Bæn Júdítar

1 Júdít féll fram á ásjónu sína, jós ösku yfir höfuð sitt og lagði af sér þau klæði sem huldu hærusekkinn. Einmitt á sömu stundu og reykelsisfórnir kvöldsins voru færðar í musteri Guðs í Jerúsalem hrópaði Júdít háum rómi til Drottins og sagði:
2Drottinn, Guð Símeons föður míns.
Honum gafst þú sverð í hönd
svo að hann gæti refsað útlendingunum
sem spjölluðu meyna,
beruðu blygðun hennar og saurguðu
og svívirtu skaut hennar.
Þú hafðir boðið að svo mætti aldrei verða.
Samt gerðu þeir það.
3 Þess vegna ofurseldir þú höfðingja þeirra dauða
og rekkjuna, sem blygðaðist sín fyrir svik þeirra,
vættir þú blóði þeirra.
Þú deyddir þræla og drottna
og þjóðhöfðingja í hásætum sínum.
4 Þú framseldir eiginkonur þeirra til herfangs
og dætur þeirra til herleiðingar.
Öllu sem þeir áttu
skiptu hjartfólgin börn þín með sér.
Þau voru full vandlætingar þinnar,
höfðu andstyggð á flekkun blóðs síns
og ákölluðu þig um hjálp.
Ó, Guð, Guð minn. Bænheyr mig einnig, ekkjuna.
5 Þú hefur því til leiðar komið
sem varð fyrri þessu
sem og þessu og því sem síðar verður.
Það sem er og verður hefur þú úthugsað,
það sem þú hefur í hyggju, það verður.
6 Því að sérhvað það sem þú hefur í ráði,
það stígur fram og segir: „Hér erum vér.“
Allir vegir þínir eru undirbúnir
og ákvörðun þín vel grunduð.
7 Assýríumenn hafa dregið saman mikinn her.
Þeir miklast af hestum sínum og riddurum,
stæra sig af öflugu fótgönguliði,
reiða sig á skjöld og spjót, boga og slöngu
en vita ekki að þú ert Drottinn
sem bindur enda á styrjaldir.
8 Drottinn er nafn þitt.
Ljóst þú afl þeirra í reiði þinni,
brjót þú mátt þeirra með krafti þínum.
Þeir hyggjast vanhelga helgidóm þinn,
svívirða bústaðinn, sem dýrlegt nafn þitt dvelst í,
höggva horn altarisins niður með sverði.
9 Lít á ofurdramb þeirra,
aus reiði þinni yfir höfuð þeirra.
Gef þú hendi minni, hendi ekkju,
mátt til að framkvæma það sem ég hef í ráði.
10 Lát tályrði mín fella þræl og höfðingja,
einnig húsbónda og þjón hans.
Lát konuhönd eyða hroka þeirra.
11 Máttur þinn byggir ei á mannafla
né vald þitt á þeim sem sterkir eru
heldur ert þú Guð auðmjúkra,
hjálpari kúgaðra,
verndari veikra,
vörður vanmegna,
frelsari vonarvana.
12 Já, Guð föður míns,
Guð arfleifðar Ísraels,
Drottinn himins og jarðar,
þú sem skapaðir vötnin
og ert konungur alls sem þú hefur skapað.
Heyr þú bæn mína.
13 Lát tælandi orð mín særa þá og nísta
sem bruggað hafa grimmdarráð gegn sáttmála þínum,
helgidómi þínum og Síonshæð
og húsi því sem synir þínir hafa fengið til eignar.
14 Lát alla þjóð þína og allar ættkvíslir hennar sannreyna
að þú ert Guð alls máttar og kraftar
og að enginn nema þú einn ert verndari Ísraelsþjóðar.