1Hún er voldug og nær heimsenda á milli
og skipar öllu haganlega.

Salómon fékk ást á spekinni

2Ég fékk ást á henni og leitaði hennar frá æsku.
Ég kostaði kapps um að leiða hana heim sem brúði
og varð hugfanginn af fegurð hennar.
3 Samlíf við Guð veitir ættgöfgi hennar ljóma
og Drottinn alls elskar hana.
4 Hún er innvígð í leynda vitund Guðs
og tekur þátt í verkum hans.
5 Sé auður æskilegt hnoss í lífinu,
hvað er þá dýrmætara en spekin sem kemur öllu til leiðar?
6 Fái hyggindi nokkru áorkað,
hver í heimi tekur þá snilli hennar fram?
7 Ef einhver elskar réttvísi
þá spretta mannkostir af erfiði hennar.
Hún kennir hófsemi og hyggindi,
réttlæti og hugprýði
en ekkert er mönnum gagnlegra í lífinu.
8 Ef einhver girnist mikla þekkingu
þá veit hún það sem liðið er og ræður í hið ókomna.
Hún ber skyn á hið fornkveðna og leysir gátur.
Tákn og undur veit hún fyrir
og endalok tíða og tíma.
9 Ég einsetti mér því að leiða hana heim sem lífsförunaut
því að ég vissi að hún mundi reynast mér ráðholl
og veita mér uppörvun í áhyggjum og sorg.
10 Hún mun afla mér hróss meðal manna
og ungur að árum nýt ég heiðurs hjá öldnum.
11 Ég mun reynast skarpvitur í dómum
og verða dásamaður af höfðingjum.
12 Þegi ég munu menn bíða þess að ég tali og gefa gaum að þegar ég tala.
Haldi ég áfram að tala
hafa þeir hljótt um sig.
13 Sakir hennar mun ég ódauðleik hljóta
og láta niðjum eftir ævarandi orðstír.
14 Lýðum mun ég stjórna og þjóðir munu mér lúta.
15 Grimmir harðstjórar munu skelfast er þeir heyra mín getið
en af alþýðu mun ég mildur þykja en hraustur bardagamaður.
16 Heimkominn nýt ég hvíldar hjá henni
því að engin beiskja er í sambúð við hana
né nein kvöl í samlífi við hana
heldur aðeins yndi og ánægja.
17 Um þetta hugsaði ég með sjálfum mér
og íhugaði í hjarta mínu
að ódauðleiki felst í venslum við spekina
18 og unaðsleg hamingja í vináttu hennar.
Óþrjótandi auður fæst af iðju hennar
og hyggindi af því að eiga sálufélag við hana.
Frægð veitir að gefa sig að orðum hennar.
Þá lagði ég af stað til að hreppa hana.
19 Ég var ungur efnispiltur
og hafði hlotið góða sál,
20 eða öllu heldur: Ég var góður og því öðlaðist ég flekklausan líkama.
21 En ég vissi að ég næði ekki tökum á spekinni nema Guð gæfi mér hana
og það eru hyggindi fyrir sig að vita frá hverjum gjöfin kemur.
Því sneri ég mér til Drottins og ákallaði hann
og mælti af einlægu hjarta: