Viðbót við erfðarétt kvenna

1 Ættarhöfðingjar Gíleaðssona, en Gíleað var sonur Makírs Manassesonar af ættum Jósefssona, gengu nú fram. Þeir gengu fyrir Móse og ættarhöfðingja Ísraelsmanna 2 og sögðu: „Drottinn hefur boðið herra mínum að skipta landinu í erfðalönd á milli Ísraelsmanna með hlutkesti. Herra mínum var falið af Drottni að fá dætrum Selofhaðs, bróður okkar, erfðaland hans. 3 En ef þær giftast einhverjum af öðrum ættbálkum Ísraelsmanna verður erfðaland þeirra tekið frá erfðalandi feðra okkar og bætt við erfðaland þess ættbálks sem þær munu tengjast en tekið frá erfðalandi okkar sem við fengum með hlutkesti. 4 Þegar fagnaðarár Ísraelsmanna kemur verður erfðalandi þeirra bætt við erfðaland þess ættbálks sem þær hafa tengst en erfðaland þeirra verður slitið frá erfðalandi feðra okkar.“
5 Þá gaf Móse Ísraelsmönnum þessi fyrirmæli að boði Drottins og sagði: „Ættbálkur Jósefssona hefur lög að mæla. 6 Þetta eru fyrirmæli Drottins um dætur Selofhaðs: Þær geta gifst hverjum sem þeim þóknast. Þó mega þær aðeins giftast einhverjum af ættbálki föður síns. 7 Erfðaland má ekki ganga úr eign eins ættbálks í eigu annars meðal Ísraelsmanna heldur skal sérhver Ísraelsmaður vera bundinn við erfðaland feðra sinna. 8 Sérhver stúlka, sem eignast erfðaland í einhverjum ættbálki Ísraelsmanna, verður að giftast manni úr einhverri af ættum ættbálks föður hennar svo að sérhver Ísraelsmaður taki erfðaland föður síns til eignar. 9 Erfðaland má ekki ganga úr eigu eins ættbálks í eigu annars heldur skal sérhver ættbálkur Ísraels vera bundinn við erfðaland sitt.“
10 Dætur Selofhaðs gerðu eins og Drottinn hafði boðið Móse. 11 Mahla, Tirsa, Hogla, Milka og Nóa giftust sonum föðurbræðra sinna, 12 þær giftust mönnum af ættum Manassesona, sonar Jósefs. Erfðalönd þeirra voru því áfram í ættbálki föðurættar þeirra.
13 Þetta eru boðin og reglurnar sem Drottinn setti Ísraelsmönnum fyrir munn Móse á gresjum Móabs við Jórdan gegnt Jeríkó.