1Veistu hvenær steingeitur bera,
fylgistu með fæðingarhríðum hinda?
2Telurðu mánuðina sem þær ganga með
og veistu hvenær þær bera?
3Þær hnipra sig saman, bera kálfum sínum
og losna við hríðarnar.
4Kálfarnir styrkjast og dafna í haganum,
hlaupa burt og koma ekki aftur til þeirra.
5Hver sleppti villiasnanum lausum
og hver leysti fjötra sléttuasnans?
6Ég gerði auðnina að heimkynnum hans
og saltsléttuna að bústað hans.
7Hann hlær að skarkala borgarinnar
og heyrir ekki köll smalanna,
8hann leitar haga í fjöllunum,
sækir í allt grænt.
9Vill villinautið þræla fyrir þig,
stendur það næturlangt við jötu þína?
10Geturðu bundið villinautið í plógfarinu með reipum,
plægir það dalgrundirnar á eftir þér?
11Treystirðu því af því að afl þess er mikið
og lætur það erfiða fyrir þig?
12Treystirðu því til að flytja korn þitt
og safna því á þreskivöll þinn?
13Vængjablak strútshænunnar er skoplegt,
verður vængjum hennar líkt við flugfjaðrir storks og fálka?
14Þegar hún skilur egg sín eftir á jörðinni
svo að þau haldist heit í sandinum
15gleymir hún að fótur getur kramið þau
og villidýr troðið þau í sundur.
16Hún beitir unga sína hörðu eins og hún ætti þá ekki.
Þótt erfiði hennar sé til einskis stendur henni á sama
17því að Guð synjaði henni um skynsemi
og veitti henni enga hlutdeild í skilningi.
18En þegar hún stekkur upp, baðar vængjum,
hlær hún að hesti og riddara.
19Gafstu hestinum afl,
klæddirðu makka hans faxi,
20læturðu hann stökkva eins og engisprettu?
Tignarlegt hnegg hans er ógnvekjandi.
21Hann krafsar upp grundina og gleðst,
sterkur veður hann gegn vopnum,
22 hlær að hræðslu, óttast ekkert
og hopar ekki fyrir sverði.
23 Á baki hans glamrar í örvamæli,
spjót og bjúgsverð leiftra,
24 með hávaða og harki þýtur hann yfir landið,
stansar ekki við hornaþyt.
25 Hann hneggjar þegar horn er þeytt,
hefur veður af bardaga langt að,
köllum liðsforingja og herópum.
26 Er það fyrir þína visku sem fálkinn flýgur upp
og þenur vængina til suðurs?
27 Hefur örninn sig til flugs eftir þinni skipun
og gerir sér hreiður hátt uppi?
28 Hann býr í björgum og náttar þar
á klettagnípum og fjallatindum,
29 þaðan skyggnist hann eftir bráð,
augu hans horfa langt í fjarska.
30 Unga hans þyrstir í blóð
og þar sem fallnir liggja
er hann kominn.