Uppreisn Absalons

1 Nokkru síðar fékk Absalon sér vagn og hesta og fimmtíu menn sem jafnan hlupu á undan honum. 2 Snemma morguns var hann vanur að standa við veginn að borgarhliðinu. Hvert sinn sem einhver fór þar um til að leggja mál í dóm konungs kallaði Absalon til hans: „Frá hvaða borg ert þú?“ Þegar hann svaraði: „Þjónn þinn er af einum ættbálki Ísraels,“ 3 sagði Absalon við hann: „Þú hefur góðan og réttan málstað en enginn fulltrúi konungs mun hlusta á þig.“ 4 Síðan bætti Absalon við: „Væri ég skipaður dómari í þessu landi kæmu allir til mín sem ættu í deilum eða málaferlum. Ég sæi til þess að þeir næðu rétti sínum.“ 5 Hverju sinni, sem einhver kom til hans og ætlaði að lúta honum, rétti hann út höndina til að koma í veg fyrir það og kyssti hann síðan. 6 Á þennan hátt kom Absalon fram við alla þá Ísraelsmenn sem komu til að leggja mál fyrir konung og þannig slævði hann dómgreind Ísraelsmanna.[
7 Fjórum árum síðar[ sagði Absalon einhverju sinni við konung: „Leyf mér að fara til Hebron og standa við heit sem ég vann Drottni. 8 Þegar ég, þjónn þinn, bjó í Gesúr í Aram vann ég svohljóðandi heit: Ef Drottinn flytur mig aftur til Jerúsalem skal ég halda honum fórnarveislu.“ 9 Konungur svaraði honum: „Far þú í friði.“ Hann lagði þá af stað og fór til Hebron.
10 Síðan sendi Absalon menn til allra ættbálka Ísraels með þessi boð: „Þegar þið heyrið hafurshornið gjalla skuluð þið hrópa: Absalon er konungur í Hebron.“
11 Tvö hundruð manns höfðu fylgt Absalon frá Jerúsalem. Þeim var boðið í veisluna og þeir fylgdu honum í grandaleysi. 12 Í tilefni af fórnarveislunni lét Absalon sækja Akítófel frá Gíló, ráðgjafa Davíðs, til Gíló, heimaborgar hans. Þannig magnaðist samsærið og æ fleiri gengu í lið með Absalon.

Flótti Davíðs

13 Nú kom sendiboði til Davíðs: „Ísraelsmenn eru orðnir hliðhollir Absalon.“ 14 Davíð sagði þá við alla þjóna sína í Jerúsalem: „Komið, við verðum að flýja, annars komumst við ekki undan Absalon. Flýtið ykkur af stað, annars nær hann okkur fljótt, steypir okkur í ógæfu og brytjar niður borgarbúa.“ 15 Þjónar konungs svöruðu: „Við gerum allt sem herra okkar og konungur ákveður. Við erum þjónar þínir.“
16 Konungur hélt þá burt úr borginni og öll fjölskylda hans fylgdi honum. Samt skildi hann tíu hjákonur eftir til að gæta hússins.
17 Konungur fór út úr borginni ásamt öllum hernum. Þeir námu staðar við ysta húsið 18 en allir þjónar hans gengu fram hjá honum, allir Kretarnir og Pletarnir. Gatítarnir sex hundruð, sem höfðu fylgt honum frá Gat, gengu einnig fram hjá konunginum. 19 Þá sagði konungurinn við Ittaí frá Gat: „Hvers vegna ætlar þú einnig að koma með okkur? Snúðu við og vertu með nýja konunginum því að þú ert útlendingur og útlægur úr heimabyggð. 20 Þú komst í gær, ætti ég þá í dag að taka þig með okkur út í óvissuna? Ég verð að fara eitthvað en veit ekki hvert. Snúðu við og taktu landa þína með þér og megi Drottinn sýna þér náð og trúfesti.“ 21 Ittaí svaraði konungi og sagði: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem herra minn, konungurinn, lifir, þá mun þjónn þinn einnig verða þar sem herra minn, konungurinn, verður, hvort sem það verður til dauða eða lífs.“ 22 Þá sagði Davíð við Ittaí: „Haltu þá áfram og gakktu fram hjá.“
Ittaí frá Gat gekk þá fram hjá ásamt öllum mönnum sínum sem höfðu farangur sinn með sér.[ 23 Allir hágrétu, þegar herinn gekk fram hjá konunginum. Síðan fór konungur yfir Kedrondal og allur herinn hélt veginn út í eyðimörkina.
24 Sadók var þarna einnig ásamt Levítunum sem báru örk sáttmála Guðs. Þegar þeir höfðu komið örk Guðs fyrir færði Abjatar brennifórnir þar til allt fólkið var farið úr borginni.
25 Konungur sagði við Sadók: „Farðu aftur með örk Guðs til borgarinnar. Ef Drottinn telur mig verðan velvildar sinnar flytur hann mig þangað aftur og leyfir mér á ný að sjá örk Guðs og bústað hennar. 26 En segi hann: Þú ert mér ekki lengur kær, þá mun hann fara með mig eins og hann vill.“ 27 Enn fremur sagði konungur við Sadók prest: „Skilurðu hvernig þessu er háttað? Farðu í friði aftur til borgarinnar. Akímaas, sonur þinn, og Jónatan, sonur Abjatars, eiga báðir að fara með ykkur. 28 Takið eftir þessu: Ég mun bíða við vöðin yfir til eyðimerkurinnar þar til fréttir koma frá ykkur.“
29 Sadók og Abjatar fluttu þá örk Guðs aftur til Jerúsalem og voru þar um kyrrt.
30 Nú gekk Davíð grátandi og með huldu höfði upp á Olíufjallið. Hann var berfættur og allt fólkið, sem fylgdi honum, huldi höfuð sitt og gekk grátandi upp eftir. 31 Davíð var nú tilkynnt: „Akítófel er meðal þeirra sem hafa gert samsæri með Absalon.“ Þá sagði hann: „Drottinn, snúðu ráði Akítófels í óráð.“
32 Þegar Davíð var kominn upp á fjallstindinn, þar sem siður er að menn falli fram fyrir Guði, kom Arkítinn Húsaí óvænt á móti honum í rifnum klæðum og hafði ausið mold á höfuð sér. 33 Davíð sagði við hann: „Ef þú kemur með mér verður þú aðeins til trafala. 34 En þú getur kollvarpað ráðabruggi Akítófels ef þú ferð inn í borgina og segir við Absalon: „Konungur, ég vil gerast þjónn þinn. Áður var ég þjónn föður þíns en nú vil ég gerast þjónn þinn.“ 35 Prestarnir Sadók og Abjatar verða þarna hjá þér. Allt, sem þú fréttir við hirð konungsins, skaltu segja prestunum Sadók og Abjatar. 36 Þeir hafa syni sína þarna hjá sér, Akímaas Sadóksson og Jónatan Abjatarsson. Allt, sem þið heyrið fréttnæmt, skuluð þið láta mig vita með þeim.“ 37 Húsaí, vinur Davíðs, kom til borgarinnar í sama mund og Absalon hélt inn í Jerúsalem.