Ævarandi friður

1 Þetta er það sem Jesaja Amotssyni vitraðist um Júda og Jerúsalem.

Friður

2Það skal verða á komandi dögum
að fjallið, sem hús Drottins stendur á, bifast ekki,
það ber yfir hæstu fjallstinda og gnæfir yfir allar hæðir.
Þangað munu allar þjóðir streyma
3og margir lýðir koma og segja:
„Komið, göngum upp á fjall Drottins,
til húss Jakobs Guðs
svo að hann vísi oss vegu sína
og vér getum gengið brautir hans.“
Því að fyrirmæli koma frá Síon,
orð Drottins frá Jerúsalem.
4Og hann mun dæma meðal lýðanna
og skera úr málum margra þjóða.
Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum
og sniðla úr spjótum sínum.
Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð
og ekki skulu þær temja sér hernað framar.
5Ættmenn Jakobs, komið,
göngum í ljósi Drottins.

Dagur Drottins

6Þú hefur hafnað ætt Jakobs, lýð þínum,
því að hún er uppfull af austrænni hjátrú
og spásögnum eins og Filistear iðka
og handsalar samning við útlendinga. [
7Land þeirra er fullt af silfri og gulli
og fjársjóðir þeirra eru óþrjótandi.
Land þeirra er fullt af hestum
og hervagnar þeirra óteljandi.
8Land þeirra er fullt af skurðgoðum,
menn falla fram fyrir eigin handaverkum,
fyrir því sem fingur þeirra hafa gert.
9Þá var maðurinn beygður
og mannkindin auðmýkt.
Fyrirgef þeim eigi.
10Gakk inn í bergið,
fel þig í jörðu
fyrir ógn Drottins
og ljóma hátignar hans.
11Hrokafull augu manna munu auðmýkt
og dramb þeirra lægt.
Drottinn einn mun upphafinn
á þeim degi.
12Dagur Drottins herskaranna kemur
yfir allt dramblátt og hrokafullt,
yfir allt sem gnæfir hátt,
13yfir öll sedrustré á Líbanon,
há og gnæfandi,
og allar Basanseikur,
14yfir öll gnæfandi fjöll
og yfir allar háar hæðir,
15yfir alla háreista turna,
yfir alla ókleifa borgarmúra,
16yfir öll Tarsisskip,
yfir öll skip hlaðin glysi.
17Þá verður hroki mannanna beygður
og dramb þeirra lægt.
Drottinn einn mun upphafinn á þeim degi.
18Skurðgoðin munu hverfa með öllu.
19Flýið í klettahella
og í gjótur í jörðinni
fyrir ógn Drottins
og ljóma hátignar hans
þegar hann rís upp og skelfir jörðina.
20Á þeim degi varpa menn fyrir moldvörpur og leðurblökur
silfurgoðum sínum og gullgoðum
sem þeir gerðu sér til að tilbiðja.
21Þeir munu leita inn í klettaskúta og hamraskorur
undan ógn Drottins
og ljóma hátignar hans
þegar hann rís upp og skelfir jörðina.
22 Hættið að treysta mönnum,
hverfulan lífsanda hafa þeir í nösum,
hvers virði er hann?