Deilur Óníasar og Símonar

1 Á þeim tímum ríkti friður í hinni heilögu borg og lögin voru dyggilega haldin þar sem Ónías æðsti prestur var maður guðrækinn og hafði andstyggð á guðleysi. 2 Það bar við að sjálfir konungarnir heiðruðu staðinn og prýddu musterið með dýrmætum gjöfum. 3 Jafnvel Selevkus Asíukonungur bar sjálfur allan kostnað við fórnarþjónustuna.
4 En Símon nokkur af ætt Bilga, sem skipaður hafði verið ráðsmaður musterisins, varð ósáttur við æðsta prestinn út af markaðsmálum í borginni. 5 Þegar hann gat ekki komið sínu fram fyrir Óníasi sneri hann sér til Appollóníusar Þrasaissonar, sem þá var landstjóri í Norður-Sýrlandi og Fönikíu. 6 Hann upplýsti hann um að fjárhirslan í Jerúsalem hefði ólýsanlegan auð að geyma, óteljandi peninga, langt fram yfir kostnað við fórnirnar, og mundi þess kostur að það félli allt til konungs.

Helíódórus sendur til Jerúsalem

7 Þegar svo Appollóníus hitti konunginn skýrði hann honum frá auðæfum þeim sem lýst hafði verið fyrir honum. Valdi konungur Helíódórus ráðsherra og fól honum að fá umrædda peninga afhenta.
8 Helíódórus hélt þegar af stað og lét í veðri vaka að hann ætlaði að vitja borganna í Norður-Sýrlandi og Fönikíu, en fór í raun til að reka erindi konungs. 9 Er hann svo var kominn til Jerúsalem og hafði verið vel tekið af æðsta prestinum og borgarbúum, greindi hann frá þeirri vísbendingu sem hann hafði fengið, gerði uppskátt erindi sitt og spurðist nánar fyrir um hvort upplýsingarnar væru réttar.
10 Æðsti presturinn útskýrði fyrir honum að þetta væri fé sem varðveitt væri fyrir ekkjur og munaðarleysingja 11 en sumt af fénu ætti Hýrkanus Tóbíasson, maður í miklum metum. Væri ekki fótur fyrir lygum hins illræmda Símonar. Að öllu töldu næmi upphæðin fjögur hundruð talentum silfurs og tvö hundruð talentum gulls 12 og algjör óhæfa væri að ganga á hlut þeirra sem treyst hefðu helgi staðarins og óskoraðri friðhelgi musterisins sem allur heimur virti.

Helíódórus hyggst ryðjast inn í musterið

13 Helíódórus bar fyrir sig fyrirmæli konungs og stóð fast á því að gera allt féð upptækt fyrir konung. 14 Hann tiltók síðan dag og bjóst til að halda í musterið til að kanna sjóðinn.
Mikil angist ríkti í allri borginni. 15 Prestarnir vörpuðu sér niður fyrir framan altarið í skrúða sínum, hrópuðu til himins og ákölluðu þann sem gefið hafði lögin um geymslufé að varðveita það óskert sem hér var falið til geymslu. 16 Hver sem leit ásjónu æðsta prestsins hlaut að komast við. Svipur hans og litarháttur gaf sálarstríð hans til kynna. 17 Hann var gagntekinn angist og skalf allur og engum duldist hve mjög þetta gekk honum til hjarta. 18 Hópum saman flykktist fólk úr húsum sínum til að safnast til bænagjörðar sakir þeirrar miklu smánar sem vofði yfir musterinu. 19 Fjölmargar konur fóru um strætin búnar hærusekkjum sem þær gyrtu undir brjóstum og meyjar, sem ella fóru ekki úr húsi, hlupu sumar út í hliðin, aðrar út á múrana en sumar teygðu sig út um gluggana. 20 Allar hófu þær hendur til himins í bæn. 21 Það var átakanleg sjón að sjá allt fólkið fallið fram hvað innan um annað og angist og örvæntingu æðsta prestsins.

