Kýrus, verkfæri Guðs

1Svo segir Drottinn við sinn smurða,
Kýrus, sem ég hef tekið í hægri höndina á
til að leggja undir hann þjóðir,
ræna konunga vopnum
til að opna hlið fyrir honum
svo að borgarhlið verði ekki lokuð.
2Ég geng sjálfur á undan þér
og jafna fjöllin.
Ég mun brjóta eirhliðin
og mölva slagbranda úr járni,
3gefa þér hulda fjársjóði
og falin auðæfi
svo að þú skiljir að ég er Drottinn
sem kalla þig með nafni,
ég, Guð Ísraels.
4Vegna Jakobs, þjóns míns,
og Ísraels, míns útvalda,
kallaði ég þig með nafni,
gaf þér sæmdarheiti
þótt þú þekktir mig ekki.
5Ég er Drottinn og enginn annar,
enginn er Guð nema ég.
Ég bjó þig hertygjum
þótt þú þekktir mig ekki
6svo að bæði í austri og vestri skilji menn
að enginn er Guð nema ég.
7Ég mynda ljós og skapa myrkur,
ég veiti heill og veld óhamingju.
Ég er Drottinn sem gerir allt þetta.
8Drjúpið þér, himnar, að ofan,
skýin láti réttlæti niður streyma,
jörðin opnist og láti heill spretta fram
og réttlætið blómgast.
Ég er Drottinn sem skapar þetta.

Enginn jafnast á við Guð

9Vei þeim sem deilir við skapara sinn,
þeim sem er leirbrot innan um önnur leirbrot jarðar.
Getur leirinn spurt þann sem mótar hann:
„Hvað ert þú að gera?“
eða verk hans sagt:
„Hann hefur engar hendur.“
10Vei þeim sem spyr föður sinn:
„Hvað munt þú fá getið?“
eða konuna:
„Hvað ætli þú getir fætt?“
11Svo segir Drottinn, Hinn heilagi Ísraels og skapari hans:
Ætlið þér að kvarta undan sonum mínum
og gefa mér fyrirmæli um handaverk mín?
12Ég gerði jörðina og skapaði mennina á henni,
ég þandi út himininn með eigin höndum
og ég stýri öllum hans her.
13Ég vakti hann [ í réttlæti
og geri brautir hans beinar.
Hann mun endurreisa borg mína
og láta útlaga mína lausa
án lausnargjalds eða gjafa,
segir Drottinn allsherjar.
14Svo segir Drottinn:
Auður Egyptalands og gróði Kúss
og hinir hávöxnu Sabear
munu koma til þín og verða þín eign.
Þeir munu fylgja þér í fjötrum
og falla fram fyrir þig og játa:
„Hjá þér einum er Guð
og enginn annar er til,
enginn annar Guð.“
15Sannarlega ert þú Guð sem hylur þig,
Guð Ísraels, frelsari.
16Allir verða þeir að háði og spotti,
allir skurðgoðasmiðirnir ganga burt með skömm.
17En Drottinn mun bjarga Ísrael
og sú frelsun varir að eilífu.
Þér verðið hvorki til skammar né hafðir oftar að spotti,
aldrei að eilífu.
18Já, svo segir Drottinn, skapari himinsins, hann einn er Guð,
hann mótaði jörðina og bjó hana til,
hann grundvallaði hana,
hann skapaði hana ekki sem auðn
heldur gerði hana byggilega:
Ég er Drottinn og enginn annar er til.
19Ég hef ekki talað í leynum,
ekki einhvers staðar í myrku landi,
ég hef ekki sagt við niðja Jakobs:
„Leitið mín í tóminu.“
Ég er Drottinn og segi það sem satt er,
skýri frá því sem rétt er.

Drottinn einn er frelsari

20Safnist saman og komið,
gangið nær, þér sem komust undan af þjóðunum.
Þér sem burðist með trémyndir skiljið ekkert,
tilbiðjið guð sem getur ekki hjálpað.
21Gerið kunnugt og leggið það fyrir,
já, ráðgist hver við annan:
Hver boðaði þetta frá öndverðu,
skýrði frá því fyrir löngu?
Var það ekki ég, Drottinn?
Því að enginn er Guð nema ég,
réttlátur Guð og frelsari er enginn nema ég.
22 Hverfið aftur til mín og látið frelsast,
gjörvöll endimörk jarðar,
því að ég er Guð og enginn annar.
23 Ég hef svarið við sjálfan mig:
Af munni mínum er sannleikur út genginn,
orð sem ekki snýr aftur.
Fyrir mér skal sérhvert kné beygja sig
og sérhver tunga sverja við mig.
24 Sagt var um mig: Hjá Drottni einum er réttlæti og styrkur.
Allir sem hamast af heift gegn honum
munu koma fyrir hann og blygðast sín.
25 En hjá Drottni hljóta allir niðjar Ísraels réttlæti og fagna.