XXIII.

Og kóngurinn sendi út og allir öldungar af Júda og Jerúsalem komu til hans. Og kóngurinn gekk upp í hús Drottins og allir menn af Júda og allir innbyggjarar í Jerúsalem með honum, kennimennirnir og spámennirnir og allt fólkið, bæði smáir og stórir. Og þar voru lesin fyrir þeirra eyrum öll orð sáttmálsbókarinnar sem fundin var í húsi Drottins. og kóngurinn gekk upp á eina háva tröppu og gjörði eitt sáttmál fyrir Drottni að þeir skyldu ganga eftir Drottni og halda hans boðorð, hans vitnisburði og réttindi af öllu hjarta og af allri önd og að uppreisa þessi sáttmálans orð sem skrifuð stóðu í þessari bók. [ Og allt fólkið gekk undir þennan sáttmála.

Og kóngurinn bauð Hilkía æðsta kennimanni og þeim öðrum prestum annarrar skipanar og dyravörslumönnum þeim sem stóðu fyrir portdyrum musterisins að þeir skyldu taka af Guðs musteri öll þau ker sem að gjörð voru til Baals, blótskóganna og so til alls himinsins hers. [ Og hann brenndi það allt saman upp fyri utan Jerúsalem í dalnum Kedron. En askan af því var borin til Betel. Hann tók og í burt alla þá [ Camarím sem Júdakóngar höfðu stiftað að brenna skyldi reykelsi á hæðum, í borgum Júda og í kringum Jerúsalem og þá sem brenndu reykelsi fyrir Baal, sólu og tungli, plánetum og öllum himinsins her. Og hann lét færa þann blótskóg af Drottins húsi, út af Jerúsalem í læk Kedron og uppbrenndi hann þar og gjörði að ösku en kastaði öskunni í almennings grafir. Og hann braut ofan þau hóruhús sem stóðu upp hjá húsi Drottins í hverjum að konurnar gjörðu tjöld til þeirra afguðalunda.

Og hann lét koma alla kennimenn af Júdastöðum og saurgaði þær hæðir þar prestarnir brenndu reykelsi á, frá Geba og allt til Berseba. Og hann niðurbraut þær hæðir sem voru í borgarhliðunum sem að voru í portdyrum Josue staðs fóvitans sem voru til vinstri handar þá gengið var í staðarins port. Þó höfðu ekki enn þeir hæðaprestar offrað yfir Drottins altari í Jerúsalem en þeir átu aðeins ósýrð brauð á meðal sinna bræðra.

Hann saurgaði og Tófet í Hinnomsonadal að enginn léti sinn son eða sína dóttir fara í gegnum eldinn fyrir Mólok. [

Hann tók og þá hesta í burt sem Júdakóngar höfðu sett sólunni í Drottins húss inngangi hjá Netan Melek herbergjasveini sem var í Parvarím; hann uppbrenndi sólarinnar vagna með eldi. Og kóngurinn niðurbraut það altari sem stóð upp á Akas sal sem Júdakóngur hafði gjört og þau altari sem Manasses hafði gjört í þeim tveimur Drottins húss görðum og hann gekk þar frá og kastaði þeirra ausku í lækinn Kedron.

Kóngurinn saurgaði og þær hæðir sem voru utan fyrir Jerúsalem til hægri handar hjá Mashítbjargi og Salómon Ísraelskóngur hafði byggt Astarót, svívirðingu þeirra af Sídon og Kamos, svívirðingu Móab, og Milkóm, svívirðingu sona Amón. Og hann sundursló líkneskin og eyðilagði [ lundana og fyllti þeirra staði með mannabein. [

Svo og það altari í Betel og það hof sem Jeróbóam son Nebat gjörði sem kom Ísrael til að syndga. Það sama altari braut hann niður og þær hæðir og uppbrenndi það hof allt saman að ösku. Hann uppbrenndi og alla blómgaða lunda.

Og Jósías sneri sér við og sá þær dauðra manna grafir sem voru á fjallinu. Þá sendi hann þangað og lét taka beinin af gröfunum og brenndi þau yfir altarinu og saurgaði það eftir Drottins orði svo sem guðsmaður hafði sagt sá það fyrir sagði. [

Og hann sagði: „Hvað er það fyrir legstein sem eg sé?“ Og fólkið í staðnum sagði til hans: „Þetta er þess guðsmanns gröf sem kom að Júda og þetta sagði fyrir það sem þú hefur gjört þessu altari í Betel.“ Og hann sagði: „Látið hann liggja, hræri enginn við hans bein.“ So urðu hans bein kyr með spámannsins beinum sem kom af Samaria.

