Kveðja

1 Páll, bandingi Krists Jesú, og Tímóteus bróðir okkar heilsa elskuðum vini okkar og samverkamanni, Fílemon, 2 svo og Appíu systur okkar og Arkippusi samherja okkar og söfnuðinum sem kemur saman í húsi þínu.
3 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Þakkir og fyrirbæn

4 Ég þakka Guði mínum ávallt er ég minnist þín í bænum mínum 5 því að ég heyri um trú þína á Drottni Jesú og um kærleika þinn til hinna heilögu. 6 Ég bið að það sem þú átt og gefur í trúnni styrki þig til þess að skilja allt hið góða sem veitist í Kristi. 7 Mikla gleði og uppörvun hef ég þegið sakir kærleika þíns því að þú, bróðir, hefur endurnært hjörtu heilagra.

Tak á móti honum

8 Þótt ég gæti með fullri djörfung í Kristi boðið þér að gera það sem skylt er, 9 þá fer ég heldur bónarveg vegna kærleika þíns þar sem ég er eins og ég er, hann Páll gamli, og nú líka bandingi Krists Jesú.[ 10 Ég bið þig þá fyrir barnið mitt sem ég hef getið í fjötrum mínum, hann Onesímus. 11 Hann var þér áður óþarfur en er nú þarfur bæði þér og mér. 12 Ég sendi hann til þín aftur og er hann þó sem hjartað í brjósti mér. 13 Feginn vildi ég hafa haldið honum hjá mér til þess að hann í þinn stað væri mér til hjálpar í fjötrum mínum vegna fagnaðarerindisins. 14 En án þíns samþykkis vildi ég ekkert gera til þess að velgjörð þín skyldi ekki koma eins og af nauðung heldur af fúsum vilja.
15 Vísast hefur hann þess vegna orðið viðskila við þig um stundarsakir, að þú síðan skyldir fá að halda honum eilíflega, 16 ekki lengur eins og þræli heldur þræli fremri, eins og elskuðum bróður. Mér er hann kær bróðir. Hve miklu fremur þó þér bæði sem maður og kristinn. 17 Ef þú því telur mig bróður þinn í trúnni, þá tak þú á móti honum eins og væri það ég sjálfur. 18 En hafi hann eitthvað gert á hluta þinn eða sé hann í skuld við þig, þá fær þú það mér til reiknings. 19 Ég, Páll, rita með eigin hendi: Ég mun greiða. Að ég ekki nefni við þig að þú ert jafnvel í skuld við mig um sjálfan þig. 20 Já, bróðir, unn mér gagns af þér vegna Drottins, endurnær hjarta mitt sakir Krists.
21 Fullviss um hlýðni þína rita ég til þín og veit að þú munt gera jafnvel fram yfir það sem ég mælist til.
22 En hafðu líka til gestaherbergi handa mér því að ég vona að þið öðlist þá bænheyrslu að fá mig aftur.

Kveðjur

23 Epafras, sambandingi minn vegna Krists Jesú, biður að heilsa þér. Sömuleiðis 24 Markús, Aristarkus, Demas og Lúkas, samverkamenn mínir.
25 Náðin Drottins vors Jesú Krists sé með anda yðar.