Dómur Drottins yfir Egyptalandi

1 Orð Drottins kom til mín:
2Mannssonur, spá þú og seg: Svo segir Drottinn Guð:
Grátið og kveinið yfir þessum degi.
3Því að dagurinn er í nánd,
dagur Drottins er í nánd,
dagur dimmra skýja.
Hann verður endadægur þjóðanna.
4Sverð kemur gegn Egyptalandi
og Kús tekur að nötra
þegar hinir vegnu falla í Egyptalandi
og fjársjóðir landsins verða teknir
og grunnmúrar þess jafnaðir við jörðu.
5Fólkið frá Kús, Pút og Lúd,
hinar ólíkustu þjóðir, fólk frá Kúta
og fólk frá landinu, sem ég gerði sáttmála við,
mun falla fyrir sverðinu ásamt þeim.
6Svo segir Drottinn:
Þeir sem styðja Egypta munu falla,
hið mikilláta veldi þeirra mun hrapa.
Frá Migdól til Sýene
munu þeir falla fyrir sverði,
segir Drottinn Guð.
7Egyptaland verður auðn
meðal annarra eyddra landa
og borgir þess verða meðal borga í rústum.
8Þeir munu skilja að ég er Drottinn
þegar ég legg eld að Egyptalandi
og allir stuðningsmenn þess farast.
9Á þeim degi munu boðberar mínir halda af stað á skipum
til að skelfa hina áhyggjulausu íbúa í Kús.
Þeir verða gripnir skjálfta á degi Egyptalands,
því að hann mun koma.
10Svo segir Drottinn Guð:
Ég mun gera dýrð [ Egyptalands lýða að engu
með hendi Nebúkadresars,
konungs í Babýlon.
11Hann og her hans,
hinar grimmustu þjóðir,
verða sóttir til að eyða landið.
Þeir munu draga sverð úr slíðrum gegn Egyptalandi
og fylla landið vegnum mönnum.
12Ég mun þurrka upp kvíslar Nílar
og selja landið illmennum í hendur.
Ég mun gereyða landið og allt, sem þar er,
með höndum erlendra manna.
Ég, Drottinn, hef talað.
13Svo segir Drottinn Guð:
Ég mun eyða skurðgoðunum,
láta guðina í Nóf [ líða undir lok.
Brátt verður enginn þjóðhöfðingi í Egyptalandi.
Ég mun senda ótta yfir Egyptaland.
14Ég mun eyða Patrós,
leggja eld að Sóan,
fullnægja refsidómum á Nó.
15Ég mun hella heift minni yfir Sín,
virki Egyptalands,
og eyða dýrðinni í Nó.
16Ég mun leggja eld að Egyptalandi,
Sín mun engjast sundur og saman.
Þeir munu brjóta sér leið inn í Nó
og fjandmenn ráðast á Nó um hábjartan dag.
17Ungmenni frá Ón og Píbeset munu
falla fyrir sverðinu
og íbúarnir munu reknir í útlegð.
18Í Takpankes verður dagurinn dimmur
þegar ég brýt þar veldissprota Egyptalands,
þá mun hið mikilláta veldi þess líða undir lok,
skýjaþykkni mun hylja landið
og dætur þess fara í útlegð.
19Þannig fullnægi ég refsidómnum yfir Egyptalandi,
þá munu þeir skilja að ég er Drottinn.

20 Á sjöunda degi fyrsta mánaðar ellefta ársins kom orð Drottins til mín: 21 Mannssonur, ég hef brotið handlegg[ faraós, konungs í Egyptalandi. Hvorki verður bundið um hann né hann vafinn umbúðum til að græða hann og styrkja svo að hann geti aftur gripið til sverðsins. 22 Þess vegna segir Drottinn Guð svo: Nú held ég gegn faraó, konungi Egyptalands: Ég mun brjóta báða handleggi hans, bæði þann heila og hinn brotna, og slá sverðið úr hendi hans. 23 Ég mun tvístra Egyptum á meðal þjóðanna og dreifa þeim um löndin. 24 Ég mun styrkja handleggi konungsins í Babýlon og fá honum sverð mitt í hönd. En handleggi faraós mun ég brjóta og hann mun stynja frammi fyrir konungi Babýlonar eins og helsærðir menn. 25 Ég mun styrkja handleggi konungsins í Babýlon en handleggir faraós munu hanga máttvana. Þegar ég fæ konunginum í Babýlon sverð mitt í hendur, og hann reiðir það gegn Egyptalandi, munu þeir skilja að ég er Drottinn. 26 Ég mun tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin. Þá munu þeir skilja að ég er Drottinn.