Drottinn ver musteri sitt

22 Meðan fólkið ákallaði almáttugan Guð um að varðveita geymsluféð óskert og óhult handa þeim sem falið höfðu honum það til varðveislu 23 tók Helíódórus að framkvæma ætlunarverk sitt.
24 En um leið og hann kom í fjárhirsluna með varðmönnum sínum sendi Drottinn allra anda og mátta volduga opinberun svo að allir sem dirfst höfðu að koma þangað með Helíódórusi voru lostnir af mætti Guðs og stóðu lémagna og hjálparvana. 25 Þeim birtist hestur, búinn fegurstu tygjum, sem ógnvekjandi riddari sat. Hann ruddist fram mót Helíódórusi og réðst að honum með framhófunum. Sá sem hestinn sat var búinn hertygjum af gulli.
26 Auk þess birtust Helíódórusi tveir ungir menn, afburða sterkir og fágæta fríðir og fagurbúnir. Þeir gengu hvor sínum megin að honum og lömdu hann linnulaust. 27 Hann féll jafnskjótt til jarðar og var umluktur svartasta myrkri. Þeir sem hjá stóðu gripu hann og lögðu á börur 28 og báru út með öllu ósjálfbjarga þann mann sem litlu fyrr hafði gengið inn í fjárhirsluna með vopnað lið og lífverði. Svo berlega hafði hann fengið að kenna á mætti Guðs.

Ónías biður Helíódórusi bata

29 Þar lá svo Helíódórus felldur af máttarverki Guðs og var mállaus og örvona um hjálp. 30 En Gyðingarnir lofuðu Drottin sem gert hafði musteri sitt dýrlegt. Og fögnuður og glaðværð fyllti musterið sakir þess að almáttugur Drottinn hafði birst, en skömmu áður hafði ríkt þar ógn og skelfing.
31 En brátt báðu nokkrir af fylgdarliði Helíódórusar Ónías um að ákalla Hinn hæsta og bjarga lífi vesalingsins sem var í andarslitrunum. 32 Þar sem æðsti presturinn var ekki ugglaus um að konungurinn kynni að álykta að Gyðingar hefðu gert Helíódórusi eitthvað til miska bar hann fram fórn til bjargar manninum. 33 Meðan æðsti presturinn var að bera fram friðþægingarfórnina birtust Helíódórusi sömu ungu mennirnir aftur. Voru þeir búnir sömu klæðum og fyrr. Þeir gengu til hans og mæltu: „Í mikilli þakkarskuld stendur þú við Ónías æðsta prest því að hans vegna hefur Drottinn leyft þér að halda lífi. 34 Svipuhögg af himni hafa dunið á þér. Nú skalt þú kunngjöra öllum mikinn mátt Guðs.“ Að svo mæltu hurfu þeir.

Helíódórus lofar Guð

35 Helíódórus færði Drottni fórn og gerði honum mikil heit fyrir að hafa unnt sér að halda lífi. Síðan kvaddi hann Ónías og hélt með lið sitt aftur til konungs. 36 Vitnaði hann fyrir öllum um þau miklu máttarverk Guðs sem hann hafði séð með eigin augum.
37 Þegar konungur innti Helíódórus eftir því hver mundi til þess fallinn að vera sendur að nýju til Jerúsalem mælti hann: 38 „Ef þú átt óvin eða einhver situr á svikráðum við ríkisstjórn þína þá skalt þú senda hann þangað. Þá færð þú hann aftur kaghýddan, ef hann þá heldur lífi, því að svo sannarlega hvílir guðdómlegur kraftur yfir þeim stað. 39 Sjálfur hann sem á himni situr er vörður og verndari þessa staðar og hann lemur þá til bana sem þangað koma með illum ásetningi.“
40 Svona bar það nú til er musterisfénu var bjargað frá Helíódórusi.