Bæn Tóbíts

1 Ég varð sárhryggur, stundi, grét og tók að biðja í hugarangri mínu:
2 Réttlátur ert þú, Drottinn,
öll verk þín eru réttlát,
allir vegir þínir miskunn og sannleikur,
þú dæmir heiminn.
3 Minnstu mín nú, Drottinn, og lít í náð til mín.
Refsa mér ekki fyrir syndir mínar og yfirsjónir
né heldur feðra minna.
Þeir syndguðu gegn þér [
4 og breyttu gegn boðum þínum.
Þá ofurseldir þú oss ránum, herleiðingu og dauða
sem allar þjóðir, sem þú dreifðir oss á meðal,
gerðu orðskviði um oss til háðungar.
5 Hinar mörgu refsingar, sem ég sæti,
eru réttlátir dómar fyrir syndir mínar.
Því að vér héldum ekki boðorð þín
og lifðum ekki réttlátlega frammi fyrir þér.
6Gjör nú við mig sem þér þóknast,
bjóð að andi minn verði tekinn frá mér
og ég numinn af yfirborði jarðar
og verði sjálfur mold.
Því að betra er mér að deyja en að lifa
og þurfa að heyra álogin brigslyrði
og vera þrunginn harmi.
Drottinn, bjóð þú að ég leysist úr þessum nauðum,
leyf mér að hverfa til eilífra heimkynna.
Snú ei augliti þínu frá mér, Drottinn.
Því að betra er mér að deyja og losna við að heyra lastmæli
en að horfast í augu við alla þessa kvöl um ævidaga mína.

Vandkvæði Söru

7 Þennan sama dag bar svo við að Sara Ragúelsdóttir í Ekbatana í Medíu var smánuð af einni af þjónustustúlkum föður hennar. 8 En svo var að Sara hafði sjö sinnum gifst en illi andinn Asmódeus deyddi alla menn hennar áður en hún hafði lagst með nokkrum þeirra eins og eiginkonum ber. Þjónustustúlkan sagði við hana: „Það ert þú sjálf sem drepur menn þína. Nú þegar hefur þú gifst sjö mönnum en berð ekki nafn neins þeirra. 9 Hví ertu að berja okkur? Er það af því að menn þínir dóu? Komdu þér til þeirra. Guð forði því að við þurfum nokkru sinni að sjá son þinn eða dóttur.“
10 Sara varð sárhrygg, brast í grát og fór upp á efri hæðina í húsi föður síns til þess að hengja sig. En henni snerist hugur og hún sagði: „Ætli menn muni ekki særa föður minn og segja við hann: Þú áttir aðeins eina dóttur og elskaðir hana heitt en hún var svo vansæl að hún hengdi sig. Þá yrði ég völd að því að aldraður faðir minn dæi af harmi. Nei. Ég geri réttara í því að hengja mig ekki. Heldur skal ég biðja Drottin að hann láti mig deyja svo að ég þurfi ekki að lifa og heyra fleiri lastmæli.“

Bæn Söru

11 Þá þegar teygði hún hendurnar í átt að glugganum og bað:
Lofaður sért þú, miskunnsami Guð,
lofað sé nafn þitt að eilífu.
Lofi þig öll verk þín að eilífu.
12 Ég hef ásjónu mína og augu upp til þín.
13 Bjóð þú að ég leysist af jörðu
svo að ég þurfi ekki að hlýða á fleiri hnjóðsyrði.
14 Þú, Drottinn, veist að ég er óflekkuð af karlmannsvöldum
15 og að hvorki hef ég flekkað nafn mitt né föður míns
hér í landi útlegðarinnar.
Ég er einkabarn föður míns,
hann á engan erfingja nema mig
og ekki heldur neinn ættingja eða nákominn
sem mér ber að gefast.
Ég hef þegar misst sjö menn.
Hví skyldi ég lengur lifa?
En viljir þú, Drottinn, ekki láta mig deyja
hlýð alltént á hnjóðið sem ég sæti.

Guð heyrir bænir Tóbíts og Söru

16 Í sömu andrá voru bænir beggja heyrðar frammi fyrir dýrð Guðs. 17 Var Rafael sendur til að líkna báðum tveim; Tóbít með því að leysa himnurnar frá augum hans, svo að þau mættu aftur líta ljós Guðs, og Söru Ragúelsdóttur með því að gefa hana Tóbíasi Tóbítssyni að eiginkonu og frelsa hana frá illa andanum Asmódeusi. En svo var að Tóbías átti meiri rétt á að fá hana til eignar en allir aðrir sem þess fýsti.
Um leið og Tóbít sneri aftur inn í hús sitt kom Sara Ragúelsdóttir ofan af efri hæðinni.