Siðbót Jósía

1 Konungur gerði út menn og lét safna til sín öllum öldungum Júda og Jerúsalem. 2 Hann gekk síðan upp til musteris Drottins ásamt öllum íbúum í Júda og Jerúsalem, prestum, spámönnum og öllum almenningi, ungum og gömlum, og las í áheyrn þeirra öll ákvæði sáttmálsbókarinnar sem fundist hafði í musteri Drottins. 3 Konungurinn tók sér stöðu við súluna og gerði sáttmála frammi fyrir Drottni um að fylgja Drottni, hlýða boðum hans, fyrirmælum og lagaákvæðum af öllu hjarta og allri sálu og um að halda ákvæði sáttmálans sem voru skráð í þessa bók. Allt fólkið gekkst undir sáttmálann.
4 Þá skipaði konungurinn Hilkía yfirpresti, prestunum, sem gengu honum næstir að tign, og þeim sem gættu hliðanna að fjarlægja úr musteri Drottins öll þau áhöld sem gerð höfðu verið handa Baal, Aséru og öllum himinsins her og brenna þau utan við Jerúsalem í hlíðum Kedrondals. Öskuna lét hann flytja til Betel.
5 Hann rak prestana sem konungar Júda höfðu ráðið og höfðu brennt reykelsi á fórnarhæðunum í borgum Júda og í grennd við Jerúsalem, fært reykelsisfórnir til Baals, sólarinnar og tunglsins, stjörnumerkjanna og alls himinsins hers.
6 Hann lét flytja Asérustólpann úr musteri Drottins og út fyrir Jerúsalem til Kedrondals. Þar lét hann brenna hann og mylja mélinu smærra og dreifa duftinu á grafir almúgans.
7 Hann lét rífa vistarverur þeirra er helgað höfðu sig saurlifnaði[ í musteri Drottins en þar ófu konur klæði handa Aséru.
8 Jósía lét alla presta koma frá borgum Júda og afhelgaði fórnarhæðirnar þar sem prestarnir höfðu fært reykelsisfórnir allt frá Geba til Beerseba.[ Hann lét rífa niður helgidómana við hliðin sem voru á vinstri hönd þeim sem gengu inn um borgarhlið Jósúa, hershöfðingja borgarinnar. 9 En prestar fórnarhæðanna fengu samt ekki að ganga upp að altari Drottins í Jerúsalem heldur aðeins eta ósýrt brauð með bræðrum sínum. 10 Hann afhelgaði einnig Tófet[ í Hinnomssonardal svo að enginn gæti framar látið son sinn eða dóttur ganga gegnum eldinn fyrir Mólok.
11 Hann lét fjarlægja hestana, sem konungar Júda höfðu fengið sólguðinum og voru við innganginn að musteri Drottins, við vistarveru Netans Meleks, hirðmanns í Parvarím, og lét brenna sólvagnana í eldi. 12 Konungurinn lét brjóta niður ölturun, sem konungar Júda höfðu látið gera á þaki loftstofu Akasar, og ölturun sem Manasse hafði látið gera í báðum forgörðum musteris Drottins. Þar lét hann mylja þau og fleygja duftinu í Kedrondalinn.
13 Konungurinn afhelgaði fórnarhæðirnar austan við Jerúsalem, sunnan við fjall eyðingarinnar,[ en þær hafði Salómon konungur látið reisa handa Astarte, hinni andstyggilegu gyðju Sídoninga, og Kamos, hinum viðurstyggilega guði Móabíta, og Milkóm, hinum svívirðilega guði Ammóníta. 14 Hann lét brjóta merkisteinana og höggva niður stólpa Aséru og þakti staðinn, þar sem þeir höfðu verið, með mannabeinum. 15 Jósía lét einnig rífa altarið í Betel, fórnarhæðina sem Jeróbóam Nebatsson hafði látið gera, sá sem kom Ísrael til að syndga. Hann lét brenna fórnarhæðina, mylja steinana mélinu smærra og brenna stólpa Aséru.
16 Þegar Jósía sneri sér við og sá grafirnar, sem voru þar á fjallinu, sendi hann menn og lét sækja beinin úr gröfunum. Síðan brenndi hann þau á altarinu og afhelgaði það samkvæmt orði Drottins sem guðsmaðurinn hafði hrópað þegar hann boðaði þessa atburði. 17 Síðan spurði konungur: „Hvaða legsteinn er þetta sem ég sé þarna?“ Bæjarbúar svöruðu honum: „Þetta er gröf spámannsins sem kom frá Júda og hrópaði þau orð yfir altarinu í Betel sem þú hefur nú látið rætast.“ 18 Þá sagði konungur: „Látið hann hvíla í friði. Enginn skal hreyfa við beinum hans.“ Þeim var þá hlíft ásamt beinum spámannsins sem kom frá Samaríu.
19 Jósía lét einnig fjarlægja öll hús á fórnarhæðunum sem Ísraelskonungar höfðu látið reisa í borgum Samaríu og með því vakið reiði Drottins. Hann fór með þau eins og altarið í Betel. 20 Hann slátraði öllum prestum fórnarhæðanna á ölturunum og brenndi síðan mannabein á þeim. Síðan sneri hann heim til Jerúsalem.
21 Nú skipaði konungurinn öllu fólkinu og sagði: „Haldið Drottni, Guði ykkar, páska eins og skráð er í þessari sáttmálsbók.“ 22 Slík páskahátíð hafði ekki verið haldin síðan dómarar stjórnuðu Ísrael og aldrei á dögum Ísraelskonunga eða Júdakonunga. 23 Það var ekki fyrr en á átjánda stjórnarári Jósía konungs að slík páskahátíð var haldin Drottni í Jerúsalem.
24 Jósía lét einnig tortíma öllum miðlum, spásagnamönnum, húsguðum og skurðgoðum og allri þeirri viðurstyggð sem finna mátti í Júda og Jerúsalem. Þannig fullnægði hann kröfum lögmálsins sem skráðar voru í bókinni sem Hilkía yfirprestur fann í musteri Drottins.
25 Enginn konungur á undan honum hafði eins og hann snúið sér til Drottins af öllu hjarta sínu, allri sálu sinni og öllum mætti sínum eins og lögmál Móse bauð. Og á eftir honum kom enginn honum líkur. 26 Samt lét Drottinn ekki af sinni logandi heift. Hún brann gegn Júda vegna allra þeirra illvirkja Manasse sem vakið höfðu reiði Drottins. 27 Þess vegna sagði Drottinn: „Ég ætla einnig að hrekja Júda frá augliti mínu eins og ég hef hrakið Ísrael. Ég hafna Jerúsalem, þessari borg sem ég hef útvalið, og húsinu sem ég sagði um: Þar skal nafn mitt vera.“

