjöunda stjórnarár Hósea Elasonar Ísraelskonungs, hélt Salmaneser Assýríukonungur gegn Samaríu, settist um hana 10 og tók borgina eftir þrjú ár. Á sjötta stjórnarári Hiskía, sem var níunda stjórnarár Hósea Ísraelskonungs, var Samaría unnin. 11 Assýríukonungur flutti Ísraelsmenn í útlegð til Assýríu og kom þeim fyrir í Hala og við Habor, sem er fljót í Gósan, og í borgum Meda. 12 Þetta gerðist af því að þeir höfðu ekki hlustað á rödd Drottins, Guðs síns, heldur rofið sáttmála hans, allt það sem Móse, þjónn Drottins, hafði boðið þeim. Þeir hlustuðu hvorki á það né breyttu eftir því.

Sanheríb ógnar Júda

13 Á fjórtánda stjórnarári Hiskía konungs réðst Sanheríb Assýríukonungur gegn öllum víggirtum borgum í Júda og tók þær. 14 En Hiskía Júdakonungur sendi þessi boð til Assýríukonungs í Lakís: „Ég hef brotið af mér. Far aftur burt frá mér og ég skal bera það sem þú leggur á mig.“ Assýríukonungur heimtaði þá þrjú hundruð talentur silfurs og þrjátíu talentur gulls af Hiskía Júdakonungi. 15 Hiskía lét síðan af hendi allt það silfur sem fannst í musteri Drottins og fjárhirslum konungshallarinnar. 16 Lét þá Hiskía Júdakonungur höggva gullið af hurðunum á musterissal Drottins og súlunum, sem hann hafði sjálfur látið leggja gulli, og afhenti það Assýríukonungi.
17 Assýríukonungur sendi því næst yfirhershöfðingja sinn, höfuðsmann og marskálk[ með mikið herlið frá Lakís til Jerúsalem á fund Hiskía konungs. Þeir héldu af stað, komu til borgarinnar og tóku sér stöðu við vatnsleiðsluna úr efri tjörninni við veginn til þvottavallarins. 18 Þeir létu kalla á konunginn en Eljakím Hilkíason hirðstjóri kom út til þeirra ásamt Sebna ríkisritara og Jóak Asafssyni konungsfulltrúa.
19 Marskálkurinn sagði við þá: „Skilið þessu til Hiskía: Svo segir stórkonungurinn, konungur Assýríu: Á hverju hefur þú traust? 20 Heldurðu að orðin ein dugi sem ráð og styrkur í hernaði? Á hvern treystirðu úr því að þú hefur gert uppreisn gegn mér? 21 Þú treystir sjálfsagt á þennan brotna reyrstaf, Egyptaland, sem stingst inn í hönd þess sem styður sig við hann og fer gegnum hana. Þannig reynist faraó, konungur Egyptalands, hverjum þeim sem treystir á hann. 22 En ef þið segið við mig: Við treystum Drottni, Guði okkar, þá spyr ég: Voru það ekki fórnarhæðir hans og ölturu sem Hiskía lagði af er hann sagði við íbúa Júda og Jerúsalem: Þið skuluð aðeins falla fram fyrir altarinu í Jerúsalem? 23 Nú skaltu veðja við húsbónda minn, Assýríukonung: Ég skal gefa þér tvö þúsund hesta ef þú getur sett á þá riddara. 24 Hvernig mun þér takast að reka nokkurn landstjóra húsbónda míns á flótta, jafnvel þann aumasta þeirra, úr því að þú treystir á Egyptaland um stríðsvagna og vagnstjóra? 25 Heldur þú að ég hafi farið til þessa staðar gegn vilja Drottins? Nei, það var Drottinn sjálfur sem sagði við mig: Farðu gegn þessu landi og leggðu það í eyði.“
26 Þá svöruðu Eljakím Hilkíason, Sebna og Jóak marskálkinum og sögðu: „Talaðu arameísku við þjóna þína. Við skiljum hana.[ En þú skalt ekki tala hebresku við okkur í áheyrn fólksins sem stendur á borgarmúrnum.“ 27 Þá sagði marskálkurinn: „Heldur þú að húsbóndi minn hafi aðeins sent mig til húsbónda þíns og til þín með þessi skilaboð? Eru þau ekki einmitt til fólksins sem situr þarna á borgarmúrnum og mun ásamt ykkur neyðast til að leggja sér sinn eigin saur til munns og drekka sitt eigið þvag?“ 28 Því næst gekk marskálkurinn fram og hrópaði hátt og snjallt á hebresku: „Heyrið orð stórkonungsins, konungs Assýríu: 29 Svo segir konungurinn: Látið Hiskía ekki blekkja ykkur því að hann er ekki fær um að bjarga ykkur úr hendi minni.[ 30 Og látið Hiskía ekki koma ykkur til að treysta Drottni með því að segja: Drottinn mun áreiðanlega bjarga okkur. Þessi borg skal ekki afhent Assýríukonungi. 31 Hlustið ekki á Hiskía því að konungur Assýríu segir: Semjið frið við mig og gangið mér á hönd. Þá mun sérhver ykkar geta neytt af eigin vínviði og eigin fíkjutré og drukkið vatn úr eigin brunni 32 uns ég kem og flyt ykkur til lands sem líkist ykkar eigin landi. Það er land sem er auðugt að korni og vínberjasafa, brauði og víngörðum, olíuviði og hunangi. Þá munuð þið lifa en ekki deyja. Hlustið ekki á Hiskía þegar hann segir: Drottinn mun bjarga okkur. 33 Hefur nokkur guð annarra þjóða bjargað landi sínu úr greipum Assýríukonungs? 34 Hvar eru guðir borganna Hamat og Arpad? Hvar eru guðir Sefarvaíms, Hena og Íva? Björguðu þeir Samaríu frá mér? 35 Hverjir af guðum annarra landa hafa bjargað löndum sínum úr greipum mínum? Hvernig ætti Drottinn þá að geta bjargað Jerúsalem frá mér?“
36 En fólkið þagði og svaraði honum ekki einu orði því að konungurinn hafði sagt: „Svarið honum ekki.“ 37 Eljakím Hilkíason hirðstjóri gekk þá ásamt Sebna ríkisritara og Jóak Asafssyni, kallara konungs, í sundurrifnum[ klæðum til Hiskía og þeir sögðu honum hvað marskálkurinn hafði sagt.