1 Íbúar Kirjat Jearím komu og sóttu örk Drottins. Þeir fluttu hana í hús Abínadabs á hæðinni og vígðu Eleasar, son hans, til að gæta arkar Drottins.

Samúel dómari í Ísrael

2 Nú leið langur tími. Tuttugu árum eftir að örkinni var komið fyrir í Kirjat Jearím tók öll Ísraelsþjóð að hrópa á Drottin. 3 Þá sagði Samúel við alla Ísraelsmenn: „Ef þið viljið snúa ykkur af öllu hjarta aftur til Drottins fjarlægið þá alla framandi guði og Astörtur úr samfélagi ykkar og haldið ykkur heils hugar við Drottin og þjónið honum einum. Þá mun hann frelsa ykkur úr höndum Filistea.“ 4 Ísraelsmenn fjarlægðu þá Baalana og Astörturnar og þjónuðu Drottni einum.
5 Því næst sagði Samúel: „Safnið saman öllum Ísrael í Mispa og ég skal biðja til Drottins fyrir ykkur.“ 6 Þeir söfnuðust þá saman í Mispa, jusu upp vatni og helltu því niður frammi fyrir augliti Drottins. Þeir föstuðu þennan dag og játuðu: „Við höfum syndgað gegn Drottni.“ Samúel var dómari yfir Ísraelsmönnum í Mispa.
7 Þegar Filistear fréttu að Ísraelsmenn hefðu safnast saman í Mispa héldu höfðingjar Filistea af stað gegn Ísrael. Um leið og Ísraelsmenn heyrðu það hræddust þeir Filistea 8 og sögðu við Samúel: „Láttu ekki af að ákalla Drottin, Guð okkar, svo að hann frelsi okkur úr höndum Filistea.“
9 Samúel tók þá nýfætt lamb og færði Drottni það að brennifórn, alfórn. Samúel hrópaði síðan til Drottins fyrir Ísraelsmenn og Drottinn bænheyrði hann. 10 Á meðan Samúel færði alfórnina höfðu Filistear nálgast og ráðist á Ísraelsmenn. Þennan dag sendi Drottinn mikið þrumuveður gegn Filisteum svo að ofboð greip þá og þeir biðu lægri hlut fyrir Ísraelsmönnum. 11 Ísraelsmenn fóru síðan frá Mispa og ráku Filistea á flótta niður fyrir Betkar og hjuggu þá niður. 12 En Samúel tók stein og reisti hann upp milli Mispa og Jesjana. Hann nefndi hann Ebeneser og sagði: „Drottinn hefur hjálpað okkur hingað.“
13 Á þennan hátt voru Filistear yfirbugaðir og þeir komu ekki framar inn í land Ísraelsmanna. Á meðan Samúel var á lífi hvíldi hönd Drottins þungt á Filisteum. 14 Ísraelsmenn endurheimtu borgirnar sem Filistear höfðu unnið af þeim, frá Ekron til Gat. Enn fremur náðu þeir úr höndum Filistea landsvæðinu umhverfis þessar borgir en friður var milli Ísraelsmanna og Amoríta.
15 Samúel var dómari í Ísrael til dauðadags. 16 Á hverju ári fór hann um Betel, Gilgal og Mispa og dæmdi Ísrael á öllum þessum stöðum. 17 En hann sneri ævinlega aftur til Rama því að þar átti hann heima og þar reisti hann Drottni altari.