Átök við Filistea

1 Sál var … ára þegar hann varð konungur og hann ríkti yfir Ísrael …[ 2 Sál valdi sér þrjú þúsund Ísraelsmenn. Voru tvö þúsund með Sál í Mikmas og í fjalllendinu við Betel en þúsund voru með Jónatan í Gíbeu í Benjamín. Alla aðra sendi hann frá sér til tjalda sinna.
3 Jónatan drap landstjóra Filistea, sem hafði aðsetur í Geba, og fréttu Filistear það en Sál lét þeyta hafurshorn um allt landið og tilkynna: „Hebrear skulu heyra þetta.“ 4 Þannig barst öllum Ísrael fréttin: „Sál hefur drepið landstjóra Filistea og þess vegna leggja Filistear hatur á Ísraelsmenn.“ Þá var herinn kallaður saman til fylgdar við Sál í Gilgal. 5 Samtímis söfnuðust Filistear saman til að berjast við Ísrael. Þeir höfðu þrjú þúsund stríðsvagna, sex þúsund vagnliða og fjölmennan her sem var sem sandur á sjávarströnd. Þeir héldu nú af stað og settu búðir við Mikmas, austan við Betaven. 6 Þegar Ísraelsmenn sáu að þeir voru í hættu, því að þrengt var að hernum, földu þeir sig í gjótum, hellum, klettaskorum, holum og brunnum. 7 En sumir fóru yfir Jórdan í land Gaðs og Gíleaðs.

Deila Samúels og Sáls

Sál var um kyrrt í Gilgal og allur herinn sem fylgdi honum skalf af ótta. 8 Hann beið þá sjö daga sem Samúel hafði tiltekið. En Samúel kom ekki til Gilgal svo að fólkið tók að yfirgefa Sál og tvístrast.
9 Þá sagði Sál: „Komið með brennifórnina og heillafórnina.“ Síðan færði hann brennifórn. 10 En einmitt þegar hann hafði lokið við að færa brennifórnina birtist Samúel. Sál gekk þá á móti honum til þess að heilsa honum. 11 Þá spurði Samúel: „Hvað hefur þú gert?“ Sál svaraði: „Þegar ég sá að fólkið var tekið að tvístrast frá mér og þú komst ekki á tilteknum tíma og Filistear höfðu safnast saman við Mikmas 12 hugsaði ég með mér: Nú halda Filistear gegn mér í Gilgal án þess að ég hafi getað mildað Drottin. Þess vegna vogaði ég mér að færa brennifórnina sjálfur.“
13 Þá sagði Samúel: „Þú hefur hegðað þér heimskulega. Hefðir þú fylgt þeim fyrirmælum sem Drottinn, Guð þinn, gaf þér hefði Drottinn fest konungdóm þinn yfir Ísrael í sessi svo að hann hefði staðið um aldur og ævi. 14 En nú skal konungdómur þinn ekki standa. Drottinn hefur leitað að manni sér að skapi og ætlað honum að vera höfðingi yfir þjóð sinni því að þú hefur ekki farið eftir því sem hann hefur boðið þér.“ 15 Samúel hélt því næst af stað og fór frá Gilgal upp til Gíbeu í Benjamín. En Sál kannaði liðið, sem enn var hjá honum, og var það hér um bil sex hundruð manns.
16 Sál og Jónatan, sonur hans, og liðið, sem var með þeim, héldu kyrru fyrir í Geba í Benjamín en Filistear höfðu sett búðir sínar við Mikmas. 17 Þá héldu ránssveitir út úr herbúðum Filistea í þremur fylkingum. Ein fylkingin hélt í áttina til Ofra í Sjúallandi, 18 önnur fylking fór í áttina til Bet Hóron og sú þriðja í átt til hæðarinnar þar sem sjá má eyðimörkina handan við Sebóímdalinn.
19 Engan járnsmið var þá að finna í Ísrael því að Filistear hugsuðu með sér: „Ef svo væri mundu Hebrearnir smíða sverð og spjót.“ 20 Urðu Ísraelsmenn því að fara til Filistea til þess að láta smíða plógjárn, haka, öxi eða sigð. 21 Verðið var eitt pim fyrir plógjárn, haka, þrífork og öxi og einnig fyrir að setja odd á broddstaf.
22 Því var það að daginn sem kom til bardaga hafði enginn í liði Sáls eða Jónatans sverð eða spjót í hendi. Aðeins Sál og Jónatan, sonur hans, höfðu slík vopn.
23 Framvarðarsveit Filistea sótti fram í skarðið við Mikmas.