Jósía deyr

28 Það sem ósagt er af sögu Jósía og verkum hans er skráð í annála Júdakonunga.
29 Á hans dögum fór Nekó faraó, Egyptalandskonungur, gegn Assýríukonungi við Efratfljót. Jósía konungur fór gegn honum en Nekó drap hann við Megiddó jafnskjótt og hann sá hann. 30 Þjónar Jósía fluttu lík hans á vagni frá Megiddó til Jerúsalem og lögðu hann í gröf sína. Þá sótti fólkið í landinu Jóahas Jósíason og smurði hann til konungs eftir föður sinn.

Jóahas Júdakonungur

31 Jóahas var tuttugu og þriggja ára þegar hann varð konungur og hann ríkti þrjá mánuði í Jerúsalem. Móðir hans hét Hamútal Jeremíadóttir frá Líbna. 32 Hann gerði það sem illt var í augum Drottins eins og forfeður hans höfðu gert.
33 Nekó faraó lét setja hann í fangelsi í Ribla í Hamathéraði svo að hann gæti ekki lengur ríkt í Jerúsalem. Hann lagði einnig nefskatt á landið, hundrað talentur silfurs og eina talentu gulls. 34 Því næst gerði Nekó faraó Eljakím Jósíason að konungi eftir Jósía, föður sinn, og breytti nafni hans í Jójakím. Faraó tók Jóahas með sér til Egyptalands og þar dó hann.

Jójakím Júdakonungur

35 Jójakím greiddi faraó silfrið og gullið en hann varð að leggja skatt á landið til þess að geta greitt faraó það sem hann krafðist. Hann lét innheimta silfrið og gullið af fólkinu í landinu, í samræmi við það sem lagt hafði verið á hvern um sig, og greiddi það síðan Nekó faraó.
36 Jójakím var tuttugu og fimm ára þegar hann varð konungur og ríkti í Jerúsalem ellefu ár. Móðir hans hét Sebúdda Pedajadóttir frá Rúma. 37 Hann gerði það sem illt var í augum Drottins eins og forfeður hans.