Varnarræða Páls fyrir Agrippu

1 En Agrippa sagði við Pál: „Nú er þér leyft að tala þínu máli.“ Páll rétti þá út höndina og bar fram vörn sína:
2 „Lánsamur þykist ég, Agrippa konungur, að eiga í dag í þinni áheyrn að verja mig gegn öllu því sem Gyðingar saka mig um, 3 því heldur sem þú þekkir alla siðu Gyðinga og ágreiningsmál. Því bið ég þig að hlýða þolinmóður á mig. 4 Allir Gyðingar þekkja líf mitt frá upphafi, hvernig ég hef lifað með þjóð minni, fyrst í æsku og síðan í Jerúsalem. 5 Það vita þeir um mig, vilji þeir unna mér sannmælis, að ég var farísei frá fyrstu tíð, fylgdi strangasta flokki trúarbragða okkar. 6 Og hér stend ég nú lögsóttur af því að ég trúi því sem Guð hét forfeðrum vorum 7 og vorar tólf kynkvíslir vona að öðlast með því að dýrka Guð án afláts nótt sem dag. Fyrir þessa von er ég nú ákærður, konungur, og það af Gyðingum. 8 Hvers vegna teljið þið það ótrúlegt að Guð veki upp dauða?
9 Sjálfur taldi ég mér skylt að vinna af öllu megni gegn nafni Jesú frá Nasaret. 10 Það gerði ég og í Jerúsalem, hneppti marga hinna heilögu í fangelsi með valdi frá æðstu prestunum og galt því jákvæði að þeir væru teknir af lífi. 11 Og í öllum samkundunum reyndi ég þrásinnis með pyndingum að neyða þá til að afneita trú sinni. Svo freklega æddi ég gegn þeim að ég fór til borga erlendis að ofsækja þá.
12 Þá er ég var á leið til Damaskus slíkra erinda með vald og umboð frá æðstu prestunum 13 sá ég, konungur, á veginum um miðjan dag ljós af himni sólu bjartara leiftra um mig og þá sem mér voru samferða. 14 Við féllum allir til jarðar og ég heyrði rödd er sagði við mig á hebresku: Sál, Sál, hví ofsækir þú mig? Erfitt verður þér að spyrna móti broddunum. 15 En ég sagði: Hver ert þú, herra? Og Drottinn sagði: Ég er Jesús sem þú ofsækir. 16 Rís nú upp og statt á fætur. Ég birtist þér til þess að þú þjónir mér og segir frá því að þú hefur séð mig bæði nú og síðar er ég mun birtast þér. 17 Ég mun senda þig til Gyðinga og heiðingja og vernda þig fyrir þeim. 18 Þú átt að opna augu þeirra og snúa þeim frá myrkri til ljóss, frá valdi Satans til Guðs, til þess að þeir trúi á mig og öðlist fyrirgefningu syndanna og arf með þeim sem helgaðir eru.
19 Fyrir því gerðist ég, Agrippa konungur, eigi óhlýðinn hinni himnesku vitrun 20 heldur boðaði ég fyrst þeim í Damaskus og í Jerúsalem, síðan um alla Júdeubyggð og heiðingjunum að taka sinnaskiptum og snúa sér til Guðs og sýna það í verki. 21 Sakir þessa gripu Gyðingar mig í helgidóminum og reyndu að ráða mér bana. 22 En Guð hefur hjálpað mér og því stend ég allt til þessa dags og vitna bæði fyrir háum og lágum. Mæli ég ekki annað en það sem bæði spámennirnir og Móse hafa sagt að verða mundi, 23 að Kristur ætti að líða og fyrstur rísa upp frá dauðum og boða bæði Gyðingum og heiðingjunum ljósið.“

Páll skírskotar til Agrippu

24 Þegar Páll var hér kominn í vörn sinni segir Festus hárri raustu: „Óður ert þú, Páll. Þitt mikla bókvit gerir þig óðan.“
25 Páll svaraði: „Ekki er ég óður, göfugi Festus, heldur mæli ég sannleiks orð af fullu viti. 26 Konungur kann skil á þessu og við hann tala ég af einurð. Eigi ætla ég að honum hafi dulist neitt af þessu enda hefur það ekki gerst í neinum afkima. 27 Trúir þú, Agrippa konungur, spámönnunum? Ég veit að þú gerir það.“
28 Þá sagði Agrippa við Pál: „Með litlu hyggur þú að geta gert mig kristinn.“ 29 En Páll sagði: „Þess bið ég Guð, hvort sem lengur dregst eða skemur, að ekki einungis þú, heldur og allir, sem til mín heyra í dag, verði slíkir sem ég er að frátöldum fjötrum mínum.“
30 Þá stóð konungur upp og landstjórinn, svo og Berníke og þeir er þar sátu með þeim. 31 Þegar þau voru farin sögðu þau sín á milli: „Þessi maður fremur ekkert sem varðar dauða eða fangelsi.“ 32 En Agrippa sagði við Festus: „Þennan mann hefði mátt láta lausan ef hann hefði ekki skotið máli sínu til keisarans.“