1 Sem samverkamaður Krists hvet ég ykkur einnig að þið látið ekki náð Guðs, sem þið hafið þegið, verða til einskis. 2 Hann segir:
Á hagkvæmri tíð bænheyrði ég þig,
og á hjálpræðisdegi hjálpaði ég þér.

Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðisdagur. 3 Í engu vil ég gefa neinum tilefni til ásteytingar, ég vil ekki að þjónusta mín sæti lasti. 4 Í öllu læt ég sjást að ég er þjónn Guðs: Með miklu þolgæði í þrengingum, nauðum og andstreymi, 5 þegar ég hef mátt þola barsmíðar, verið í fangelsi, orðið fyrir aðsúg, í erfiði mínu, andvökum og sulti, 6 með grandvarleik, þekkingu, þolinmæði og mildi, með heilögum anda, með falslausum kærleika, 7 með orði sannleikans, með krafti Guðs, með vopnum réttlætisins til sóknar og varnar, 8 í heiðri og vanheiðri, lasti og lofi. Þótt talinn sé villumaður segi ég sannleikann, 9 sagður óþekktur en er alþekktur, kominn í dauðann og samt lifi ég, tyftaður og þó ekki deyddur, 10 hryggur en þó ávallt glaður, fátækur en auðga þó marga, öreigi en á þó allt.
11 Ég tala frjálslega við ykkur, Korintumenn. Rúmt er um ykkur í hjarta mínu. 12 Ekki er þröngt um ykkur hjá mér en í hjörtum ykkar er þröngt. 13 En svo að sama komi á móti – ég tala eins og við börn mín – þá látið þið líka verða rúmgott hjá ykkur.

Musteri lifanda Guðs

14 Dragið ekki ok með vantrúuðum. Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti eða með ljósi og myrkri? 15 Hvað eiga Kristur og Belíar sameiginlegt? Hvað eiga trúaðir sameiginlegt með vantrúuðum? 16 Hvernig getur musteri Guðs þolað skurðgoð? Við erum musteri lifanda Guðs eins og Guð hefur sagt:
Ég mun búa meðal þeirra og dveljast hjá þeim
og ég mun vera Guð þeirra
og þeir munu vera lýður minn.

17 Þess vegna segir Drottinn:
Farið burt frá þeim og skiljið ykkur frá þeim.
Snertið ekki neitt óhreint og ég mun taka ykkur að mér
18og ég mun vera ykkur faðir
og þið munuð vera mér synir og dætur,

segir Drottinn alvaldur.