Níðingsverk í Gíbeu

1 Um þær mundir bar svo til meðan enn var enginn konungur í Ísrael að Levíti nokkur bjó inni við fjarlægustu Efraímsfjöll. Tók hann sér hjákonu frá Betlehem í Júda. 2 Þessi hjákona hans var honum ótrú og fór frá honum til húss föður síns í Betlehem í Júda og var þar í fjóra mánuði. 3 Maður hennar tók sig upp, fór á eftir henni til þess að tala um fyrir henni og sækja hana. Hafði hann með sér svein sinn og tvo asna. Hún leiddi hann þá inn í hús föður síns og faðir stúlkunnar sá hann og gladdist yfir komu hans. 4 Tengdafaðir hans, faðir stúlkunnar, hélt honum þar svo að hann dvaldist hjá honum í þrjá daga. Þeir átu þar, drukku og gistu. 5 Fjórða daginn risu þeir árla og bjóst hann nú til ferðar. Þá sagði faðir stúlkunnar við tengdason sinn: „Hresstu þig fyrst á matarbita og síðan megið þið fara.“ 6 Þá settust þeir niður og átu saman og drukku. Faðir stúlkunnar sagði við manninn: „Gerðu svo vel að vera í nótt og láttu liggja vel á þér.“ 7 Maðurinn bjóst þó til brottfarar. En tengdafaðir hans lagði svo að honum að hann settist aftur og var þar um nóttina. 8 Fimmta daginn reis hann upp árla morguns og ætlaði að halda af stað. Þá sagði faðir stúlkunnar: „Fáðu þér fyrst hressingu og bíðið þið þangað til degi hallar.“ Þeir snæddu saman. 9 Þegar maðurinn bjóst til að fara ásamt hjákonu sinni og sveininum sagði tengdafaðir hans, faðir stúlkunnar, við hann: „Það er orðið áliðið og dagur að kvöldi kominn. Verið í nótt. Sjá, degi hallar. Vertu hér í nótt og láttu liggja vel á þér en á morgun getið þið lagt af stað snemma svo að þú getir náð heim til þín.“
10 Maðurinn vildi ekki vera um nóttina heldur bjóst til ferðar, hélt af stað og náði norður á móts við Jebús, það er Jerúsalem, og hafði hann með sér tvo söðlaða asna og hjákonu sína. 11 Þegar þau voru hjá Jebús og mjög var áliðið dags sagði sveinninn við húsbónda sinn: „Komdu, við skulum fara inn í þessa borg Jebúsíta og gista þar.“ 12 En húsbóndi hans sagði við hann: „Förum ekki inn í borg ókunnugra manna þar sem engir Ísraelsmenn búa. Höldum frekar áfram til Gíbeu. 13 Komdu,“ sagði hann við svein sinn, „við skulum fara í eitthvert þorpanna og gista í Gíbeu eða Rama.“ 14 Síðan héldu þeir áfram leið sinni en sólin gekk til viðar þegar þeir voru hjá Gíbeu sem er í Benjamín.
15 Beygðu þeir þar af leið sinni til þess að fara inn í Gíbeu til gistingar. Þegar hann kom þangað stansaði hann á bæjartorginu en enginn tók þau inn í hús sitt til gistingar.
16 Aldraður maður kom frá vinnu sinni utan af akri um kvöldið. Hann var frá Efraímsfjöllum og bjó sem útlendingur í Gíbeu en mennirnir, sem þarna bjuggu, voru Benjamínítar. 17 Þegar honum varð litið upp sá hann ferðamanninn á bæjartorginu. Þá sagði gamli maðurinn: „Hvert ert þú að fara og hvaðan kemurðu?“ 18 Hinn svaraði: „Við komum frá Betlehem í Júda og ætlum langt norður í Efraímsfjöll. Þaðan er ég. Ég fór suður til Betlehem og er nú á heimleið en enginn hér hefur boðið mér inn til sín. 19 Við höfum bæði hálm og fóður handa ösnum okkar og einnig brauð og vín handa mér og ambátt þinni og sveininum sem er með þjónum þínum. Hér skortir ekki neitt.“ 20 Þá sagði gamli maðurinn: „Vertu velkominn. Lofaðu mér að sjá fyrir öllu sem þig kann að vanhaga um en þú mátt ekki liggja úti hér á torginu í nótt.“ 21 Hann leiddi hann inn í hús sitt og gaf ösnunum og þau þvoðu fætur sína og átu og drukku.
22 En meðan þau voru að matast umkringdu illmenni nokkur úr borginni húsið, börðu á hurðina og kölluðu til húsbóndans, gamla mannsins: „Leiddu út manninn sem kominn er til þín svo að við getum kennt hans.“ 23 Þá gekk maðurinn, sem þarna réð húsum, út til þeirra og sagði við þá: „Nei, bræður mínir, fyrir alla muni fremjið ekki slíka óhæfu. Fyrst þessi maður er kominn á heimili mitt fremjið þá ekki slíka svívirðu. 24 Hér er hjákona hans og mærin dóttir mín. Ég skal leiða þær út og þær megið þið taka nauðugar og gera við þær hvað sem ykkur langar en á þessum manni megið þið ekki fremja slíka svívirðu.“ 25 En mennirnir hlustuðu ekki á hann. Þá þreif maðurinn í hjákonu sína og hratt henni út á strætið til þeirra og þeir nauðguðu henni og misþyrmdu alla nóttina, allt til morguns, og slepptu henni ekki fyrr en dagur rann. 26 Þegar birta tók af degi kom konan og féll niður fyrir húsdyrum mannsins þar sem bóndi hennar var inni og lá hún þar uns bjart var orðið.
27 Þegar bóndi hennar fór á fætur um morguninn, lauk upp húsdyrunum, gekk út og ætlaði að halda af stað lá konan, það er hjákona hans, úti fyrir dyrunum með hendurnar á þröskuldinum. 28 Hann sagði þá við hana: „Stattu upp, við skulum halda af stað,“ en fékk ekkert svar. Þá lét hann hana upp á asnann og maðurinn tók sig upp og hélt af stað heim til sín. 29 Þegar hann kom heim tók hann hníf, þreif hjákonu sína og bútaði hana sundur í tólf hluti og sendi þá út um allar byggðir Ísraels. 30 Og sérhverjum sem þetta sá varð að orði: „Ekki hefur slíkt gerst og ekki hefur slíkt sést frá því að Ísraelsmenn fóru af Egyptalandi og allt fram á þennan dag. Hugleiðið þetta, ráðið ráðum ykkar og segið hvað ykkur líst.“