Hann tók og öll hof og í burt hæðir í borgum Samarie sem að Ísraelskóngar höfðu gjört til styggðar og breytti við þau í allan máta sem hann gjörði í Betel. Og hann fórnfærði alla þá hofpresta sem þar voru yfir altarinu og brenndi so mannabein þar upp á og kom til Jerúsalem aftur.

Og kóngurinn bauð fólkinu og sagði: [ „Haldið nú páska Drottni yðrum Guði svo sem það er skrifað í þessari sáttmálsbók.“ Og þar voru öngvir svoddan páskar haldnir sem þessir frá dögum dómaranna sem að dæmt höfðu Ísrael og um alla daga Ísraels- og Júdakónga. En á því nítjánda ári Jósía kóngs voru þessir páskar haldnir fyrir Drottni í Jerúsalem.

Og Jósía afmáði alla fítonsmenn og þá eð fóru með spáfarar, öll bílæti og öll skúrgoð og allar svívirðingar sem sáust í Júdalandi og Jerúsalem til þess að hann mætti upprétta lögmálsins orð sem að skrifuð stóðu í bókinni hverja Hilkía kennimaður fann í Drottins húsi. [ Þar var enginn kóngur fyrir hann sem hans líki væri hver að svo út af öllu hjarta og öllu hugskoti og af öllum mætti sneri sér svo til Drottins eftir öllu Moyses lögmáli og ei kom nokkur eftir hann sem hans líki væri.

Þó sneri Drottinn sér ekki frá sinni mikilli grimmdarreiði sem hann var styggður með yfir Júda fyrir allt það ið vonda með hverju Manasses hafði uppvakið hann. [ Og Drottinn sagði: „Eg vil og burttaka Júda frá minni augsjón svo sem eg burtkastaði Ísrael. Eg vil og burtkasta þeim stað hvern eg útvaldi sem er Jerúsalem og því húsi um hvert eg sagði: Mitt nafn skal þar vera.“ Hvað meira er að segja um Jósía og allt það hann gjörði, sjá, það er skrifað í Júdakónga kroníku.

Á hans dögum fór faraó Nekó kóngur af Egyptalandi upp í móti kónginum af Assyria til þess vats Euphrates. [ En kóngur Jósías dró í móti honum og andaðist í Megiddó eftir það hann hafði séð hann. Og hans þénarar færðu hann dauðan frá Megiddó og fluttu hann til Jerúsalem og jörðuðu hann í sinni gröf. En landsins fólk tók Jóakas son Jósía og smurðu hann og settu hann til kóngs í síns föðurs stað.

Jóakas hafði þrjú ár um tvítugt þá hann varð kóngur og ríkti þrjá mánuði í Jerúsalem. [ Hans móðir hét Hamútal, dóttir Jeremie af Líbna. Og hann gjörði það sem Drottni illa líkaði svo sem hans forfeður höfðu gjört. En faraó Nekó tók hann til fanga í Riblat í landi Hemas svo hann skyldi ekki ríkja í Jerúsalem og hann lagði skattgjald upp á landið, hundrað centener silfurs og eitt centener gulls.

Og faraó Nekó setti Eljakím son Josie til kóngs í síns föðurs stað Jósía og sneri hans nafni og lét hann heita Jójakím. En hann tók Jóakas og færði hann í Egyptaland. Þar andaðist hann. Og Jójakím gaf faraó það silfur og gull. Þó lagði hann fégjald á landið so hann mætti útgefa sama silfur eftir pharaonis bífalningu. Hann lagði þetta fjárgjald silfurs og gulls á hvern mann í landinu eftir sínum mætti so að hann mætti það gefa faraó Nekó.

Jójakím hafði fimm ár og tuttugu þá hann varð kóngur og hann ríkti ellefu ár í Jerúsalem. [ Hans móðir hét Sebúda, dóttir Pedaja af Rúma. Og hann gjörði það sem Drottni illa líkaði svo sem hans forfeður gjörðu.