Svar Jobs

1 Job svaraði og sagði:
2Sannarlega styrkir þú hinn þróttlausa
og styður máttvana arm.
3Þú gefur fávísum holl ráð
og veitir honum djúpan skilning.
4Með fulltingi hvers hefur þú talað,
hvers er andinn sem frá þér kemur?

Almætti Guðs

5Andar framliðinna skjálfa hið neðra,
undir hafdjúpinu, og þeir sem þar búa.
6Ríki dauðra er berskjaldað fyrir Guði
og ekkert hylur undirheima
7fyrir honum sem þenur norðrið yfir tómið
og lætur jörðina svífa í geimnum.
8Hann bindur vatn í skýjum sínum
og skýin bresta ekki undan því,
9hann hylur auglit tungls í fyllingu
og breiðir skýflóka sína fyrir það.
10Hann dró mörk á hafflötinn
þar sem ljós og myrkur mætast.
11Súlur himins skulfu
og skelfdust ógnun hans.
12Með mætti sínum lægði hann hafið,
með visku sinni molaði hann Rahab.
13Fyrir andgusti hans varð himinninn heiður,
með hendi sinni lagði hann hraðfleygan drekann í gegn.
14Þetta eru ystu mörk verka hans,
það sem vér heyrum um hann er hvískur
en hver fær skilið þrumu máttar hans?