1A

Draumsýn Mardokaí

1 Á öðru stjórnarári stórkonungsins Artaxerxesar,[ á fyrsta degi nísanmánaðar, dreymdi Mardokaí Jaírsson draum. Jaír var sonur Shimi Kíssonar af ættkvísl Benjamíns. 2 Mardokaí var Gyðingur og bjó í Súsa, mikilhæfur maður og gegndi þjónustu við hirð konungs. 3 Hann var í hópi þeirra sem Nebúkadnesar, konungur Babýloníumanna, flutti í útlegð frá Jerúsalem ásamt Jekonja Júdakonungi.[
4 Mardokaí dreymdi: Óhljóð og fyrirgangur, þrumugnýr og landskjálftar, öngþveiti á jörðu. 5 Skyndilega birtust tveir miklir drekar albúnir til einvígis. Þeir öskruðu ógurlega 6 og við óhljóð þeirra tóku allar þjóðir að vígbúast til að herja á þjóð réttlátra. 7 Það var dagur myrkurs og skugga, þrenging var og neyð, þjáning og mikil ringulreið á jörðu. 8 Öll þjóð réttlátra skelfdist og óttaðist ógæfu sína. Bjóst hún við dauða sínum 9 og hrópaði til Guðs. Við ákall fólksins var sem stórfljót streymdi fram af lítilli lind, vatnsmikið fljót. 10 Það birti, sólin kom upp, hinir auðmýktu voru reistir við og gleyptu hina voldugu.
11 Er Mardokaí vaknaði upp frá draumsýn þessari, sem hafði birt honum hvað Guð hugðist fyrir, geymdi hann hana með sér. Lagði hann sig í líma við að ráða drauminn allt fram á kvöld.

Mardokaí bjargar lífi konungs

12 Mardokaí hvíldist í garði hallarinnar. Þar voru einnig þeir Gabata og Þarra, tveir geldinga konungs, og gættu hallarinnar. 13 Heyrði hann á tali þeirra hvað þeir voru að bræða með sér og undirbúa. Þegar Mardokaí lagði eyrun nánar við komst hann að raun um að þeir voru að leggja á ráðin um að myrða Artaxerxes konung. Sagði hann konungi til þeirra. 14 Konungur yfirheyrði báða geldingana sem gengust við þessu og voru teknir af lífi. 15 Konungur lét skrifa þetta niður svo að það gleymdist ekki. Mardokaí skráði einnig þessa atburði. 16 Konungurinn skipaði Mardokaí enn fremur til þjónustu í höllinni og gaf honum gjafir í þakkarskyni.
17 En Búgaíti nokkur, Haman Hamadatsson, var í miklu áliti hjá konungi. Leitaðist hann við að skaða Mardokaí og þjóð hans vegna beggja geldinga konungsins.

1

Astin drottning óhlýðnast konungi

1 Eftir þessa atburði bar það við á dögum Artaxerxesar konungs sem hér segir frá. Það var sá Artaxerxes sem ríkti yfir eitt hundrað tuttugu og sjö skattlöndum frá Indlandi til Eþíópíu. 2 Þegar Artaxerxes sat í hásæti sínu í borginni Súsa 3 hélt hann mikla veislu. Var það á þriðja stjórnarári hans. Bauð hann vinum sínum til veislunnar, hátt settum Persum og Medum og mönnum af öðru þjóðerni sem og landstjórum skattlandanna. 4 Eftir að hafa sýnt þeim auðæfi ríkis síns og ekkert til sparað í dýrindis veisluhöldum í eitt hundrað og áttatíu daga 5 leið að lokum brúðkaupsdaganna. Þá hélt konungur mönnum úr borginni af ýmsu þjóðerni veislu. Stóð veislan í sex daga og var haldin í garði hallarinnar. 6 Var hann skreyttur lín- og bómullartjöldum sem héngu á hvítum og purpurarauðum snúrum milli marmara- og steinsúlna sem efst voru búnar gulli og silfri. Legubekkir úr gulli og silfri stóðu á gólfi sem þakið var steinflögumyndum úr smaragðs-, perlumóður- og marmarasteini. Á bekkina voru lagðar örþunnar slæður með marglitu mynstri en ísaumaðar rósir á földunum. 7 Bikarar voru úr gulli og silfri og einn smábikarinn var úr rúbínsteini og metinn á þrjátíu þúsund talentur. Eðalvín var óspart borið fram, sams konar og konungur sjálfur drakk. 8 Drykkjan fylgdi engri fyrirframgerðri skipan því að þannig vildi konungur hafa þetta og hafði boðið þjónum sínum að láta í öllu að vilja sínum og gestanna. 9 Samtímis hélt Astin drottning konunum veislu í höll Artaxerxesar.
10 Á sjöunda degi, þegar sem best lá á konungi, skipaði Artaxerxes konungur þeim Haman, Bazan, Þarra, Bórase, Saþolta, Abatasa og Þaraba, sjö geldingum sem voru þjónar hans, 11 að leiða drottninguna til sín. Ætlaði hann að lýsa hana drottningu, láta hana bera kórónu og sýna öllum höfðingjunum og þjóðunum fegurð hennar, en hún var bráðfögur kona. 12 En Astin drottning hlýddi ekki og neitaði að koma með geldingunum. Við það varð konungur þungur í sinni og reiður. 13 Sagði hann vinum sínum frá því sem Astin hafði gert og bað þá að dæma um hvað lögin segðu um slíkt. 14 Arkesaios, Sarsaþaios og Maleesear gengu fram fyrir hann. Þeir voru höfðingjar frá Persíu og Medíu, nánastir konungi og fremstir ráðunauta hans. 15 Þeir greindu honum frá því sem lögum samkvæmt bæri að gera við Astin drottningu fyrir að óhlýðnast þeim boðum konungs sem geldingarnir fluttu henni. 16 Sagði Múkaios við konung og höfðingjana: „Astin drottning hefur ekki einungis brotið gegn konungi heldur einnig öllum höfðingjum og æðstu mönnum konungs.“ 17 Hafði hann skýrt þeim frá orðum drottningar og hvernig hún mótmælti konungi. „Á sama hátt og hún sýndi Artaxerxesi konungi mótþróa,“ hélt hann áfram, 18 „munu hinar konurnar við hirðina, konur höfðingja Persa og Meda, dirfast þegar í dag að niðurlægja eiginmenn sína þegar þær heyra hvernig hún talaði við konung. 19 Ef konungi þóknast, þá skalt þú láta konungsboð út ganga sem skal ritað í samræmi við lög Meda og Persa. Skal í engu frá því víkja. Drottningin má aldrei framar koma til þín. Drottningartign hennar skal konungur veita konu sem er henni betri. 20 Hverjum þeim lögum sem konungur setur í ríki sínu ber að hlýða. Þess vegna mun sérhver kona auðsýna manni sínum virðingu, jafnt fátæk sem rík.“
21 Konungi og höfðingjum hans gast vel að þessum orðum og gerði konungur eins og Múkaios hafði lagt til. 22 Sendi hann fyrirmæli til allra skattlanda ríkis síns á þjóðtungu hvers og eins þeirra og bauð að eiginmönnum skyldi auðsýnd virðing á heimilum sínum.